13.11.1934
Neðri deild: 35. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 288 í C-deild Alþingistíðinda. (4490)

59. mál, fiskiráð

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Frsm. minni hl., hv. 6. þm. Reykv., hefir nú þegar tekið flest fram fyrir hönd minni hl. sjútvn. og Sjálfstfl. í máli þessu.

Ég get vel skilið það, að einstakir hv. þm. séu að því leyti ósamþykkir einstökum till. í frv. um fiskiráð, að þeir telji ekki alveg tryggt, að þær nái tilgangi sínum, og einkum er sú afstaða skiljanleg hjá þeim hv. þm., sem litla þekkingu hafa á málum þessum, en hún er af skornum skammti hjá mörgum, sem vonlegt er. Ef menn legðust á móti frv. af þessum ástæðum, en viðurkenndu þó þörf á einhverri slíkri lagasetningu — eins og andstæðingarnir hafa nú reyndar gert með því að játa, að frv. fjalli um merkasta mál þingsins —, þá gæti ég skilið það og fyrirgefið að nokkru leyti. En hitt, að meiri hl. sjútvn., sem að vísu hefir ekki getað kafað til grunns í þessu máli, sem þeir, er að því standa, hafa kynnt sér til hlítar, skuli leggjast gegn málinu með annari eins ókurteisi og óvitahætti og nál. meiri hl. ber með sér, það verð ég að kalla fullkominn strákskap. Í rauninni finna þeir þó ekki annað að hugmyndinni um fiskiráð en að það vanti vald samkv. frv. Hv. frsm. minni hl. hefir nú svarað þessu næstum því tæmandi. Ef fiskiráðið er skipað eftir till. mínum, þá er þar með tryggð sú forusta í þessum varnar- og viðreisnarmálum þjóðarinnar, sem hefir þá fyllstu þekkingu á þessum efnum, sem hér er fáanleg og með vali mannanna er tryggt, að fiskiráðið hafi þá ákjósanlegustu aðstöðu, sem hugsanleg er, til þess að koma till. sínum í framkvæmd.

Til dæmis um þá ótakmörkuðu illkvittni í nál. meiri hl., sem ef til vill ber hina takmörkuðu vitsmuni alveg ofurliði, skal ég geta þess, að því er haldið fram í nál. meiri hl., að eftir 3. gr. frv. eigi fiskiráðið að láta 6 mánuði líða milli þess sem það sendi skýrslur sínar til stjórnarráðsins. Þetta þykjast þeir draga af því, að í gr. stendur: „Ráðið skal einnig senda ráðherra skýrslu um starfsemi sína eigi sjaldnar en á 6 mánaða fresti“.

En þeir sleppa alveg fyrri hluta gr., þar sem svo segir: „Fiskiráðið skal senda atvinnumálaráðherra skýrslu um niðurstöðu rannsókna sinna og tillögur þær, sem það gerir. Skýrslur þessar og tillögur skulu einnig sendar þeim aðilum sjávarútvegsins, sem þær snerta, og skal fiskiráðið gera það, sem í þess valdi stendur, til þess að fá aðila til að framkvæma tillögurnar“. Með þessari fölsun ætla þeir svo að telja mönnum trú um, að það sé tilætlunin, að ráðið liggi í 6 mánuði á upplýsingum þeim, sem það hefir aflað sér. En samkv. gr. á fiskiráðið, um leið og það brýtur viðfangsefni sín til mergjar, að senda niðurstöður sínar til þeirra aðilja, sem bezt á við, jafnóðum, og stjórnarráðsins vitanlega líka, en heildarskýrslu á 6 mánaða fresti.

