20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í C-deild Alþingistíðinda. (4500)

59. mál, fiskiráð

Bergur Jónsson:

Eins og sést á nál. meiri hl. hefi ég skrifað undir með fyrirvara. Vil ég nú gera grein fyrir þeirri aðstöðu minni.

Þegar greidd voru atkv. um þetta frv. í sjútvn., þá greiddu sjálfstæðismenn atkv. með frv., en Alþýðuflokksmenn á móti. Ég tók ekki þátt í atkvgr., en bókaði í fundarbók, að ég teldi rétt að fella frv., en þó því aðeins að séð yrði fyrir því, að náð yrði tilgangi frv. á þann hátt, sem ég teldi rétt. Svo þegar til kom, skrifaði ég undir nál. svokallaðs meiri hl. n., sem er að sumu leyti aðeins 2. minni hl. Fyrirvari minn er í því fólginn, að ég gat ekki fallizt á þær ástæður, sem Alþýðuflokksmenn í n. færðu fram, heldur mótaðist aðstaða mín eingöngu af því, að mér var fullkunnugt um, að hjá stj. var í undirbúningi frv. til l. um þetta atriði ásamt öðrum skyldum málum, sem sé skipulagningu fisksölunnar, því að ég taldi rétt að þetta hvorttveggja kæmi fram í einu máli. Það komu fram fullar sannanir fyrir því við fyrri umr. þessa máls, að hv. flm. frv. um fiskiráð er ekki á sama máli um þetta. Hann telur ekki þurfa löggjöf um skipulagningu fisksölunnar. En ég álít, að þetta sé svo stórvægilegt mál, að ekki verði hjá því komizt að setja reglur um það. Og þá finnst mér í raun og veru, að bezt verði séð fyrir þeim tilgangi, sem í fiskiráðsfrv. felst og ég álít, að sé réttlátur, á þann hátt, að fella það inn í frv. um skipulagningu fisksölunnar.

Þetta frv. var þá ekki fram komið, en hefir nú komið hér fram. Í 2. gr. þess frv. er gert ráð fyrir, að tekið verði upp það sama og fiskiráðsfrv. miðar að. Þessi 2. gr. í frv. um fiskimálanefnd hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fiskimálanefnd hefir með höndum úthlutun verkunarleyfa og útflutningsleyfa á fiski og löggildir saltfiskútflytjendur. Hún skal gera ráðstafanir til þess, að gerðar séu tilraunir með nýjar veiðiaðferðir og útflutning á fiski með öðrum verkunaraðferðum en nú eru mest tíðkaðar. Hún skal hafa forgöngu um markaðsleit og tilraunir til að selja fisk á nýja markaði og annað það, er lýtur að viðgangi sjávarútvegsins. Getur ríkisstjórnin veitt nefndinni fé úr markaðs- og verðjöfnunarsjóði í þessu skyni með samþykki sjóðstjórnarinnar “.

Þarna er stefnt að sama marki og í fiskiráðsfrv. Hinsvegar er n. fengið vald með þessari gr., og hlýtur hún þá að njóta sín betur en fiskiráðið gæti gert eins og frá því er gengið í þessu frv. vitanlega væri hægt að breyta, fiskiráðsfrv. í þessa átt, en mér finnst þetta eðlileg aðferð, þar sem ég álít nauðsynlegt að koma á þessu skipulagi um fisksöluna.

Ég vil jafnframt geta þess, þó að það sé aukaatriði, að ástæðan til, að ég skrifaði undir nál. með fyrirvara, var sú, að mér þótti það klúðurslegt, að n. skyldi koma fram í 3 minni hl.

Ég þykist þá hafa gert grein fyrir því, hver meining mín var með því að skrifa undir nál. Ég get alls ekki tekið undir þau orð hv. flm. fiskiráðsfrv., að nál. sé svo ósvífnislega orðað. Það er vanalegt bæði í þingræðum og nál. að taka svo til orða, að till. andstæðinga séu vanhugsaðar. Það er því engin ástæða til að taka það alvarlegu, þó að þm. taki svo til orða um andstæðing sinn. Annars læt ég hv. flm. alveg um það, hvað honum finnst um þetta.

Að lokum vil ég í samræmi við mína aðstöðu til þessa máls leyfa mér að bera fram brtt. við rökst. dagskrána á þskj. 313, og afhendi hæstv. forseta hana hér með.