10.11.1934
Neðri deild: 33. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 383 í C-deild Alþingistíðinda. (4438)

123. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Sjútvn. er sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. með lítilsháttar breytingu. Einn nm. hefir þó skrifað undir nál. með fyrirvara. En frv. fer fram á, að með vissum skilyrðum megi veita mönnum undanþágu til þess að stjórna stærri skipum en skírteini þeirra hljóðar upp á. Á fund n. komu menn frá Skipstjórafélagi Íslands og notuðu tækifærið til að benda n. á það, að ástæða væri til að taka þessi mál til endurskoðunar. Þeir bentu á, að það væri ákaflega mikið ósamræmi í því, með hvaða skilyrðum menn fá að ganga inn í sjómannaskólann, hvað snerti siglingatímann. Þó að menn hafi lengi siglt litlu skipi, þá geta menn ekki komið inn í skólann til þess að stækka próf sitt. Þetta þarf að taka til endurskoðunar. N. getur ekki fallizt á, að hætt sé við að veita þessa undanþágu á meðan á endurskoðuninni stendur. Undanþágan er bundin við ströng skilyrði, því sá, sem fær hana, á að hafa verið skipstjóri í 60 mánuði, og skipi hans á ekki að hafa hlekkzt á undir skipstjórn hans. N. breytti þessu orðalagi þannig, að honum hafi ekki orðið á. Það er vitanlegt, að skipi getur hlekkzt á án þess að það sé skipstjóra að kenna. N. viðurkennir, að endurskoðun þessara l. er nauðsynleg, en mælir með því, að þessi undanþága verði heimiluð með l. þangað til endurskoðunin fer fram.