24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 227 í C-deild Alþingistíðinda. (4316)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Jakob Möller [óyfirl.]:

Það er nú að bera í bakkafullan lækinn að færa fleiri rök gegn þessu máli, því að það hafa aðrir gert, sérstaklega hv. 5. þm. Reykv. Ég get þó ekki stillt mig um að vekja athygli hv. þdm. á því, að sósíalistar hafa vakið upp þetta mál aðeins af þeim hvötum, að þeir hafa öfundazt yfir þeim gróða, sem þeir hafa haldið, að einstakir menn hefðu af útgáfu þessara bóka. Hv. 5. þm. Reykv. hefir sýnt greinilega fram á það, hversu fjarri fer því, að líklegt sé, að útgáfa þessara bóka verði ódýrari í höndum ríkisins heldur en í höndum einstakra manna. Það má öllu heldur gera ráð fyrir, að hún verði dýrari. Þetta er eðlilegt, þar sem þessi tiltölulega lítil þáttur í bókaútgáfunni er tekinn úr höndum einstaklingsrekstrarins og settur undir ríkisrekstur. Það liggur í augum uppi, að útgáfukostnaðurinn hjá ríkinu, fyrir utan beinan vinnukostnað í sambandi við prentun, sem verður sennilega sá sami, verður meiri, sökum þess að hann jafnast niður á svo litið útgáfumagn, eins og hv. 5. þm. Reykv. hefir greinilega sýnt fram á.

Ef það væri í raun og veru hugmyndin hjá þeim, sem bera þetta frv. fram, að gera útgáfu skólabóka ódýrari, þá er augljóst, að heppilegra væri að velja aðra leið til þess. Hv. frsm. meiri hl. n. er þetta atriði fullkomlega ljóst.

Hinsvegar eru svo miklir ágallar á því fyrirkomulagi, að ríkið einoki framleiðslu einstaklinganna, að það gegnir mikilli furðu, að nokkur maður, sem ann frelsi, skuli geta léð lið sitt til slíks. Ef nokkur leið er líkleg til þess að hefta hugsana- og þroskafrelsi einstaklinganna í þjóðfélaginu, þá er það þessi, að gefa ríkinu heimild til þess að einoka skólabækur. Það má vel vera, að þetta vaki að einhverju leyti fyrir sósíalistum, þegar þeir bera fram þetta frv., því að þótt þeir gaspri um lýðfrelsi, þá leggja þeir sérstakan skilning í það hugtak, sem sé: það, sem eflir þeirra hag meðal þjóðarinnar. Þessa leið telja þeir heppilegt að fara til þess að ná þeim tilgangi. Það má sjálfsagt ætla, að þegar komið er eftirlit með löggjöf kennslubóka, þá þyki þessum mönnum tilganginum bezt náð með því að koma á fullkominni einokun. Mér finnst réttara og sómasamlegra af þeim hv. þm., sem málinu fylgja af þessum ástæðum, að meðganga það hreinskilnislega, í stað þess að vera með það falsyfirskin, að tilgangurinn sé sá, að gera bækurnar ódýrari fyrir þá, sem á þeim þurfa að halda. Eins og hv. 5. þm. Reykv. benti á, verða bækurnar vitanlega ekki ódýrari fyrir það eitt að komast í hendur ríkisins, þótt ef til vill verði hægt að selja þær ódýrari, ef svo og svo mikill kostnaður við útgáfuna verður greiddur úr ríkissjóði, eða að lagt verður á aðrar stofnanir, eins og greinilega kom fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. En eins og hv. 5. þm. Reykv. tók fram, þýðir það ekki annað en að taka úr einum vasa og láta í annan. Þetta er því vitanlega ekki beinlínis verðhækkun. Það er fyrirsjáanlegt, að það er ekkert annað en fyrirsláttur hjá þessum mönnum að láta sem þeir vilji stuðla að því, að þeir, sem eru svo efnalitlir, að þeir geta ekki keypt skólabækur, fái þær ókeypis. Þessi umhyggja er ekkert annað en fyrirsláttur, til þess að koma fram öðrum tilgangi.

Það er óþarfi að benda á það, hvað þetta fyrirkomulag, sem barizt er fyrir með þessu frv., er skaðlegt með tilliti til margbreytni bókanna. Með einokun verður bókaúrvalið miklu fábreyttara, fyrst og fremst af því, að það er ekki hægt að fá nema ákveðinn fjölda kennslubóka löggiltan, og eins líka sökum þess, að ríkisstj. hlýtur að hafa tilhneigingu til þess að hafa sem fæstar bækur á boðstólum, til þess að minnka kostnaðinn. Það er kynlegt, að hv. frsm. meiri hl., sem er fræðslumálastjóri, skuli vilja beita sér fyrir öðru eins óþarfamáli og hér er um að ræða.