23.11.1934
Neðri deild: 44. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í C-deild Alþingistíðinda. (4310)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) [frh.]:

Ég skal þá taka til aftur þar, sem frá var horfið í gær, þegar fundi var slitið. Ég sé ekki, að komizt verði hjá því að taka tillit til þeirra manna, sem haft hafa útgáfu skólabóka á hendi, með því að gefa ekki út nýjar bækur fyrr en selt væri að mestu upplag hinna eldri bóka, sem nú eru í notkun, eða þá að ríkisútgáfan keypti þau upplög, sem óseld væru, eins og t. d. tóbakseinkasalan keypti birgðir þær, sem fyrir voru. þegar hún tók til starfa. Mér virðist það siðferðisleg skylda að draga þannig úr tjóni þeirra manna, sem hér eiga hlut að máli. Hv. frsm. sagði, að ekki væri réttlátt eða, sanngjarnt, að ríkisútgáfan tæki við þeim bókum, sem komnar voru úr notkun. Þetta yrði vitanlega að vera samningsatriði, þar sem lagt væri til grundvallar það tjón, sem eigandi upplagsins biði í hverju tilfelli. Líkt er að segja um myndamótin. Hv. frsm. hélt því fram, að þau myndu þegar búin að borga, sig. Það kann að vera, að í sumum tilfellum séu þau orðin útgefanda lítils virði, en sum geta verið ný og útgefanda í fullu verði, og er auðsætt réttlætismál, að slík myndamót yrðu keypt, þó að bókinni kynni að verða breytt svo, að þau kæmu ekki að fullu gagni í nýrri útgáfu. Þetta þyrfti allt að meta á sanngjarnan hátt. Aðalatriðið er, að ríkið viðurkenni þá skyldu, að bæta að einhverju leyti þeim mönnum, sem bíða tjón af þessari löggjöf.

Hv. frsm. minntist á fjölda skólabókanna og óánægju heimilanna út af tíðum bókaskiptum. Hann hélt því fram, að það mundi frekar ráða einhver vani hjá kennurum, hvaða bók þeir notuðu, heldur en það, að þeim fyndist betra að kenna eftir einni bók en annari. En ég held, að þessu sé ekki svo varið. Ég held, að kennslubækurnar séu miklu fremur margvíslegar vegna þess, að kennararnir séu ekki vanafastari en það, að þeir taki góða kennslubók fram yfir þá, sem fyrir er, ef hennar er kostur. Ég held, að það verði aðeins til tjóns að einskorða notkun bókanna eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég get alls ekki fallizt á, að það sé vani, sem hér ræður hjá kennurunum, heldur það, að þeir vilji jafnan nota þá bók, sem þeir álíta bezta.

Ég hefi tekið það fram áður, að mér virðist kostnaðarhlið þessa máls ekki hafa verið sýnd svo ljóst sem skyldi, og ég er ósammála því, sem hv. frsm. sagði um heildsöluálagið. Hann sagði, að hægt mundi að komast að samningum við Gutenberg um lægra gjald, en það sýnir þá bara, að prentsmiðjan vill taka á sig halla til þess að fá þetta í sínar hendur. Það gæti verið búhnykkur fyrir prentsmiðjuna samt sem áður. Hann sagði um bókbandið, sem ég lýsti, að það væri misjafnlega af hendi leyst og misjafnlega dýrt og að hægt mundi vera að fá það fyrir lægra verð en ég gerði ráð fyrir. Ég efast ekki um, að þegar talað væri um, hvað bókbandið gæti verið ódýrast, þá myndi einhver svara, að hann gæti leyst af hendi fyrir 40 aura það, sem ég áætlaði 50 aura. En það er ekki líklegt, að það yrði vinsælt af bókbindurum, að þannig væri farið niður fyrir þeirra gjaldskrá, og óvíst, hve heppilegt það væri fyrir ríkið að þrýsta verðinu svo langt niður, að hætta væri á, að vinnubrögðin versnuðu. Kostnaðurinn fer mest eftir því, hvernig verkið er leyst af hendi. Það kostar mikið að binda vel, en lítið að binda illa. Yfirleitt hefir ekkert komið fram, sem hnekkir þeim tölum um kostnaðarhliðina, sem tilfærðar eru í nál. minni hl. Það þýðir ekkert að koma með fullyrðingar um það, að þetta eða hitt sé hægt að fá fyrir svona og svona lítið án þess að sýna það með rökum og reikningum. Ég vil spyrja hv. frsm. meiri hl., hvort hann hafi í raun og veru gert sér grein fyrir, hvað um var að ræða, þegar hann talaði við Gutenberg um heildsölu, geymslupláss o. s. frv. Ég held, að Gutenberg hafi ekkert húsnæði fyrir þetta, og byggi ég þar á minni reynslu um viðskipti við prentsmiðjuna. Hún gæti vitanlega byggt geymsluhús, en það mundi ekki kosta innan við 20 þús. kr., og það eykur ekki lítið kostnaðinn. Það mundi auka kostnaðinn um 2000 kr. á ári, ef miðað væri við 10%, og um 1600 kr., ef miðað væri við 8%, og það væri ekki hægt að reikna með minna. Það þarf ekkert smáræðis pláss fyrir pappírsbirgðir og upplög. Geymslan ein mundi kosta mikið fé. Menn verða að gæta að því, að hér kemur margskonar kostnaður til greina, og þó að mönnum vaxi ekki í augum hver einstakur liður, getur summa þeirra orðið mikil og rekstrarkostnaðurinn þungur baggi, þegar öll kurl koma til grafar.

