24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (4319)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. minni hl. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Ég vona, að hv. frsm. meiri hl. taki til máls aftur, því að hann byrjaði sína ræðu á því að segja, að það væri ekki þeirra, er málinu væru hlynntir, að gera grein fyrir því, heldur væri það hlutverk minni hl., er væri á móti málinu. Ég var hissa á því, hve lítið hv. þm. reyndi að upplýsa málið. Hann sagði bara, að það væri trú sín og kennara, að þetta skipulag mundi reynast betur. Ég benti á það í fyrri ræðu minni við þessa umr., að eigi væri mikill munur á útgáfustjórninni, sem þetta frv. gerir ráð fyrir og á að eiga frumkvæðið að samningu skólabókanna, og fræðslunefndinni, er nú situr.

Hv. þm. hélt því fram, að þörfunum á skólabókum væri ekki fullnægt og að bókunum væri ábótavant. Mér finnst það nú undarlegt, að fræðslumálastjórnin skuli ekkert hafa gert til þess að ráða bót á þessu, því að vitanlega má kippa þessu í lag án þess að sett verði á stofn ríkisútgáfa á skólabókum. Ég fullyrði það, að öllum sanngjörnum kröfum í þessa átt megi fá fullnægt. — Hv. þm. gerði lítið úr því, að skoðanir kennara á stjórnmálum kæmu fram við kennsluna. Ég held, að ekki sé rétt að fullyrða, að hættan sé lítil í því efni; ég held, að hún sé veruleg. Ég treysti honum persónulega, meðan hann er formaður útgáfun., en þegar hans missir við, er ekki gott að vita, hvað við tekur.