13.10.1934
Neðri deild: 9. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í C-deild Alþingistíðinda. (4466)

59. mál, fiskiráð

Flm. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Mér kom ekkert á óvart, þó að hv. 2. þm. Reykv. legðist á móti frv. þessu, því að hann er með þeim ósköpum fæddur að vera á móti öllu skynsamlegu, sem ekki kemur frá honum sjálfum. (JakM: En frá honum kemur aldrei neitt skynsamlegt). A. m. k. lítið, getur maður sagt. Ég sakna þess, að hæstv. atvmrh. skuli ekki vera viðstaddur nú, því að ég vildi miklu frekar ræða um þetta mál við hann heldur en hv. 2. þm. Reykv., því að hann er miklu fróðari, skynsamari og sanngjarnari maður. Við hann er því talandi um mikilsverð þjóðfélagsmál, sem verður að teljast frágangssök að ræða um við hv. 2. þm. Reykv., sakir ofsa og grunnfærni. Annars var öll ræða hv. þm. ekkert annað en viðleitni til að narta í mig, sem í raun og veru er ekki svara verð, og mun ég því fáu einu að honum víkja. Ég þarf alls ekki að sækja mitt vit í þessum málum til þessa hv. þm., því að á þeim hefi ég miklu meira vit en hann, alveg eins og hann hefir meiri þekkingu á því að verzla með benzín og olíu heldur en ég.

Þá ætlaði hv. þm. víst að fara að vera fyndinn, þegar hann fór að segja frá því, sem honum hafði dottið í hug eftir að hann hafði lesið grg. fyrir frv. mínu. Já, honum datt í hug þetta: „Fjöllin tóku jóðsótt, en fæddist lítil mús“. Ég vil nú spyrja hann, hvort honum hafi þá ekki alveg eins dottið þetta í hug, þegar hann var fyrst að hugsa um skipulagsnefndina frægu, sem hann er form. fyrir, nefndina sem á að ráða öllu milli himins og jarðar, en hefir hvorki vald né þekkingu til þess að vinna það, sem henni er ætlað. Ætli það megi ekki frekar segja um hana, að þar hafi fjöllin tekið jóðsótt, en aðeins fæðzt lítil mús?

Þá kom hv. þm. inn á það, að fiskiráðið myndi ekki geta komið hugmyndum sínum í frumkvæmd vegna þess, að það hefði engu fé yfir að ráða. En þetta er ekki aðalatriðið, eins og ég tók fram áðan; fiskiráðið kæmi nfl. til með að hafa aðra aðstöðu til þess að koma fram till. sínum. Við skulum hugsa okkur t. d., að það væri skipuð n. til þess að leysa eitt mesta vandamál útvegsins — hið háa olíuverð — og að hv. 2. þm. Reykv. væri skipaður í þá n. Myndi hann kannske ekki geta bent útvegsmönnum á einhverjar leiðir til þess að lækka olíuverðið, og jafnframt tryggt það, að till. hans kæmust í framkvæmd? Ég er viss um, að hv. þm. myndi geta þetta. En alveg sömu að stöðu munu fiskiráðsmenn hafa til fiskframleiðslunnar og fiskverzlunarinnar og þessi hv. þm. hefir til olíuverzlunarinnar.

Hitt var alveg hrein vitleysa hjá hv. þm., að Fisksölusamlagið hefði svikizt um það hlutverk sitt, að leita nýrra markaða fyrir fiskframleiðsluna. Það hefir aldrei haft annað hlutverk en að selja saltfiskframleiðslu landsmanna, og hefir aldrei haft skyldu eða aðstöðu til annars.

Það, sem aðallega sakir fyrir mér með flutningi þessu frv., er það, að fisksölumálið verði rannsakað, og það af aðilum, sem hafa þekkingu á því og aðstöðu til þess að koma till. sínum í framkvæmd.