02.11.1934
Neðri deild: 26. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í C-deild Alþingistíðinda. (4394)

118. mál, sala þjóðjarða og sala kirkjujarða

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Það eru enn í gildi lög frá 1905 og 1907 um sölu þjóðjarða og kirkjujarða, þó að þau séu lítið notuð nú í seinni tíð. Það mun vera orðin almenn skoðun, a. m. k. Alþfl.manna og margra bænda, að þjóðjarðasalan hafi orðið að litlu gagni, nema fyrir fyrsta kaupanda jarðanna, en til mikils tjóns fyrir bændastéttina sem heild. Nú munu vera eftir 800— 900 þjóð- og kirkjujarðir í landinu, en búið er að selja töluvert meira.

Frv. þetta fer fram á að fella hvortveggja þessi lög úr gildi, svo ekki sé hægt að selja þær jarðir, sem eftir eru í eign hins opinbera, nema með sérstakri lagaheimild.

Ég vildi mega vænta þess, að ekki yrðu miklar umr. um mál þetta nú við 1. umr., og óska svo, að frv. verði vísað til landbn. að umr. lokinni.