Þá þykir mér ólíklegt, þó að kennarar hafi góðan áhuga á þessum málum, að þeir fáist til að vinna nokkuð að þeim frítt eða ókeypis. Svo vofir sú hætta alltaf yfir, að beitt sé síðasta orði, jafnvel þó form. n. og frsm., sjálfur fræðslumálastjórinn, hafi þar eftirlit.

Ég sagði, að þetta væri ekki mikið verzlunarfyrirtæki, sem ekki hefði nema 16 þús. kr. á bak við sig sem ársveltufé. Mér fannst hv. þm. hafa misskilið það, sem ég sagði. Ég hafði að vísu bent á, að kostnaður mundi ekki verða meiri en 10—12 kr. fyrir barn á ári, eða kannske lítið eitt meiri og fannst það ekki tilfinnanlegt fyrir heimilin, þegar það er eini kostnaðurinn af barnafræðslunni og mörgum börnunum gefinn matur og jafnvel fatnaður. Hv. frsm. notaði þetta tilefni til þess að snúa því að mér, að ég væri af hagsmunaástæðum andstæður svona ráðstöfunum, en það var tilefnislaust frá minni hálfu að ræða þar um. Hitt atriðið, að gæði bókanna hljóti að aukast og betra snið að komast á allt saman, þegar það er komið undir vald kennarastéttarinnar, er í raun og veru bara blekking. Ég verð að segja, að ég tel ekki, að það sé kennarastéttin, sem semur bækurnar, gefur þær út og sér um sölu, heldur verða það alltaf einstakir menn eftir sem áður, undir eftirliti fræðslumálastjóra. Það eftirlit á hann að hafa nú, og mætti herða á því, eftir því sem ástæða þætti til. Að bækurnar yrðu betur úr garði gerðar að prentun og ytri frágangi af fræðslumálastjóra og ríkinu en í höndum einstaklinga, er hreinasta fjarstæða. Ef nefnd sú, sem eftirlit hefði með útgáfu bókanna, gerði ákveðnar kröfur um útlit og frágang, mun áreiðanlega orðið við þeim. Ég vil undirstrika þetta, og það er því engin ástæða fyrir ríkið að leggja út í bókaútgáfu til þess að koma því í betra horf — á því er vissulega engin þörf.

