12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í C-deild Alþingistíðinda. (4448)

54. mál, kosningar í málefnum sveita og kaupstaða

Flm. (Sigurður Einarsson):

Þetta frv. er í rauninni mjög smávægilegt. Í l., sem nú gilda um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða, er heimilað að viðhafa hlutfallskosningu í hreppsnefndarkosningum, ef fullnægt er vissum skilyrðum. Það er kunnugt, að þessi heimild er notuð meiru og minna, einkanlega í kaupstöðum. En því er svo háttað, að í núgildandi lögum eru ekki skýr ákvæði um það, hvort varafulltrúar á lista við hreppsnefndarkosningu hafa rétt til að sitja fundi í forföllum aðalfulltrúa. Og þó gilda fyrirmælin um, að varafulltrúar skuli vera á lista, sem fram er borinn, einnig um hreppsnefndarkosningar. Þetta frv. fer fram á, að fyrirmæli 2.-4. málsgr. 16. gr. nái til leynilegra kosninga utan kaupstaða, og að fyrirmæli 19. gr. gildi um aðalfulltrúa og varafulltrúa í hreppsnefnd. Það hefir stundum risið ágreiningur út af þessu, og er þetta litla frv. borið fram til að fyrirbyggja hann.

Ég gæti vel sætt mig við þá lausn á málinu, að hlutfallskosningar yrðu fyrirskipaður yfirleitt í málefnum sveita og kaupstaða. En ég sá þó ekki ástæðu til að bera fram svo víðtæka brtt. um þetta, að mönnum væri ekki í sjálfsvald sett, hverja aðferðina þeir viðhafa. Þetta er aðeins lítilfjörleg breyt. á fyrirmælum gildandi laga um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Breyting sú, er frv. þetta felur aðallega í sér, er fólgin í því, að vísað er til fyrirmæla í 19. gr. l., um ákvæði um varafulltrúa í bæjarstjórnum. Ég býst ekki við, að menn sjái ástæðu til að amast við því, að þetta atriði sé skýrt fram tekið. Því hver, sem athugar þetta, hlýtur að komast að þeirri niðurstöðu, að löggjafinn hafi ætlazt til þess, þegar hann heimilaði hlutfallskosningu, þó innan þröngra takmarka væri, að varafulltrúar yrðu kjörnir samtímis aðalmönnum og tækju sæti í forföllum þeirra á sama hátt og gerist í bæjarstjórnum. a. m. k. svo framarlega sem þeir hefðu tilkynnt fjarveru sína. Að vísu mun löggjafanum ekki hafa hugkvæmzt, að heimild þessi yrði notið í svo ríkum mæli sem raun ber vitni, og þess vegna ekki kveðið svo skýrt á um þetta atriði að því er snertir sveitarstjórnir, að ekki geti risið ágreiningur. Ætla ég að nú fyrir skemmstu hafi verið felldur stjórnarráðsúrskurður, sem byggist á því, að óheimilt sé samkv. gildandi l., að varamaður í hreppsnefnd taki sæti. Frv. þetta miðar þess vegna að því að girða fyrir ágreining eða misskilning á þessu atriði hér eftir. Að mínu viti er málið ekki flóknara en svo, og hefir ekki í sér fólgin þau efni til ágreinings, að um það þurfi miklar umr. en vænti þess, að því verði að þessari umr. lokinni vísuð til allshn.