22.11.1934
Neðri deild: 43. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 212 í C-deild Alþingistíðinda. (4305)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Herra forseti! Ég skal reyna að komast hjá því að vera langorður, þó mörg séu atriðin, sem vert er að minnast á.

Ég held því fram, að við í minni hl. menntmn. höfum sýnt fram á það með rökum, sem ekki hafa verið véfengd, að með ríkisútgáfu sé ekki hægt að lækka verð skólabókanna um þá prósenttölu, sem hv. meiri hl. heldur fram. Það má náttúrlega halda áfram að kasta fram þeim fullyrðingum, að hægt sé að lækka verðið um 40%, en það hefir ekki verið komið með neinar tölur eða nein dæmi, sem gera þá fullyrðingu sennilega. Ef sýnt væri fram á með fullum rökum, að þetta væri rétt, þá mundi mér ganga illa að mótmæla hér ríkisútgáfu á skólabókum. En ég geri það vegna þess, að ég þykist hafa sýnt fram á, að það sé alls ekki hægt að lækka verðið eins og hér er haldið fram.

Hv. þm. sagði, að frágangur og band kennslubókanna væri óvandað, og sumar þeirra væru notaðar lengur en æskilegt væri, vegna þess að útgefendurnir vildu ekki endurnýja upplögin. Um fyrra atriðið, að bækurnar séu óvandaðar hvað band snertir, er það að segja, að þetta er ekki annað en ein af fullyrðingum hv. þm. Ég veit, að bókaútgefendur hafa gert miklar tilraunir til þess að vanda bandið á skólabókum sem mest. En það er annað en gaman að binda bækur þannig, að þær þoli aðra eins meðferð og kennslubækur í barnaskólum sæta oft og tíðum. Eins og menn kannast við, notar smáa fólkið bækurnar jafnvel sem vopn í bardögum og kastar þeim til og frá. Bókbindararnir segja, að það sé ekki fyrir mennska menn að binda bækur til að þola slíka meðferð eins lengi eins og maður mundi óska eftir. Einn útgefandi gerði þá tilraun til þess að koma í veg fyrir, að bækurnar losnuðu upp úr landinu, að hann lét binda þær í gegnum kjölinn. Það þótti ljótt og vont að opna bækurnar. Það er ekki gaman við þetta að fást, og það stafar ekki af því, að útgefendur tími ekki að ganga eins vel frá bókunum og kostur er, heldur af þeim teknisku örðugleikum, sem á því eru að binda bækur svo, að þær þoli alla meðferð. Það þýðir ekki að ásaka útgefendurna, því ég hygg, að frágangur skólabóka hér sé yfirleitt fyllilega sambærilegur við frágang slíkra bóka erlendis. Að vísu er sinn siðurinn í hverju landi og ekki hægt að gera heildarsamanburð í fáum setningum. Hvað pappír og myndir snertir, þá er vitanlega ein bókin vel gerð að þessu leyti og önnur aftur að hinu, og yfirleitt held ég, að ekki sé rétt að segja, að það sé kastað höndunum til þess að ganga eins vel frá skólabókunum eins og kostur er.

Hv. þm. hélt fram, að ef aðeins væri ein bók í hverju fagi, þá mundi hún verða betri að innihaldi heldur en ef þær væru margar. Ef hægt væri að gera sennilegt, að bækurnar verði betri, ef aðeins er um eina að ræða í hverju fagi, þá væru það vitanlega mikil meðmæli með þessu frv. En ég hefi enga trú á slíku. Eins og nú er, eru kennslubækurnar samdar af framtakssömustu mönnunum, kennurum, sem finna hjá sér hvöt, og þá um leið einhverja hæfileika, til þess verks. Kennari, sem tekur sér fyrir hendur að semja kennslubók, finnur betur en hinir, sem ekki gera það, þörfina fyrir nýja kennslubók; hann hefir a. m. k. framtakssemina framyfir þá, og þá venjulega jafnframt eitthvað fleira. Hinir kennararnir, sem síðan nota bókina, finna vitanlega galla hennar og „kritisera“ hana, en þar fyrir er ekki sagt, að þeim hefði tekizt betur. Og ég hefi enga trú á, að það megi treysta því, að handrit, sem ríkisútgáfan pantar frá einhverjum sérstökum manni, ef hún telur ekki heppilegt það, sem fyrir hendi er, verði neitt betri.

