13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (4465)

123. mál, atvinna við siglingar

Frsm. (Sigurður Kristjánsson):

Það má ekki skilja till. sjútvn. svo, að hún álíti, að þeir, sem ekki hafa réttindi, fái almennt undanþágu. En það er vitað, að það getur komið fyrir og hefir komið fyrir, að menn, sem hafa stýrt skipi á ákveðinni siglingaleið — t. d. flóabát — , sem þeir höfðu réttindi til að stýra, geti misst réttindi til að stýra því skipi, sem hefir þessar ferðir, aðeins fyrir það, að það kemur stærri bátur í notkun á þeirri leið, þó að þeir séu manna hæfastir til þess að stjórna ferðum á þessum slóðum.

Í frv. eru sett rík skilyrði fyrir því, að þessir menn geti öðlazt slíka undanþágu, en það getur vel verið, að þessi maður verði algerlega frá því ráðinn að geta haldið áfram atvinnu sinni, einmitt af þeirri ástæðu, sem hv. 3. landsk. tók fram. Og þó hann hefði siglt alla æfi, frá því hann var unglingur, þá getur vel hafa hagað svo til, að hann hafi aldrei siglt á því skipi, sem mundi veita honum réttindi til þess að komast í stýrimannaskólann til að ná þessu prófi. Ég held því, að þessi brtt. frá hv. 3. landsk. sé sama sem að vísa frv. frá, því að ég verð að segja, að ég geri mér ekki minnstu vonir um, að þessi meðmæli fengjust nokkurntíma. Er ég því á móti því, að brtt. þessi verði samþ.