22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (4301)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Þetta frv., svo hér liggur fyrir, er nú ekki nýtt að því leyti, að það hefir legið fyrir undanfarandi þingum og verið tekið til meðferðar. Einkum urðu umr. um það á þingi 1932, og var þá afgr. frá þessari hv. d. með rökst. dagskrá, á þeim grundvelli, að fræðslumálastjóra var falið að hlutast til um, að skipti skólabóka yrðu ekki um of og verð ekki óhóflega hátt.

Frv. þetta liggur hér fyrir sem stjfrv. Er margt einkennilegt við frv., og þó einkum grg. Ef hv. þdm. hafa lesið grg., hafa þeir sjálfsagt tekið eftir því, að þar er slegið fram margskonar fullyrðingum um þá hlið málsins, að nauðsynlegt sé, að ríkið taki að sér bókaútgáfuna, en ekki reynt að sýna fram á með rökum, að þessi leið sé sú rétta. Þar er sagt, að skólabækurnar séu dýrar, frágangur óvandaður og í þriðja lagi að hagnaður þeirra, sem fyrir útgáfunni standa, sé óhæfilega mikill o. s. frv. Ennfremur að sölulaun til þeirra, sem bækurnar selja, séu óhæfilega há úti um landi. Þá er þar fullyrt, að mikill hluti fátækra barna eignist aldrei nauðsynlegan bókakost, og sumstaðar sé svo óskaplega ástatt, að kennararnir verði að kaupa sjálfir bækurnar og gefa börnunum, svo að þau fái þann bókakost, sem þau þurfa. Allt er þetta sagt án þess að benda á dæmi. Ennfremur er sagt, að í nágrannalöndunum, þar sem menningin sé meiri, sé þessu svo skipað, að bæir og borgir hafi tekið útgáfuna í sínar hendur. Ekkert er þetta rökstutt, og að svo miklu leyti sem ég þekki, er það ýmist mjög sjaldgæft eða ekki til. Þá er það enn, að hér sé á það að líta, að annarsstaðar sé skólabókum útbýtt ókeypis til skólabarna, en því sé ekki að heilsa hér á landi. En þetta er „positivt“ rangt; a. m. k. veit ég, að það er gert hér í Reykjavík. Ég held, að svo sé fyrir mælt í lögum, að fátæk börn, sem ekki geta keypt nauðsynlegar bækur, skuli fá þær endurgjaldslaust; a. m. k. er þetta gert hér í Reykjavík, og mun vera gert einnig annarsstaðar hér á landi, þar sem það er skýrt tekið fram, að það sé lagaleg skylda. Að þessu leyti er því alveg rangt frá skýrt í grg. frv. Svo er sagt, að bækurnar séu seldar allt of háu verði. Verðið liggi í óþarfa útgáfum, óhóflegum kostnaði og óhæfilegum gróða útgefendanna. Að þessu eru engin rök færð, en allt staðlausir stafir og fullyrðingar út í bláinn, sem sýnir tilfinnanlega, að sumar eru gerðar til að hafa áhrif á afstöðu þm. til þessa máls.

Ég verð því fyrst og fremst að segja, að mér finnst frv. og sérstaklega grg. ósköp óvandað að frágangi, og mun því mega fullkomlega segja það, sem ég hefi nú sagt. Eigi raunverulega að upplýsa þm. um þetta mál, sem hér er um að ræða, verður a. m. k. að nefna einhverjar tölur — einhverjar stærðir —, sem hægt er að miða við. Eins og hv. þdm. vita, er nú svo ástatt, að til eru lög frá 1928 um eftirlit af ríkisins hálfu með útgáfu skólabóka, þar sem ríkisvaldið á að löggilda nefndar bækur. Það mun því vera lítið svo á, að þeir, sem fara með þetta umboð ríkisvaldsins, eigi fyrst og fremst að hafa eftirlit með öllum innri frágangi bókanna, hvernig þær eru samdar, að ekki sé þar rangt frá skýrt o. s. frv. Það mætti að sjálfsögðu einnig setja ákveðna kosti um frágang og verð, ef þurfa þykir. Sýnist nú hv. þm. mögulegt, að þetta sé allt í eins slæmu lagi og af er látið, jafnvel og séð er fyrir íhlutun ríkisvaldsins í þessum efnum? Og því er ekki að neita, að það er eðlilegt og sjálfsagt, að ríkisvaldið hafi þar nokkur afskipti, en það getur skapast nægilega öruggt með löggildingu bókanna. þ. e. a. s., að fái bókin meðmæli umboðsmanna ríkisvaldsins um, að hún sé góð og nothæf kennslubók, þá verði hún gefin út. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um grg. frv., en vil endurtaka það, að mér sýnist margt fullyrt í grg. til þess að hafa áhrif á afstöðu þm. í þessu efni, sem ekki er viðeigandi að fylgi frv., sem stj. hefir lagt fram.