Það er að nokkru leyti satt, sem hv. frsm. meiri hl. sagði, að þetta er ekki mikið hagsmunamál fyrir bókaútgefendur. Það er heldur litið af kennslubókum barnaskólanna á þeirra forlögum. Þetta hefir færzt í það horf á síðustu árum, að margir kennarar hafa gefið bækur sínar út sjálfir, og hinsvegar ekki mikill hagnaður af því. Það er alls ekki þess vegna, sem ég tala á móti þessu máli, að þetta sé svo mikið hagsmunamál fyrir bókaútgefendurna. Það er alls ekki aðalatriði, þó að þeir eigi sama rétt og aðrir atvinnurekendur, að fá að stunda sína atvinnu, og að aðrir eigi ekki frekar kröfu til þess. Það hafa verið talin hér upp nöfn nokkurra manna í sambandi við bókaútgáfuna, en ég mun ekki fara inn á að nefna nöfn, því mér finnst það ekki koma málinu við. Ef málið er rétt og gott og horfir til almennra nota og framfara, á það fram að ganga án tillits til þess, hvort það veldur mér eða öðrum einstaklingum óþægindum eða tjóni. En það má bæta þeim þann skaða, sem það veldur, á sanngjarnan hátt. Ef álitið er, að þetta sé til þjóðnytja, á ekki að fara eftir því, hvað einum eða öðrum kemur bezt. En ég tel, að ríkisvaldið geti stuðlað að þessu á annan hátt betur en að taka á því ríkisrekstur. Hv. frsm. sagði, að heimilin og skólarnir ættu kröfu um þetta á ríkið. Þá kröfu „respektera“ ég ekki og henni á ekki að sinna nema í samræmi við alþjóðarvilja og alþjóðarhag. En ég neita því afdráttarlaust, að svo sé hér.

Hv. 9. landsk. hafði ekki miklu við að bæta það, sem frsm. meiri hl. sagði. Þó var þar ýmislegt, sem ég vildi minnast á. Hann sagði t. d., að skólastörfin væru að taka ærið miklum stakkaskiptum og að ekki væri líklegt, að bókaútgefendur tækju þær nýjungar upp, sem tímarnir krefðust. Ég veit nú ekki, hvaðan hv. þm. hefir þessa speki. Hann nefndi bók, sem ekki hefði fengizt, og hann hefði því þurft að nota aðra, sem honum líkaði ekki. Það er satt, að það er ekki hægt að fullnægja í öllum námsgreinum nema með tjóni fyrir útgefendurna. Ég get t. d. búizt við, að erfitt sé að fá gefna út bók, sem aðeins er kennd í kennaraskólanum og selst í ca. 20 eint. á ári. Í svona tilfellum á ríkið að hjálpa með góðum og miklum styrk, eða jafnvel að gefa bækurnar út sjálft. Þetta finnst mér réttmætt, ef um sérstaka þörf er að ræða. En ég vil í þessu sambandi benda á, að það er oft talin þörf, sem engin þörf er fyrir. Á síðustu tímum hefir komið upp sú stefna, að koma út íslenzkum kennslubókum í sem flestum námsgreinum, og munu nú vera til kennslubækur í flestum almennum fögum. Er ekki nema gott um það að segja, að þurfa ekki að nota bækur á erlendum málum, og hefir ákafleg framför orðið í því á síðustu 10—20 árum. En ég tel sjálfsagt, að ríkið sjái um útgáfu kennslubóka fyrir æðri skóla, t. d. lærdómsdeild menntaskólanna, háskólann o. s. frv. Þessar bækur er ekki um að ræða, að bókaútgefendur geti gefið út án styrks, og mætti því segja, að þar sé verkefni fyrir ríkisvaldið, en að það ætti ekki að skipta sér af þeim hlutanum, sem séð er fyrir, og því engin þörf fyrir íhlutun þess. Ég er viss um, að það þyrfti ekki aðeins 6—8 þúsund kr. á ári um næstu 6 ár, heldur miklu meira fé í svona fyrirtæki. Og hvaða ástæða er fyrir ríkið að fara að gefa út bækur í þeim fögum, sem ekki er þörf á? Það er ekki eins og það þurfi að vera afskiptalaust frá hálfu ríkisins eins og nú er. Ég held, að framtak bókaútgefendanna vanti ekki. Það hefir tekizt að fá gefnar út bækur, sem var gersamlega víst, að aldrei borguðu kostnaðinn við útgáfuna. En þeir hafa brotizt í að gefa þessar bækur út vegna þarfar, þó fyrirsjáanlegt væri, að það bæri sig ekki, en því aðeins var það mögulegt, að útgáfa annara bóka bar sig betur. Það er því óhætt að fullyrða, að framtakið er nóg, og jafnvel fram úr því. En þar fyrir utan eru verkefni, sem ómögulegt er að fullnægja nema með aðstoð ríkisins, og finnst mér, að það ætti því að snúa sér að þeim.

