09.10.1934
Efri deild: 6. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 273 í C-deild Alþingistíðinda. (4434)

9. mál, bifreiðaskattur o.fl.

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson) [óyfirl.]:

Ég heyrði á hv. síðasta ræðumanni, að hann hafði misskilið mig, þegar ég talaði um framlög okkar til strandferða í sambandi við framlög annara þjóða til járnbrauta. Ég var aðeins að benda hv. 1. þm. Reykv. á það, að ef honum finnst framlag annara þjóða til járnbrauta réttlæta hinn háa benzínskatt hjá þeim, þá ætti framlag okkar til strandferðanna alveg eins að réttlæta okkar tiltölulega lága benzínskatt frá hans sjónarmiði. Ég fyrir mitt leyti get ekki séð, að framlög til járnbrautanna réttlæti út af fyrir sig á nokkurn hátt háan benzínskatt, eins og ég tel ekki heldur framlögin til strandferða koma honum neitt við. (MJ: Það er nú nóg af rökvillum hjá hæstv. ráðh. sjálfum, þó hann sé ekki að troða þeim upp á aðra líka). Hinsvegar vil ég benda á, að það hvílir nokkur skattur á umferðinni á sjó, sem er ekki ólíkur benzínskattinum að eðli. Það er vitagjöldin, sem nema að heildarupphæð á 6. hundrað þús. kr. Þetta er einskonar umferðaskattur á sjónum, hliðstæður benzínskattinum á landi. Það, sem réttlætir benzínskattinn, er ekki það, að lagt er stórfé til strandferða, heldur hitt, að lagt er stórfé til lagningar nýrra akvega og viðhalds gömlu veganna, svo ekki er óeðlilegt, að eitthvað sé tekið af umferðinni upp í þann kostnað hér eins og annarsstaðar.