Til dæmis um annan útúrsnúning skal ég geta þess, að hv. þm. Ísaf. sagði, að vantrú mín á frv. sæist bezt á bls. 4, þar sem svo segir: „Til sönnunar því, að slík nefndarskipun þurfi ekki að reynast óhagnýt, skal hér stuttlega bent á nokkrar leiðir til að létta af eða draga úr yfirvofandi böli. Gætu þær bendingar og orðið væntanlegri nefnd að liði“. Þessi ummæli vill hv. þm. Ísaf. leggja út á þá leið, að þau beri vitni um það, að ég hafi litla trú á frv., enda þótt öll grg. frv. sé órækur vottur þess, að ég er þess fullviss, að leið sú, sem bent er á í frv., er leið frá opnum dauða yfir í lífvænleg framfærsluskilyrði. Auðvitað hefði ég með góðri samvizku getað kveðið miklu sterkar að orði, en ég notaði hér aðeins venjulegt íslenzkt mál og hógvært og varfærið orðalag. Svona hártoganir sýna bezt, hve þessir menn eru rökþrota.

Svo að ég víki nú aftur að frv. sjálfu, vil ég benda á það einu sinni enn, út af því, sem sagt hefir verið um valdaleysi fiskiráð, að í frv. er einmitt gert ráð fyrir því, að framkvæma megi tillögur þess með lagaboði, ef þörf þyki. Ég held, að engin ástæða sé til þess að ætla, að núv. stjórn a. m. k. kinokaði sér við að setja bráðabirgðalög eftir tillögum jafnbærs aðila og fiskiráðs, eins og það verður, ef það er skipað eftir mínum tillögum.

Ég hefi þegar leitt rök að því, auk þeirra raka, sem færð eru fyrir því í grg. frv., og þeirra, er hv. frsm. minni hl. hefir flutt, að fiskiráðinu er með frv. tryggt allt það vald, sem þarf til að koma fram umbótum. Og það má benda á nóg dæmi af nefndum, sem ekki hafa haft valdsvið sitt tryggt af löggjöf, en þó komið að fullu liði. Ég vil t. d. benda á utanríkismálanefnd, sem ekkert vald hefir að lögum, en ræður þó raunverulega öllu um utanríkismál landsins. Það má líka nefna aðra n., sem er lífinu nær, og það er fisksölunefndin. Hún studdist ekki við annað en það, að valdalausir menn tóku sig saman og stofnuðu hana, en þörfin, sem var fyrir hendi, þekking nefndarmanna, álit þeirra og traust nægði til þess, að nefndin kæmi að fullum notum.

Ræða hv. þm. Ísaf. var samskonar tilraun til að níða þetta frv. niður og grein, sem fyrir nokkru birtist í dagblaði framsóknarmanna hér í bænum. Þar var því haldið fram, að í frv. og grg. þess fælist engin nýtileg hugmynd. Síðar kemur höfundur með sínar till. í fimm liðum, og hver einasta þeirra var tekin upp úr frv. Slík framkoma í stærsta máli þjóðarinnar er alveg ósæmileg og þeim til minnkunar, sem hana hafa í frammi.

Án þess að ætla að fara að ræða hið væntanleg. frv. meiri hl. sjútvn., vil ég aðeins láta þá skoðun mína á því í ljós, að það sé ekkert nema haus og hali og allt gagnslaust hjal og hégómi, sem þar er á milli. Hausinn er hugmynd mín um fiskiráð, að vísu með ranglátum og óhyggilegum breytingum um val manna í ráðið. En halinn á frv. er einkasala á saltfiski.

Þrátt fyrir það, þótt andstæðingar málsins hafi látið illkvittni sína verða ábyrgðartilfinningu sinni ríkari, þá hafa þeir þó í raun og veru sýnt, að þeir eru mér sammála í þessu máli. Þeir hafa hvorki í blöðum sínum né á þingi getað bent á aðrar leiðir en ég hefi gert í frv. Það rýrir á engan hátt mína till., þótt þeir hnýti aftur við hana annari óskyldri till., sem ég er mótfallinn, till. um einkasölu á saltfiski. Þó skal ég viðurkenna, að vel getur verið, að við verðum að halda lengra inn á einkasölubrautina í bili en ég annars tel heppilegt.

Ég skal engu spá um það, hverjar afleiðingar það hefir, ef mitt frv. verður drepið, en hitt samþ., en læt mér nægja að gera ráð fyrir, að við verðum allir það gamlir, að við sjáum, að það hefir verið óhappadagur, er frv. meiri hl. sjútvn. kom fram.