Nú er að líta á efni frv. sjálfs. Aðalatriðið er fyrst og fremst það, hvort líkur eru til, að segja megi, að svo illa sé frá þessu gengið í höndum þeirra, sem nú gefa bækurnar út og selja, að nauðsyn — eða brýna nauðsyn — beri til að láta ríkið taka þetta í sínar hendur og banna öðrum að hafa það með höndum. Í nál. minni hl. er ekki litið svo á.

Ég heyrði á frsm. meiri hl., að hann taldi líkur til, að hægt væri að lækka verð á skólabókum um 40%, svo að selja megi þær bækur, sem nú kosta kr. 2.50, á kr. 1.50, þó greidd séu 20% sölulaun úti á landi. Þetta eru að sjálfsögðu aðalrök fyrir því, að löggjafarvaldið taki útgáfuna í sínar hendur. Í öðru lagi mun eiga að líta betur eftir, að bækurnar séu vel samdar og betur gerðar en nú á sér stað. Ég held, að fyrra atriðið, að lækka verð bókanna eins og hv. frsm. sagði um 40%, geti enginn hv. þm. gengið út frá, að sé rétt. Um síðara atriðið, frágang bóka — innihald og ytri frágang — vil ég segja það, sem ég hefi áður sagt, að það mundi ekki verða betra, þó ríkið tæki útgáfuna í sínar hendur, heldur en með þeirri íhlutun, sem ríkisvaldið getur haft með því að skipa n. til eftirlits. — Ég þarf ekki að fara fjarska mörgum orðum um verð skólabókanna, vegna þess, að í nál. minni hl. á þskj. 366 er rækilega komið inn á þessi atriði. Vil ég biðja hv. þdm. að kynna sér það, því þar eru ýmsar upplýsingar í tölum.

Ég skal geta þess, að skýrsla sú um verð og útgáfukostnað, sem form. menntmn. lagði fram á fyrsta fundi n., er rétt, að svona miklu leyti sem ég þekki til. En þar sem skýrslan er fyllt út með tölum, sem er allt of langt mál til að lesa hér upp, vil ég biðja hv. þdm. að kynna sér hana vel. Hinsvegar vil ég benda á, að ef skýrslan er rétt um prentun, pappír, útgáfukostnað m. fl., kemur í ljós — tekið sem dæmi — að verð er 3 kr. Eftir nál. er gert ráð fyrir, að verðið geti lækkað niður í kr. 1.80.

Þegar reiknað er nettóverð — þ. e. a. s. að frádregnum 20% sölulaunum, sem ekki er deilt um — er meðalverð til útgefanda (nettóverð) nú kr. 2.40, en áætlað að það geti verið kr. 1.45. ef bækurnar væru gefnar út af ríkinu og seldar án hagnaðar. Er það álit minni hl., að þetta geti alls ekki staðizt. Liggur það fyrst og fremst í því, að kostnaður af forlaginu heima fyrir er miklu meiri en gert er ráð fyrir í skýrslunni. Í nál. er kostnaður forlagsins áætlaður 5%, að frátöldum sölulaunum, en hann er hér eitt aðalatriði, sem reynslan sýnir, að er miklu meiri. En ég vil líka bæta því við, að hv. frsm. viðurkenndi eftir að skýrslan kom út, að 5% mundi vera of lágt, og hann ætlaði að breyta því í 10%.

Þetta er nokkuð stórt atriði og því fyrirsjáanlegt, að kostnaður verður óhjákvæmilega miklu meiri en 5 eða 10%, eins og gert er ráð fyrir. Það hefir að vísu mikla þýðingu í þessu tilfelli, hvað mikið selst. Því meiri verður kostnaðurinn, sem bækurnar eru færri á ári. Eftir því sem kostnaðurinn dreifist á fleiri liði, verður hann tvímælalaust hlutfallslega lægri % af hverri seldri bók.

Ég vil fullyrða, með tilvísun til manns, sem hefir mjög góða þekkingu í þessum efnum, að kostnaður myndi verða ákaflega nærri því, sem nál. gerir ráð fyrir, en aldrei minni en 18% — yfirleitt 18—25% eða meira —, sjaldnast undir 25%, og oft meiri. Því minna sem selst, því meiri er kostnaðurinn hlutfallslega. En ef kostnaður heima fyrir er rétt reiknaður með þeim hundraðshluta, held ég megi fullyrða, að ekki þurfi að reikn. minna, þó ríkissjóður taki útgáfuna í sínar hendur. En það er engin sönnun fyrir því, að opinberir aðilar viðurkenni að fela bóksölum söluna með 40% sölulaunum, en það er einmitt það, sem ég hefi talið nærri sanni í nál. minni hl. Þar er gert ráð fyrir vissri sölu á ári, eða um 900 eint. sölu. Ég held af eigin reynslu og af viðtali við aðra, sem vit hafa á, að það sé líkleg meðalsal. eftir að fyrstu sölu er lokið. Það er ofurlítið meira þá, en þetta mun fara nærri, ef byggja má á reynslu síðustu 10— 15 ára. Ef reiknað er með, að ríkisútgáfan eigi við svipuð gjöld að búa við framleiðslu bókanna og nú er, kemur í ljós, að munurinn verður eigi mikill á verði bókanna frá því, sem nú er. Eitthvað má lækka þær, því neita ég ekki, en munurinn er ekki svo mikill, að hann réttlæti það, að bækurnar séu teknar úr höndum núv. útgefenda. Segjum, að ríkisútgáfan gæfi aðeins út einu bók í hverri grein, þá mætti lækka verðið frá því, sem nú er, en hitt er annað mál, hvort hentugt er fyrir þjóðfélagið, að aðeins sé ein kennslubók í hverri grein. Ef ríkið tekur þetta starf að sér, verður líkt um og þegar tóbakseinkasalan komst á. Fyrir eru birgðir í landinu af bókum, myndamótum o. s. frv., sem yrði að bæta þeim, sem nú eiga það, en eigi láta það afskiptalaust, að þar liggi verðlaust mikið verðgildi.