Það er rétt hjá hv. þm., að nokkuð af þeim kennslubókum, sem nú eru notaðar, eru að verða gamlar og hafa gengið af sér barnaskóna, og ég játa, að það er sjálfsagt að gefa út bækur í staðinn fyrir þær, a. m. k. þegur einhver höfundur kemur með handrit, sem tvímælalaust tekur því gamla fram. En hitt er rangt, að líkur séu til þess, að bækurnar verði nokkuð betri, þó handritin séu gerð að tilhlutun fræðslumálanefndar.

Hv. þm. sagði, að þróunin nú á tímum væri sú, að menn væru farnir að álíta ríkisútgáfu skólabóka heppilegri en einstaklingsútgáfu. Studdi hann það með því, að tvö stór bókaforlög í Svíþjóð hefðu slegið sér saman, og virtist hann telja, að með því væri í aðalatriðunum komin á einkasala á kennslubókum í Svíþjóð. En það fer fjarri því, að svo sé. Þó þetta væru stór forlög, þá gefa þau ekki út nema brot af þeim kennslubókum, sem notaðar eru í Svíþjóð, og þau hafa engan einkarétt eða stuðning frá ríkisvaldinu, heldur gefa út bækur sínar í samkeppni við aðra útgefendur í landinu. Ég skal nefna lítið dæmi um það, að þó að til séu mjög stór forlög, þá er langt frá því, að þau hafi nokkurt ofurvald í þeim löndum, þar sem einstaklingsframtakið ræður. Það kom þýzkur bóksölumaður til Danmerkur í haust til þess að kynna sér ástandið í danskri bókaverzlun, þó Þjóðverjar séu að vísu lengst komnir á því sviði. Hann sá þar stórt og mikið forlag, sem Gyldendal heitir og allir kannast við. Þegar hann kom heim, skrifaði hann ritgerð í „Börsenzeitung“, þar sem hann segir, að í Danmörku sé útgáfufyrirtækið Gyldendal svo voldugt, að það beri höfuð og herðar yfir alla aðra útgefendur, svo að á öðrum beri ekkert. Sé það að verða eina útgáfufyrirtækið í Danmörku, eða því sem næst. Hann segist ekki hafa séð í nokkru landi svo voldugt fyrirtæki í þessari grein. Hann sér þetta eina stóra tré, en gleymir smágróðrinum allt í kring. En kunnugir menn hneykslast vitanlega á svona upplýsingum. Þetta er að vísu stórt fyrirtæki, en það er þó að loka augunum fyrir aðalatriðum, að segja svona frá, því að af 3000 ritum, sem árlega eru gefin út í Danmörku, gefur þetta fyrirtæki ekki út nema 300. Það er ekki nema 1/10 af bókaútgáfu Dana, þó að það líti út svona stórkostlega í augum lítt kunnugs athuganda. Það má ekki telja fram sem röksemd fyrir þessu frv., að þessir tveir miklu bókaútgefendur í Stockholm hafi slegið saman reytum sínum og stofnað sameiginlegt skólabókaforlag. Þeir gefa áreiðanlega út miklu meira en eina skólabók í hverju fagi og meta sjálfir, hvaða bækur þeir gefa út. Þar gerir ríkið ekki aðrar kröfur en þær, að matið á þessu starfi sé í höndum þeirra, sem þurfa að nota bækurnar. En því fer fjarri, að þessir tveir útgefendur sjái landinu fyrir öllum kennslubókum. Þeir eru aðeins liðir í þeirri útgáfu, e. t. v. mikill liður.

