09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 270 í C-deild Alþingistíðinda. (4428)

9. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Ég býst ekki við, að þeim, sem fylgzt hafa með gangi slíkra mála sem þessa á undanfarandi þingum, komi það á óvart, þótt ég geti ekki fylgt því. Ég er og hefi verið yfirleitt á móti því að skattleggja bifreiðar og notkun þeirra. Það þýðir ekkert að vitna í það, að í öðrum löndum sé svo og svo hár benzínskattur, — þar er svo ólíku saman að jafna. Ef fá á réttan samanburð, verður að athuga öll samgöngumál viðkomandi þjóða. Í öllum þeim löndum, sem vitnað hefir verið til, er haldið uppi dýrum járnbrautum. Víða reka ríkin þær með stórkostlegu tapi, svo mikið þykir undir því komið að hafa fargjöldin sem lægst. Svo þegar þessi nýju samgöngutæki, bifreiðarnar, koma til sögunnar, þá eru frá sjónarmiði ríkjanna tvær ástæður til þess að leggja á þau háa skatta. Fyrst og fremst vegna þess, að ríkin þykjast hafa séð fyrir flutningastörf landsmanna á annan hátt, og svo beinlínis til þess að verja járnbrautirnar fyrir hættulegum keppinaut.

Aftur á móti höfum við hér engin farartæki, sem var, til flutningaþarfa nútímans á landi, önnur en bílana. Það verður því að bera þá hjá okkur saman við járnbrautirnar hjá öðrum þjóðum. Svo kemur það til greina, sem hæstv. ráðh. minntist sjálfur á, hvað vegirnir eru hér vondir. Það er algild regla, að minna er borgað fyrir lélega vöru. (Fjmrh.: Það á líka að borga minna hér). Vegirnir eru líka svo margfalt verri vara. Utanlands hafa verið lagðir malbikaðir vegir um löndin þver og endilöng, og við það sparast beinlínis svo mikið á hjólhringum og benzíni, að ég efast um, að raunverulega verði skatturinn nokkuð hærri. Þar við bætist svo, að ríkin leggja til járnbrautirnar og kosta miklu fé árlega til þess að starfrækja þær. Í þeim liggur fjármagn, sem skiptir hundruðum milljóna, og til þess, að sitja ekki upp með öll þau mannvirki ónotuð, er gripið til þess að skattleggja bílana.

Það hefir verið fært fram sem ástæða, að hér þurfi svo mikið fé til vegaviðhaldsins. En ég veit ekki, af hverju þessi eini kostnaður á endilega að greiðast sérstaklega. Er það svona óttalegur lúksus að leggja vegi á landi og nota þá? Ég skil ekki, hvers vegna ekki má greiða þennan kostnað af almennum sköttum, eins og svo margt annað hliðstætt, sem gert er almenningi til hagsbóta.

Þar sem ég hefi alltaf verið á móti þessum skatti, þá er ég vitanlega einnig á móti því nú, að hann sé hækkaður. Ég sé ekki neitt samræmi í því, að ríkið leggi fram hundruð þúsunda til samgangna á sjó, en taki svo aftur skatt af samgöngum á landi. Þó „vegirnir“ séu ódýrari á sjónum, þá eru farartækin sjálf dýrari.

Ég hefði haldið, að þetta mál gæti ekki náð fram að ganga, vegna þess að Alþfl. væri á móti því. Ég mun ekki betur en að við samþm., hv. 2. þm. Reykv. og ég, höfum stoðið mjög hlið við hlið gegn þessu máli á undanförnum þingum. En ég fer nú að efast um andstöðuna, úr því að hv. þm. Alþfl. hér í d. hafa greitt atkv. með innflutningshöftunum, sem þeir hafa áður verið mjög á móti. Ég sé nú, að þeir hafa orðið að kaupa dýru verði að fá að sitja í sólskininu stjórnarmegin, og e. t. v. eiga þeir nú einnig að greiða hluta af því gjaldi.