12.10.1934
Neðri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 277 í C-deild Alþingistíðinda. (4454)

55. mál, þingsköp Alþingis

Flm. (Thor Thors):

Eins og skýrt er frá í grg., er frv. þetta flutt vegna þess ágreinings, er varð við þingsetninguna um það, hvort velja skyldi þm. í Ed. eftir hlutfallslegu atkvæðamagni flokkanna í Sþ. Það verður að teljast þingræðisleg nauðsyn, að svo sé um hnútana búið í þingsköpum, að einstakir þingflokkar geti ekki skotið sér undan þeirri skyldu að nefna þm. til Ed. í réttu hlutfalli við atkvæðamagn sitt, og þar með gert þingið óstarfhæft. Tel ég því æskilegast og öruggast, að svo sé fyrirskipað í þingsköpum, að ekki valdi neinum ágreiningi.

Þá hefir og risið ágreiningur um, hvort forseta beri skylda til að bera úrskurði sína undir atkv., ef þm. æskja þess. Ég fyrir mitt leyti tel, að ákvæði þingskapanna eins og þau eru nú geri ráð fyrir, að svo sé gert, ef þm. krefjast þess. En úr því menn eru ekki á einu máli um þetta atriði, þykir mér rétt, að tekin séu af öll tvímæli með skýlausum fyrirmælum þingskapanna sjálfra, og ég býst við, að flestir muni telja slíkt ákvæði sjálfsagt, enda í fullu samræmi við venjulegar lýðræðisreglur, að forseti sé háður meiri hl. þingmanna. — Það eru fleiri ákvæði í þingsköpunum, er gæti komið til mála að athuga nánar í þeirri n., sem væntanlega kemur til með að fá frv. þetta til athugunar. Ég vil geta þess, að ég flutti frv. þetta sem sjálfstætt frv., en ekki í sambandi við frv. hv. þm. Mýr. um breyt. á þingsköpum, vegna þess að ég álít frv. hans svo sjálfsagt, að ég tel nauðsynlegt að flýta því gegnum þingið, svo ákvæði þess komi strax til framkvæmda.

Það eru ýmis ákvæði þingskapanna, sem athuga þyrfti betur, og ég tel sjálfsagt, að gert verði í n., en ég sé ekki ástæðu til að fara nánar út í það nú, eða ekki fyrr en við 2. umr. — Að lokum vil ég mælast til þess, að frv. þessu verði að lokinni umr. vísað til 2. umr. og allshn.