20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í C-deild Alþingistíðinda. (4508)

59. mál, fiskiráð

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. þm. Ísaf. var eitthvað að miklast yfir því, að ég tók hann ekki og hirti hann í síðustu ræðu minni, eins og ég hefi stundum orðið að gera áður. En það var af því, að ég flutti áður ýtarlega ádeiluræðu á hann, og hann sá sér ekki fært að svara því einu einasta orði. Maður er ekki að marghýða sama óknyttastrákinn fyrir sömu óknyttina. En þó að ég hafi hlíft honum í þetta sinn, þá þarf hann ekki að halda, að hann sé kominn í neitt eilífðarskjól fyrir hirtingum mínum.

Það er leiðinlegt að þurfa að velja sér sömu viðfangsefni og þessi auðvirðilegi þm. — hvað hann nú heitir, — hv. þm. N.-Þ., sem er kunnastur fyrir sölu á hrossakjötstunnu. (Forseti hringir). Mér þykir skemmtilegra að tala við menn eins og hv. þm. Barð. Ég kann vel að haga orðum mínum eftir því, við hvern ég á. Ég mun aldrei láta neina kveinstafi neins hv. þm. forða þeim frá hirtingu frá minni hendi, eftir því sem þeir verðskulda, en mér leiðist að fást við þá meira en ég þarf, og vel mér heldur að tala um málefnin við þá, sem vilja um þau tala. Þess vegna get ég alltaf leyft mér það, sem bezt á við mig, að tala á þinglegan hátt, þegar ég tala við þm., sem það gera. En það er aldrei hægt að ráða við suma þm., sem aldrei vilja um málefnið tala, og þá er ekki um annað að gera en að tugta þá dálítið, eins og ég neyðist stundum til að gera.

Hv. þm. Ísaf. má ekki nota orðið „þungorður“ um neitt, sem hann segir. Þessi hv. þm. getur ekki verið þungorður. Það getur verið væl, sem er leiðinlegt, en til þess að vera þungorður þarf meira en hv. þm. getur gert. En það getur þrátt fyrir það verið óþinglegt og ósæmilegt, og til þess er hann hæfur, en þungorður getur hann aldrei verið.

Ég vil lýsa ánægju minni yfir því, að hann hefir hlaupið frá sinni rökstuddu dagskrá og yfir til dagskrár hv. þm. Barð. Nú á hann ekki annað eftir en að sverja fyrir nál., og þá er hann kominn vel á veg sem iðrandi syndari, og það vona ég, að hann geri í næstu ræðu sinni.