24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 228 í C-deild Alþingistíðinda. (4317)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Mér virðist skammt milli ríkisútgáfu og þeirra leiða annara, sem bent hefir verið á í þessu efni. Strax þegar ríkið eða fulltrúar þess eiga að ráða algerlega samningu bókanna og verði, þá er komið svo nálægt ríkisrekstri, að mjótt er á milli.

Það hefir komið fram í þessum umr., að hér sé um það að ræða, að viss pólitískur flokkur ætli að hefta hugsunar- og þroskafrelsi barnanna með frv. því, sem hér liggur fyrir. Þessu er beint til okkar, og við erum beðnir um að vera ekki með neinn yfirdrepskap, en játa þetta hreinskilnislega. Þessu vil ég leyfa mér að mótmæla. Viðvíkjandi því, hvaða skoðanir koma fram í bókunum, eru þau skilyrði sett, að bækurnar verði að vera löggiltar. Ef menn óttast, að það eigi að takmarka hugsanafrelsi og þroskafrelsi, þá getur mikil hætta stafað af núv. ástandi í þessum efnum. Það er algeng venja hjá öðrum þjóðum, að kennslubækur séu löggiltar, og ég hefi ekki fyrr heyrt talað um, að hugsanafrelsinu geti stafað hætta af slíku. Þótt ríkið gefi út skólabækur, verður ekki annað heimtað en að 2+2-4, að Reykjavík sé á Íslandi og ýmsar aðrar staðreyndir. Þess vegna er það augljóst mál, að það er ástæðulaust að óttast, að gert verði upp á milli þeirra viðfangsefna, sem hina ýmsu pólitísku flokka greinir á um.

Því hefir oft verið haldið fram, að sagan gæfi slík tækifæri. Til þess að fyrirbyggja slíka hættu, væri sennilega heppilegast, að sögukennslan næði ekki lengra en fram að síðustu aldamótum.

Raunar þekki ég helzt til slíks ágreinings um kristindóminn. Annars hefir ekki orðið vart við höft hér frá hv. jafnaðarmönnum, heldur frá hinum, sem ekkert vilja leyfa nema þá „viðurkenndu trú“, eins og það er kallað í þjóðfundargerðinni frá 1851. Ég skal ekki fara lengra út í þessa sálma, en tilgangurinn með því að ráða efnisvali er sá, að það sé rétt, sem tekið er. Það dettur engum í hug að ráða því, hverju kennarar birta við frá eigin brjósti. Höfuðatriðið er, hvernig bækurnar eru samdar, eða það uppeldisfræðilega sjónarmið. Það er fátæklegra að hafa eina bók en tvær, en það er von þeirra, er þessu máli fylgja, að þessi eina geti orðið margbreyttari en allar hinar, sem annars væru til.

Ég vil mótmæla því, að þetta frv. sé tekið upp af nokkurri öfund við gróða útgefenda. Það eru barnakennarar, sem hafa óskað, að þetta mál væri tekið upp, og það stendur sú trú á bak við, að bækurnar verði bæði betri og ódýrari. Ég hygg, að erfitt sé að bera á móti því, að ef hér væri aðeins einn bóksali, er ekki ætti við neina samkeppni að stríða, þá gæti hann gefið út ódýrari bækur. Hið sama gildir um ríkið. Hér er ekki um neina stóra baráttu að ræða milli ríkisrekstrar og einstaklingsframtaks. Eins og ríkið og bæirnir reka skólana — og enginn sér ástæðu til þess að kvarta yfir því — eins er það ekki nema sjálfsagt, að ríkið sjái um útgáfu skólabókanna.