24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 229 í C-deild Alþingistíðinda. (4323)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Frsm. meiri hl. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég hefi í annari ræðu svarað hv. frsm. minni hl., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka það. Það var því ekki það, að mér þætti hans langa ræða ekki svaraverð, sem olli því, að ég svaraði ekki, heldur hitt að ég þóttist hafa svarað áður.

Ég vil þakka hv. þm. góða trú á mér um það, að ég muni ekki binda mig við flokksfylgi í þessum málum. Hinsvegar vil ég segja það, að ef hér er einhver hætta á ferðum, þá er hún það alveg eins þótt engu sé breytt.

Það er rétt, að sá munur er á okkar aðferð og aðferð hv. minni hl., að bækurnar verða fleiri með aðferð minni hl., en það er einmitt það, sem við viljum komast hjá, og kröfurnar verða æ sterkari um það á síðari árum, að þessu beri að kippa í lag. Það er betra að hafa ekki nema eina bók í hverri grein og gera hana því betur úr garði. Þessi svokallaða fjölbreytni er dýrari, og oft eigi meiri fjölbreytni en þó ein bók væri, þótt margar kunni að vera bækurnar. Hinsvegar mun það auka á fjölbreytni, að kennarar komi fram með óskir sínar í þessum efnum til ríkisforlagsins.