09.10.1934
Neðri deild: 5. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í C-deild Alþingistíðinda. (4392)

24. mál, fátækralög

Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Hv. 3. þm. Reykv. heldur því fram, að ef þetta frv. nái samþykki, muni það leiða til verulegrar hækkunar á framfærslukostnaði, vegna þess að ákvæði gildandi laga um sveitarflutninga verki sem hemill gegn því, að menn segi sig til sveitar. Ég held, að hv. þm. geri meira úr þessu heldur en ástæða er til. A. m. k. er auðheyrt á hv. 2. landsk., að hann gerir ekki mikið úr þessu, þar sem hann telur, að ákvæðunum um sveitarflutninga hafi yfirleitt ekki verið framfylgt upp á síðkastið, sem ég játa, að muni vera að nokkru leyti rétt hjá honum. Hitt er algerlega rétt hjá hv. 3. þm. Reykv., að það mun fyllilega vera tími til þess kominn, að fram sé látin fara rannsókn á fjárhag býsna margra sveitarfélaga. Hygg ég, að allmörg hafi þegar eða séu í þann veginn að gefast upp við að fullnægja þeim fjár- kröfum, sem á þau falla. Að sumu leyti stendur þetta í sambandi við fátækraframfærsluna, en ekki að öllu leyti nema á örfáum stöðum. Ég get í sambandi við þetta bent hv. þm. á, hvers vegna þetta frv. er kallað bráðabirgðabreyting. Eins, og menn muna, hefi ég flutt á nokkrum þingum frv. um alþýðutryggingar. Það er ætlun mín að láta semja lagabálk, sem í verða lög um alþýðutryggingar á svipuðum grundvelli og gamla frv., og í öðru lagi lög um „opinbera forsjá“, þar sem settar verða saman í eitt allar reglur um meðferð sjúklinga, fyrirvinnulausra barna og annara slíkra, sem undir þau lög mundu tala. Drög í þann hluta bálksins eru til, t. d. að því er snertir berklasjúklinga, holdsveikisjúklinga og sjúklinga, sem hafa kynferðissjúkdóma. Þegar þetta er komið í framkvæmd, ætti hin eiginlega fátækraframfærsla, sem eftir er, að verða mjög lítil. Það yrðu þá aðeins ýmiskonar vandræðamenn og þeir, sem af einhverjum ástæðum yrðu á milli hinna flokkanna. Það frv., sem hér liggur fyrir, er því miðað við bráðabirgðaástand. Ég ætla að vinna að því eftir því sem í mínu valdi stendur, að sú lagasetning, sem ég hefi nú talað um, komist á sem allra fyrst. Og ég hygg, að slíkar ráðstafanir séu hin mesta og bezta hjálp, sem hægt er að veita þeim bæjar- og sveitarfélögum, sem eiga við örðugan fjárhag og búa vegna óvenju mikils fátækraframfæris.

Það er að nokkru leyti tekið tillit til þess, að af samþ. þessa frv. kunni að leiða aukinn kostnað við framfærslu, með því að gert er ráð fyrir í fjárlagafrv., að framlag ríkisins til jöfnunar á framfærslukostnaði hækki úr 100 þús. kr. upp í 200 þús. kr. Það er sumpart vegna vanfærslu frá fyrra ári og sumpart vegna þeirrar hækkunar, sem kann að leiðu af þessu frv.

Um að færa meira af framfærslukostnaðinum af framærslusveitinni á dvalarsveit er það að segja, að ég get ekki fallizt á það. Ég tel ekki fært að ganga lengra en það, að dvalarsveit og framfærslusveit greiði kostnaðinn eftir sömu hlutföllum eins og samkv. gildandi lögum meðan ekki er framkvæmdur sveitarflutningur, og við það er frv. miðað.