Hv. frsm. sagði, sínu máli til stuðnings, að ríkið hefði nú eftirlit með uppeldi og fræðslu barna. m. a. með skólunum. Þetta er rétt. En þar af leiðir ekki, að ríkið eigi að ráða því, hvað börnum er kennt í hverri grein og hvað ekki. Í hverri grein er til mikill forði til að kenna, en í hverri kennslugrein kemst ekki fyrir nema lítill hluti af þeim forða. Hér er fram á það farið, að ríkið ráði, hvað valið er úr til að kenna börnunum. Þetta er tilraun til að einoka skoðanir. Hún kemur aðeins fram í mildara formi að því leyti, að hér er aðeins talað um barnaskóla, og er hægt að segja, að kennarar ráði, hvar þeir fara út fyrir bókina. Það er, skulum við segja, nokkuð á valdi kennara, hvað valið er til að kenna börnunum. En þetta er þó engu að síður mikilsvert atriði. — Hv. frsm. meiri hl. menntmn. og form. n. sagði, að ríkið ætti að ráða kennsluefninu, eins og skólunum og eftirliti með fræðslu barna, og þá væntanlega líka því, hvað kennarar kenni hver um sig. Ég skal játa, að það er örðugt að einoka þetta, þótt kennslubækurnar verði einokaðar, þar sem kennarar eru svo margir. En þó má komast langt í þessu efni með kennslu kennaraefna og þeirri aðstöðu, sem ríkið hefir til að ráða útsýn kennara. Og þetta er komið enn lengra áleiðis, ef fræðslumálastjóri ásamt 2 mönnum má ákveða, hvað standa skuli í bókunum. Á þetta er ekki minnzt í frv. eða grg. né heldur í nál. meiri hl. En þetta er þó mikið atriði. Menn greinir mjög á um þetta atriði víðast hvar um heim. Það eru að vísu til ríki í veröldinni, þar sem ekki er litið á annað en skyldur og heimildir ríkisvaldsins í þessum efnum. En sú stefna er fremur deyjandi en vaxandi, bæði þar og annarsstaðar.

Hv. frsm. tókst illa til, þegar hann reyndi að bera þetta saman við símatólin, sem ríkið leigir mönnum við því verði, sem því lízt. Mér finnst þetta líkjast ýmsu öðru í sambandi við símann meira en símatólunum. Fyrst og fremst er sú hlið málsins, sem snertir efni og innihald þess, sem kunnugt er, engan veginn sambærileg við símatólin. Og svo er annað, sem síminn heimtar ekki einokun á. Það má hver segja í símann það, sem honum lízt. Hér er ekki, svo að vitað sé, censur á símtölum, þó að það eigi sér stað sumstaðar. Og síminn einokar ekki pappír. Má afhenda símskeyti á hvaða pappírsblaði sem vera skal, og fæst það eins sent fyrir því.

Hv. frsm. sagði, að löggilding á skólabókum væri engan veginn nægileg til þess að ríkið hefði óskoruð ráð að því, er bækurnar snerti. Hann sagði, að n. væri ekki einráð um það, hvernig bækurnar væru búnar úr garði, hún gæti ekkert gert, fyrr en höfundur kæmi með handrit sitt og útgefandi með myndamót og annað. Þessu væri öllu búið að ráðstafa fyrirfram og ekkert fyrir n. að gera annað en segja já eða nei. Þetta á ég bágt með að skilja. Ég er sannfærður um, að þetta er ekki rétt. Ef fræðslumálastjóri léti þá ósk í ljós við höfund nýrrar bókar, að hann semdi nú verulega góða bók í þessu fagi og lofaði því, að hún skyldi þá verða löggilt, ef hann talaði við útgefandann og segði, að ef hann veldi góð myndamót og annað því um líkt, þá skyldi verða með henni mælt og hún verða í uppáhaldi, þá er ég sannfærður um, að bókin fengist gefin út, jafnvel þótt engin ríkisútgáfa væri til. Ég er sannfærður um, að hann þarf ekki að bera það fyrir sig, að n. sé fyrirmunað að koma á framfæri bók, sem hún telur nauðsynlega, og með þeim frágangi og því verði, sem hún sættir sig við. Hann svarar e. t. v., að eins og l. er nú háttað, komi þetta hvorki fræðslumálastjóra eða n. við. En ég vil þá spyrja: Kemur þá sú skylda, að fræðslumálan. og fræðslumálastjóri skipti sér af þessu, fyrst til, ef um ríkisútgáfu er að ræða?