Hv. frsm. meiri hl. var að tal. um efni bókanna og frágang. Ef hann hefði hlustað á það, sem ég sagði um þá hluti í fyrri ræðu minni, þá hefði hann getað sparað sér þau orð. Enda kom hann aðeins með venjulegar aðfinnslur, en engin rök. Börnin fara yfirleitt svo illa með bækurnar, að ómögulegt er að binda þær svo að dugi, þegar þær eru notaðar fyrir skotvopn og barefli, eins og ekki mun sjaldgæft í barnaskólum, og jafnvel lýðskólum.

Mér þótti gaman að heyra hv. frsm. segja, að löggildingarnefndin ætti ekki að hafa frumkvæði að bókaútgáfu. Svona er það með þessar nefndir og ríkiseftirlit. En ég er búinn að segja, að ef nefndarmennirnir vildu eiga frumkvæði að útgáfu ákveðinna bóka og setja ákveðin skilyrði um útlit og annað, þá fullyrði ég, að þeim kröfum mundi verða fullnægt. Hv. frsm. reyndi ekki að hrekja þetta, enda er það ekki hægt, því þessi fræðslumálanefnd hefir ekki átt frumkvæði að bókaútgáfu. N. sú, sem hefði eftirlit með löggildingu, þyrfti að fylgjast vel með, og ef hún teldi ástæðu til, að eiga frumkvæði að útgáfu góðra og nauðsynlegra bóka. En ég hefi engu trú á, að frumkvæði n. vakni sérstaklega við það, að ríkið taki að sér útgáfuna, þar sem hún hefir látið það undir höfuð leggjast meðan hún hafði eftirlitið. Ég hefi enga trú á, að þeir verði framkvæmdasamari, þó að þeir verði forstöðumenn fyrir ríkisfyrirtæki.

Ég vil nú spyrja: Fyrst þessi n. var svona dauf og framkvæmdalítil, hvers vegna hafði þá ekki fræðslumálastjóri frumkvæði í þessum málum? Mér þykir einkennilegt af frsm. og fræðslumálastjóra að koma hér fram fyrir Alþingi og kvarta um hitt og þetta frá undanförnum árum, án þess að rökstyðja það á nokkurn hátt. En hvar er hans eftirlit, og hvar er hans frumkvæði? Ég hefi fullyrt og fullyrði enn, að hægt sé að fá gefna út hverja þá bók, sem fræðslumálastjóri vill, án þess að ríkið taki útgáfuna í sínar hendur. Það er einkennilegt, að nú skuli allt í einu koma fram rödd um margar þarfir á þessu sviði, sem ekki hafi verið fullnægt, og heimta ríkisútgáfu, án þess nokkur gangskör hafi verið gerð að því að fullnægja þeim á annan hátt. Hefði það verið gert, mundi ríkisútgáfa ekki hafa verið talin nauðsynleg. Þetta hefir því verið rækt öðruvísi en skyldi. En sú setning hv. 9. landsk., að þessi fræðslumálanefnd og fræðslumálastjóri ættu ekki að hafa frumkvæði að útgáfu skólabókanna, er svo merkileg og fróðleg, að ef svo á að verða í framtíðinni, mótmæli ég harðlega, að það sýni eða sanni, að þörf sé á því, að ríkið taki að sér útgáfu skólabókanna.

Af því allmikið hefir verið talað um, að skipti á kennslubókum væru óþarflega tíð, vil ég bæta því við, að það er svo um þessi skipti, að þau eru ekki annað en það, að bók er keypt fyrr en nauðsynlega þyrfti, og miðast við það að fleiri en eitt barn á að nota þær, og tekur þá eitt barnið við af öðru, því sem betur fer er það enn svo hér á landi, að á flestum heimilum eru fleiri en eitt eða tvö börn, og nota þá oft mörg sömu bókina. Oft er líka skipt um bók fyrr en ella mundi vegna þess, að ekki geðjast öllum að sömu bók. Mér leiddist sú fullyrðing, sem hér hefir komið fram, að ástæðan til bókaskiptanna væri oft hagsmunir kennaranna sjálfra. Að þeir gerðu samning við aðra kennara um að láta börnin kaupa þær bækur, sem þeir gefa út. Ég hefi nú ekki trú á, að þetta sé satt, og fannst það koma úr hörðustu átt, frá kennara við kennaraskólann. En svona er þetta: þegar kennararnir sjálfir gefa bækurnar út, þá gengur um það grunur og hvíslingar, að þeir geri það í eiginhagsmunaskyni, og getur valdið óánægju og erfiði meðul kennara. Ég verð að líta svo á, að ekki sé tilhlýðilegt að bera fram þessar ásakanir hér í þingsölunum, nema færa á þær fullar sönnur, sem hv. þm. hefir ekki gert, heldur kastar hann hér fram óverðskulduðum ásökunum á hendur kennara um, að þeir hafi sín á milli samband um að auka bókakaup heimilanna. Þessu vil ég neita sem algerlega tilhæfulausum áburði.

