24.11.1934
Neðri deild: 45. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 230 í C-deild Alþingistíðinda. (4327)

20. mál, ríkisútgáfa skólabóka

Jóhann Jósefsson [óyfirl.]:

Ég hafði ekki hugsað mér að láta þessa umr. til mín taka, þótt sitthvað sé það í sambandi við fræðslustarfsemi síðari ára, sem fær mig til þess að efast um, að þar sé allt í því rétta lagi, en það var ræða hv. 11. landsk., sem orsakaði það, að ég kvaddi mér hljóðs. Það er sannarlega fullkomið alvörumál, ef hlutdrægni er beitt í kennslunni, eins og hv. 11. landsk. fullyrti. Ég veit ekki, hvort rétt er í sambandi við þetta mál að minna á þessu hluti, því að ég veit, að þetta er viðkvæmt mál, og ég hefi orðið þess var, að hér eru vissir menn, eins og t. d., já, 9. landsk. held ég að hann sé kallaður, sem þykjast svo yfirvitrir í þessum málum, að leikmenn, eins og ég og mínir líkar séu ekki til þess bærir að dæma um þetta.

Þetta mál er þannig vaxið, að það er orðið áhyggjuefni, ekki aðeins fjárhagshlið þess, heldur eigi síður hitt, hve undarlega margar raddir eru uppi um það, að fræðslustarfsemin sé á sumum sviðum notuð til þess að koma að vissum skoðunum á landsmálum. Þess verður t. d. vart, að foreldrar álíta, að fullrar varúðar sé ekki gætt af þeim kennurum, er kenna t. d. kristindóm, um að blanda ekki sínum skoðunum á þessum málum inn í kennsluna. Það getur verið af því, að kennarar eru illa launaðir hér í landi, að þeir hallast margir hverjir að ákveðnum pólitískum skoðunum. Víða mun bóla á því, að kennarar séu það, sem kallað er nokkuð vinstra megin í skoðunum, meira að segja kommúnistar, og komi þeim skoðunum sínum að á mismunandi áberandi hátt. Nú finnst mér sérstök ástæða til þess að ræða þetta mál og fá það upplýst, þegar það er borið hér fram á hv. Alþingi, að notuð sé kennslubók í sögu við skólann, sem sé hlutdræg. Ég efa það ekki, að núv. fræðslumálastjóri muni eigi persónulega hneigður til að nota bækur, sem séu hlutdrægar, en þegar maður hefir þá sannfæringu, þá er að finna skýringu á því, hvernig það megi vera, að við sögukennsluna sé notuð bók, sem eftir upplýsingum hv. þm. er talin mjög hlutdræg í fráskýringum sínum á þjóðmálum. Og þetta er í viðbót við það, sem mikið er talað um, bæði í sveitum og kaupstöðum, að við skólana séu öðrum fremur menn með ákveðnar pólitískar skoðanir og fari ekki neitt í felur með þær.

Það hljóta allir að vera sammála um, að fræðsla í almennum efnum, t. d. sögu, sé bezt á þann veg, að hún sé sannleikanum samkvæm og óhlutdræg. Ég hefi ætíð litið á það sem lífsskilyrði fyrir því, að fræðsla bæri góðan ávöxt, að hún væri óhlutdræg. Þetta er því alvarlegra, því meir sem skerst í odda og meira kapp er á það lagt að draga menn undir kenningar vissra stjórnmálaflokka, svo að sem minnst verði vart einstaklingsfrelsisins. Ég held, að allir hljóti að kannast við, að það stefnir meira og meira að því í þessu þjóðfélagi, að útiloka þau afskipti af stjórnmálalífinu, er kalla má, að stafi frá skoðun hvers einstaklings. Það hefir verið talað um þetta í sambandi við stjórnarskrárbreytinguna og því haldið fram í Nd., að breytingarnar, sem gerðar voru, hafi miðuð að því að ákveða betur en áður vald flokkanna á þjóðfélagsmálum. Þegar svo er komið, þá virðist mér, að þess beri enn betur að gæta en áður, að uppfræðsla unglinganna sé ekki sett undir neinn flokkslit, heldur sé hún óhlutdræg og stefnt sé að því að gera unglingana færa um að dæma um það á sínum tíma, hvernig þær stefnur eru, sem uppi kunna að vera. Ef undirbúningurinn undir lífið, sem fyrst og fremst er fólginn í fræðslu barna og unglinga, á að fara svo fram, að kennari eða kennslubók, eða hvorttveggja, móti börnin og unglingana í sérstökum formum, og að því sé stefnt að gera þá sem móttækilegasta fyrir einhverja sérstaka trú í landsmálum, þá er hætt við, að þessum unglingum verði ekki hægt um vik að átta sig, þegar fram á þann aldur sækir, að þeir eiga að fara að velja og hafna af sjálfsdáðum.

