20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (4506)

59. mál, fiskiráð

Frsm. meiri hl. (Finnur Jónsson):

Það er annað hljóð í hv. þm. G.-K. nú en við 1. umr. þessa máls og við fyrri hluta 2. umr., eftir að hann hefir nú lesið frv. stj. um fiskimálanefnd o. fl. Það er sjálfsagt að fagna því, að hann sat nú betur á strák sínum en venjulega í umr. um mál og fór nú að tala um þetta frv. af nokkru meiri sanngirni en maður hefði getað búizt við, að hann gæti sýnt andstæðingi sínum.

Hv. þm. hefir kvartað undan því, að nál. hafi verið þungort í hans garð. Það er vanalega svo, að þeir, sem eru þungorðir í garð annara, þola minnst, að við þeim sé blakað. Annars má segja það, að þeir menn, sem sérstaklega gera kröfu til þess að hafa vit á málum, þeir hljóta að mega búast við, að gerðar séu sérstakar kröfur til þess, að þegar þeir geru till., þá sé hægt eitthvað á þeim að byggja.

Ég hefi við fyrri umr. þessa máls sýnt fram á, hve gersamlega þetta frv. er gersneytt því að geta bætt úr því mikla öngþveiti, sem skipulagsleysið ásamt heimskreppunni hefir leitt yfir sjávarútveginn.

Út af dagskrá hv. þm. Barð. get ég sagt það, að það eru orðnar breyttar ástæður frá því, þegar ég byði fram mína dagskrá ásamt hv. 3. landsk. Ástæðurnar eru orðnar breyttar á þann hátt, að nú er komið fram það frv., sem þar er talað um, að muni koma fram. Ég get þess vegna fallizt á að taka mína dagskrá aftur, en vitanlega greiði ég þá dagskrá hv. þm. Barð. atkv. með alveg sömu forsendum og ég hefði greitt minni dagskrá atkv., og þær einu ástæður, sem liggja til þess, að ég vil taka mína dagskrá aftur, eru þær, að frv. það, sem þar er um getið, er nú komið fram.