Það var dálítið ósamræmi í einni setningu hjá hv. 9. landsk. Hann sagði, að það væri fólkið, sem notaði bækurnar, sem ætti að ráða því hvaða bækur það vildi hafa. Ég er nú frjálslyndur og demokrat, en þetta finnst mér þó of langt gengið, að láta foreldrana ráða um hverja bók. Þetta er því ómöguleg setning og óhæf til framkvæmda, þó það styðjist við það, sem hann sagði að sjálfsagt væri vegna skólaskyldunnar, að ríkið gæfi allar bækur til barnaskólanna. Ég verð nú að setja, að mér þykir skörin vera farin að færast upp í bekkinn, ef þau réttindi, sem ríkið skapar, eiga að fara að teljast skyldur á þeim, sem þiggja, sem þurfi að bæta fyrir með enn meiri fríðindum. Ef rökstyðja á þetta þannig, að foreldrarnir eigi því meiri kröfu á ríkisvaldið, sem meira er gert fyrir börnin, þykir mér röksemdirnar fara að verða nokkuð einkennilegar hér á þessu háu Alþingi. Vitanlega er skólaskyldan réttindi landsmanna. Þetta stendur í grg. frv., sem mig grunar, að hv. 9. landsk. hafi samið. ef samningu skyldi kalla, því að aðeins einni setningu hefir verið breytt frá því, þegar það var lagt fyrir þingið 1933, og þá var aðeins einni setningu breytt frá því, sem áður var, 1931, þegar frv. var lagt fyrir þingið. Samt á svo að heita, að hv. þm. hafi samið þetta frv., til þess að leggja það fyrir þetta þing.

Hv. þm. segir til framlengingar á þessari fullyrðingu sinni í grg. frv., að börnin séu oft bókalaus, langt fram á vetur hér í Rvík, því að hann er aðallega kunnugur þessu hér. Svo endi þetta venjulega með því, að kennarinn gefi barninu bókina. Hann segir, að þegar það sé upplýst, að fátæk börn geti ekki keypt bækur, fái þau bækurnar ókeypis hjá sveitarsjóði. Þetta er gamla sagan, sem endurtekur sig. Þetta er hugsunarháttur þeirra sósíalistanna. Það er meiri uppgötvunin, að þau börn, sem eru svo fátæk, að þau geta ekki keypt bækur, fái ókeypis bækur! Það má mikið vera, ef ekki verður farið að örva menn til þess að kaupa ekki bækur, þar sem ríkið kostar börnin í skóla. Hv. þm. segir, að börnin geti ekki keypt bækur. Þetta er aðeins í samræmi við aðra málfærslu þeirra sósíalistanna. Fyrst og fremst get ég ekki trúað því, að mörg börn séu bókalaus langt fram á vetur, af því að foreldrar þeirra geta ekki keypt bækur. Fyrir getur þetta komið, þótt ekki sé öllum vel við að þurfa að sækja þetta í sveitarsjóð, frekar en aðrar nauðsynjar sínar. En hv. þm. má ekki gleyma því, að til er nokkuð, sem nefnt er trassaskapur. Þetta bókaleysi stafar ekki alltaf af fátækt. Trassaskapur er jafnvel tíðari. Hv. þm. talar því út í bláinn í þessu efni. Hann segir með einni setningu það, sem þarf ef til vill heilar bækur til þess að afsanna. Það er venjulega fljótlegra að fullyrða en að færa sönnur á það, sem fullyrt er. Þetta er eitt af mörgum atriðum grg., sem eru alveg ósönnuð.