Hv. 11. landsk. benti á það hér við umr., að þessi sýkill er þegar kominn inn í skóla landsins. Hann upplýsti það, að við nokkra barna- og unglingaskóla sé nú notuð kennslubók í Íslandssögu, sem sé alveg einstaklega hlutdræg í íslenzkum stjórnmálum. Þetta og annað eins er ekki hægt að þegja fram af sér á Alþingi. En það, að annað eins og þetta skyldi geta komið fyrir hér á landi, stafar af því einu, að það er staðreynd, að árum saman hafa valizt eða verið valdir að skólunum menn, sem sízt af öllu hafa haft það sér til ágætis að vera hlutlausir í pólitík, enda hefir oft virzt svo, sem áherzla væri á það lögð af veitingarvaldinu, að þeir væru það ekki.

Hv. 11. landsk. hefir því með upplýsingum sínum vakið máls á nýrri hlið á þessu máli, og þótt þetta atriði þurfi að vísu ekki að standa í beinu sambandi við frv., hefir það mjög alvarlega þýðingu, þegar lítið er á fræðslu ungmennanna í heild. Frá því litla umhverfi, sem mér er kunnugast, get ég bent á átakanlegt dæmi þess, hve athugunarleysi þeirra, sem með fræðslumálin hafa farið, í því að sjá fyrir hlutlausri forstöðu unglingaskóla hefir eyðilagt alla starfsemi skólans. Þannig er þetta í þeim eina unglingaskóla, sem ég er kunnugur að nokkru ráði. Slíkur árangur af skólastarfinu er ekki skemmtilegur fyrir þá, sem bundið hafa vonir sínar við starfsemi skólans, né heldur það sveitar- eða bæjarfélag, sem efnt hefir til hans með ærnum kostnaði. Það er hreint og beint sorglegt, þegar slíkum skóla er valin forusta, sem, frá uppeldislegri hlið skoðuð, er vægast sagt mjög óheppileg, vegna pólitísks ofstækis og undirróðurs skólastjórans. Aðrir kunna að hafa svipaða sögu að segja.

Það hlýtur að vera heppilegast frá sjónarmiði hvaða flokks sem er, að bæði kennurum og kennslubókum í skólunum sé haldið utan við deilur í stjórnmálalífinu og þau pólitísku áhrif og flokkastreitur, sem gera vart við sig annarsstaðar.

Ef ekki er lögð áherzla á þetta, og ég held, að þessu sé einmitt of lítil athygli veitt af kennslustjórninni, þá held ég, að skólarnir missi eitt það, sem þeir mega þó sízt án vera, en það er traust og tiltrú heimilanna, sem líka ber oftast saman við það traust, sem skólinn skapar hjá nemendum sínum. Sorglegra ástand getur ekki verið til í skóla en að þar sé hlutdrægur kennari eða forstöðumaður með hlutdrægar kennslubækur, því að á þann hátt missir skólinn traust og tiltrú, og kennarastéttin sem heild vekur tortryggni, jafnt saklausir sem sekir.

Ég vona, að sú ásökun, sem hv. 11. landsk. kom með um slíka hlutdrægni, veki menn til alvarlegrar umhugsunar um ástandið í skólum landsins og verði til þess að menn sjái það mál, sem hér liggur fyrir, í nokkru skýrara ljósi en áður.