Hv. frsm. sagði, að heildsöluhagnaður væri nokkur á skólabókum, eins og sýndi sig á því, að ýmsir kennarar gæfu þær sjálfir út til að komast hjá heildsöluálagningu útgefenda. Það er rétt, að nokkuð af skólabókum er gefið út af öðrum en hinum eiginlegu útgefendum. Mönnum er þetta frjálst, ef þeir vilja. Svo frjálslegt er okkar þjóðfélag. Ég sem bókaútgefandi fer ekki fram á annað en að þetta haldi áfram að vera frjálst. En þetta sannar ekki, að ágóði af bókaútgáfunni sé mikill, heldur hitt, að þeir, sem gefa út bækurnar, sjá, að meðan fyrirhöfn af þessu er ekki meiri en svo, að þeir geti bætt þessu við sín daglegu störf, þá gera þeir það, og er það eðlilegt, því að þannig hagnýta þeir sér frítíma sinn. En þar með er ekkert upplýst um það, hver sá ágóði er. Mér er nær að halda, að hjá þeim, sem gefið hafa út stórar kennslubækur undanfarin ár, hafi ekki orðið mikill hagnaður, ef allur kostnaður er nákvæmlega reiknaður. Auk þess kemur æðioft fyrir í þessu frjálsa fyrirkomulagi, að sá hagnaður, sem verður á einni bók, tapast aftur á annari. Svo að það er að miklu leyti rétt, sem hv. frsm. talaði um, að það hefði mikla þýðingu fyrir rekstur stórra fyrirtækja, að enga samkeppni væri um að ræða. En þar kemur þó annað á móti. — Það má segja, að við séum aðallega ósammála um einn lið, sem er kostnaður forlagsins heima fyrir. Ég hefi áætlað hann 1/4 af nettóandvirði seldra bóka. Af þessum 1/4 verður að kosta reikningshald, bókfærslu, húsnæði o. fl. Og það verður ekki lítið húsnæði, sem með þarf, ef útgáfan á að vera í þessu formi. Það er hvorki meira né minna en mörg hundruð tonn af pappír, sem geyma þarf. Skrifstofukostnaður getur orðið ódýr. Aftur getur útsendingarkostnaður orðið talsverður. T. d. tekur Gutenberg hann að sér fyrir 10% þóknun. Ef reka á þetta fyrirtæki þannig, að kostnaður heima fyrir nemi ekki meiru en 10%, af nettóverði, þá verður það ekki gert með öðrum hætti en þeim að koma kostnaðinum fyrir á öðrum liðum. Og ég er sannfærður um, að útsendingarkostnaður verður ekki aðeins 10%, heldur miklu meiri. Gæti ég haldið, að sá kostnaður allur yrði ekki minni en 40% af því, sem selt er.

Þá vil ég benda á, að ekki verður hjá því komizt að reikna yfirstjórn þessa fyrirtækis, þrem mönnum, álíka upphæð og þær, sem greiddar eru fyrir svipuð störf, segjum 1000 kr. á ári hverjum manni. Þann kostnað verður þá að telja með. [Frh.].