Nú vil ég koma að því atriði, sem hv. þm. sneri alveg við sannleikanum í, og það var skólaskyldan. Hann segir, að hún sé kvöð á mönnum, og á móti henni eigi helzt að koma einhver fríðindi, t. d. ókeypis bækur, matur og mjólk í skólanum. Hann sagði að vísu, að það væru vissar þarfir, sem nauðsynlegt væri, að ríkissjóður tæki að sér í sambandi við skólana. Mér datt í hug skófatnaður og annar fatnaður. Skólaskyldan er ekki kvöð á landsbúum. Þvert á móti er hún réttindi borgaranna. Þessi réttindi voru svo dýrkeypt fyrst eftir að þessum málum var komið í fast horf með löggjöf, að eingöngu sæmilegu efnaðir menn gátu aflað sér menntunar. Þá var fræðslan talin svo mikils virði, að sá, sem gat tileinkað sér hana, var talinn hafa sérréttindi fram yfir aðra borgara þjóðfélagsins og betri lífsskilyrði en þeir, sem ekki höfðu efni á að eignast þessa menntun. Þegar skólaskyldan verður almenn, er þessu alveg snúið við. Þá er talið, að hún sé þvingun og bölvun, sem ríkisvaldið þurfi að bæta upp með allskonar fríðindum. Það þarf ekki annað en að benda á þetta, til þess að sýna fram á, að þetta mál er rekið á rammskökkum grundvelli. Það er mér mikið undrunarefni, að gerð skuli vera tilraun til þess að réttlæta þetta mál á þennan hátt.

Hv. þm. sagði, að ég hefði talið, að atvinna bóksala væri lögð í rústir, ef bóksalan væri tekin af þeim. Þetta vil ég leiðrétta. Ég sagði fyrst og fremst, að ef smásala bókanna yrði tekin frá bóksölunum víða á landinu og falin kennurum og skólastjórum, þá væri höggið svo stórt skarð í atvinnu þeirra manna, sem við sölu skólabóka fást, að óvíst væri, hvort það mundi taka því fyrir þá að gefa út aðrar bækur og fá mönnum víðsvegar um landið í hendur til sölu. Þetta sagði ég, og það stend ég við. Þetta er mjög veigamikið atriði. Hv. menntmn. féllst á þetta og vildi ekki stuðla að því, að bóksalan væri tekin af þeim mönnum, sem hafa haft eitthvað upp úr því að selja kennslubækur. Það er heldur ekki hægt að ætlast til þess, að sölulaun séu minni en nú tíðkast við sölu kennslubóka, enda féllst meiri hl. hv. menntmn. á það.