Þá verður að taka tillit til þeirra kennslubóka, er fyrir eru í landinu, og kaupa þær af eigendum fyrir kostnaðarverð. Er ekki sanngjarnt annað en fyrri eigendum sé haldið skaðlausum, þótt þeir hinsvegar hagnist ekki neitt á sölunni. Af þessu verður kostnaður í upphafi, og veit ég ekki, hve miklu kann að nema. Ef um ríkisútgáfu er að ræða um lengri tíma, er þetta náttúrlega ekkert aðalatriði, en samt atriði, sem leysa þarf á viðunandi hátt. Það má náttúrlega, ef ríkisútgáfan verður í sambandi við „Gutenberg“, leyna hinum raunverulega kostnaði með því að færa hann yfir á aðra liði. En það væri ekki sanngjarnt né réttlátt gagnvart þeim, sem vilja reyna að finna hinn raunverulega kostnað. Kostnaðurinn hverfur ekki fyrir það, kemur aðeins fram sem kostnaður annars fyrirtækis.

Ég sé yfirleitt ekki, að hægt sé að vera með þessu frv. eins og það liggur fyrir. Það eitt er stórt atriði, að allar líkur benda til þess, að ekki verði nema ein bók gefin út í hverju fagi. Það er rétt að athuga þetta vel, því að það er eitt, sem kvartað hefir verið yfir, að kennarar geri sér leik að því að skipta um bækur, og þær verði því dýrari. Það er ekki vitað, hve mikil brögð eru að þessu, en hitt er vitað, að margir kennarar vilja helzt kenna einhverja ákveðna bók. Nýr kennari vill nota nýja bók. Þetta er óheppilegur kostnaðurauki í bili, en oft er það svo, að fleira en eitt barn er frá hverju heimili, og tekur þá eitt við bókinni af öðru. Annars sé ég eigi, að gott sé að færa þetta sem ástæðu fyrir ríkisútgáfu skólabóka. Það er of einfalt að leysa þetta með því að hafa aðeins eina kennslubók í hverri grein. Ég held, að það sé reynslan, að kennurum sé ekki sama, hvaða bók þeir kenna. Þeir ná betri árangri með einni frekar en annari, því að enginn kennari gerir sér þetta að leik. Við þessu má sjá með eftirliti fræðslunefndar; hún getur athugað þetta og fræðslumálastjórn komið þessu í heppilegra horf. Ég held a. m. k., að frá sjónarmiði árangurs af kennslu og upp á framför sé það ekki gott að takmarka þægindi og frelsi kennara og nemenda um of í þessu efni, enda þótt bækurnar kynnu að verða eitthvað ódýrari. Ég hygg, að þetta sé fremur afturför en framför, og ekki kaupandi fyrir dálitla verðlækkun.

Í grg. frv. er sagt, að verð bóka þeirra, er einu barni er ætlað að nota öll skólaárin. sé nú allt að 70 kr., og þessi fjárhæð vaxi til muna við niðurfærslu skólaskyldunnar. Ef þetta er rétt, deilist þessi tala með 5 eða 6, ef maður vill finna árlegan kostnað við bókakaup, og virðast þau þá vera um 12—14 kr. Þegar þess er gætt, að þetta er aðalkostnaðarliðurinn, þar sem kennslan er ókeypis, sömuleiðis matur, mjólk og lýsi veitt ókeypis þeim, er vilja, þá virðist þessi kostnaður nú ekki vera óviðráðanlegur, og það því fremur, að víða eru þeim fátækustu gefnar bækurnar af sveitarsjóði. Þá held ég, að bókakostnaður vaxi ekki við niðurfærslu skólaskyldunnar, því að jafnhliða má búast við, að styttur verði tíminn. bæði hvað hvern dag snertir og allt árið. Þá er sú stefna uppi nú, að nota minna bækur við námið en verið hefir.

Í nál. minni hl. n. er nettósala fimmtán bóka gerð 16200 kr. á ári. Þetta er því ekki stórt fjárspursmál, en það er svo margt í sambandi við það, sem athugunarvert er, að mér hefir ekki gefizt tækifæri til þess að minna á það nærri allt. En ég skal þó hlífa hæstv. forseta við frekari umr. um þetta að sinni.