Skal ég nú minnast á eitt stórt atriði í þessu sambandi, sem hvorki snýr að bókaútgefendum eða bóksölum, kennurum eða höfundum, heldur að prentsmiðjunum í landinu. Ég þykist vita, að ef frv. verður að lögum, þá sé ætlazt til þess, að ríkisprentsmiðjan verði látin annast alla prentun þessara bóka og ríkisbókbandið verði látið annast allt, sem að bókbandi þeirra lýtur. Ég veit ekki, hvort ein af ástæðunum fyrir framkomu þessa frv. sé sú, að ríkisprentsmiðjan vilji meiri vinnu. Áður en prentsmiðjan Gutenberg varð ríkisins eign, var prentun þess opinbera, stj. og embættismanna, hagað eins og hverri stofnun þótti bezt henta. Sumir skiptu prentuninni með samningi milli prentsmiðjanna, og þær kepptu síðan um að fá vinnuna. Ég fyrir mitt leyti held, að fram á síðustu tíma hafi mátt segja, að þessa prentun bæri fremur að líta á sem einskonar styrk til prentsmiðjanna, því að þær hafa verið uppáhald landsmanna. sökum þess að þær hafa gefið mönnum kost á að lesa íslenzkar bækur á íslenzkri tungu. Ég hygg, að lengi hafi ýmsir þeirra manna, sem með málefni þjóðarinnar hafa farið, álitið, að ekki bæri að keppa að því að fá sem ódýrasta opinbera prentun, vegna þess að það væri réttlátt að stuðla að því, að prentun héldist í landinu. Nú hefir þetta allt tekið breytingum. Ég tel ekki, að sú ástæða sé lengur fyrir hendi, að ríkið styðji prentun í landinu með fjárframlögum. Svo margt hefir breytzt síðan um aldamótin síðustu, að þess gerist ekki lengur þörf. Nú hefir annar siður verið upp tekinn í þessu efni, sérstaklega með stofnun ríkisprentsmiðjunnar. Það var gott og gagnlegt verk, að hún skyldi vera keypt. En síðan prentsmiðjan komst í hendur ríkisins, hefir þessu öllu verið snúið við. Fyrst og fremst hefir öll opinber prentun verið tekin af öllum öðrum prentsmiðjum en henni. Það hefir orðið til tjóns fyrir ríkið. Ef ríkið semdi nú við aðrar prentsmiðjur um prentun, þá yrði það áreiðanlega til tjóns fyrir ríkið að hafa ríkisprentsmiðjuna. En þessi „Mólok“ þarf mikið að éta. Fyrst og fremst allt, sem það opinbera og starfsmenn þess lætur prenta. En þörfin eykst, og nú heimtar prentsmiðjan prentun skólabóka. Það stafar sjálfsagt af því, að á sumum tímum árs er lítið að gera, en þetta er samt ískyggilegt. Af þessu sést nefnilega, að starfsmenn eru fleiri en þörf er á. Taki ríkisprentsmiðjan að sér prentun skólabóka, verður bætt við fleiri starfsmönnum til þess að annast prentun bókanna og afgreiðslu. Er þá örugg vissa fyrir því, að starfsmannafjölgunin verði hæfileg? Fari svo, að starfsfólkinu verði fjölgað, gæti ég ímyndað mér, að eitthvert nýtt verkefni þyrfti að finna. Þessi „Mólok“ er svo ágjarn, að honum nægir ekki öll opinber prentun, sem nú er völ á, heldur heimtar hann nú prentun skólabóka líka. En það er grunur minn, að hann verði ekki saddur, þótt hann fái þessar skólabækur, heldur hafi hann það eins og refurinn, þegar hann ætlaði að skipta ostinum, og éti hann allan sjálfur. Það getur farið svo, að því verði haldið fram, að óhjákvæmilegt sé að veita ríkinu einkarétt á allri prentun í landinu. Enginn ætti að fullyrða, að ekki gæti svo farið eftir 10—20 ár. (SK: Eftir nokkur ár). Því skal ekki neitað, að þessi „Mólok“ skilar arði í ríkissjóð. Ég sé á landsreikningunum frá 1932, að hagnaðurinn á ríkisprentsmiðjunni er talinn vera 70 þús. kr. Það er allálitlegur skildingur fljótt á litið. En sé betur að gætt, kemur það í ljós, að raunverulegur hagnaður er ekki nærri svo mikill, vegna þess að ríkisstofnanirnar mega ekki bjóða verkið prentsmiðjum einstakra manna fyrir neðan taxta ríkisprentsmiðjunnar. Með þeim taxta, sem nú gildir, er ekkert þrekvirki að sýna góðan hagnað. Þessi hagnaður ríkisprentsmiðjunnar er því að nokkru leyti tekinn óbeint úr vasa ríkisstofnananna. En sósíalistarnir standa upp og segja: Viljið þið sjá, hvernig ríkisfyrirtækið ber sig? Íhaldið er vant að setja allt á hausinn. Þetta fyrirtæki skilar 70 þús. kr. í ríkiskassann. Hvað getið þið komið með á móti? Þetta fé er að nokkru leyti tekið úr vasa ríkisins, getum við svarað.

Nú vil ég víkja nokkrum orðum að bókbandinu. Nú verður ríkið að setja upp stórt bókband. Ríkið á nú dálítið bókband. Það getur leyst bókbandsstörf af hendi í samkeppni við þessa „bókbindarafúskara“, sem ekki eru í ríkisbókbandinu, en þessi litli angi mun vafalast vaxa á svipaðan hátt og ríkisprentsmiðjan, móðir hans. Það getur farið svo, að hann leggi undir sig alla þá, sem eru að basla við að bjarga sér á þessu sviði og eru svo fyrirlitnir nú á dögum. Ríkisvaldið vill skipuleggja þá, og það er byrjað að leggja þessa stétt að velli.

Það verður of langt að fara út í það, hvers vegna þetta er eins og drep fyrir þjóðfélaglíkamann. Bókbindarar munu fara sömu leið og prentararnir, í hið gráðug, gin þess, máttuga „Móloks“.