20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 299 í C-deild Alþingistíðinda. (4512)

59. mál, fiskiráð

Bergur Jónsson:

Ég þarf ekki að svara ræðu hv. þm. G.-K. Hann sagði, að ég liti á málið frá öðru sjónarmiði en hann, og er þetta alveg rétt. Og ég býst við, að við getum ekki á stuttum þingfundi breytt skoðunum hvors annars. Auðna verður að ráða, hvor skoðunin verður ofan á. — En ég verð að gera aths. við ræðu hv. 6. þm. Reykv. Mér fannst hann tala fullmikið um frv. um fiskimálanefnd að því leyti, sem það á að koma í staðinn fyrir frv. um fiskiráð. Hv. þm. fullyrti, að með því frv. væri lent í einkasölu. Þetta er nú náttúrlega ekki rétt hjá honum, en það má geyma að tala um það frv., þar sem það er næsta mál á dagskránni. Mér skildist á hv. 6. þm. Reykv., að hann og hv. þm. Vestm. hefðu í sjútvn. alltaf verið að reka á eftir hinum nm. með frv. og heimta, að þeir kæmu fram með brtt. Ég man ekki eftir því, að þessir tveir hv. þm. hafi nokkuð rekið á eftir málinu, hvað svo sem þeir kunna að hafa sagt flm. frv., hv. þm. G.-K. (SK: Ég sagði ekkert um það). Jú, hv. þm. getur ekki neitað því, af því að ég skrifaði það upp eftir honum. Hann sagði, að minni hl. hefði ýtt á eftir meiri hl. að koma fram með brtt. Ég varð ekki var við neinn áhuga í þessa átt, fyrr en form. n. sagði á einum fundi: Nú greiðum við atkv. um frv., — og tók ég þá afstöðu til málsins eftir því, sem ég hefi lýst áður. Ef hv. þm. hefir sagt flm. annað, þá er það ekki rétt.

En það, sem gaf mér sérstaklega tilefni til þess að standa upp, voru ummæli hv. 6. þm. Reykv. um það, að menn ættu ekki að setja ósannindi í nál. Það er auðvitað alveg rétt, að menn eiga ekki að gera það. En ég verð að segja, að ég varð hissa, þegar ég heyrði þessi orð koma frá þessum manni. Mér datt í hug ítalska máltækið: „Enginn hundur er svo illur, að hann dingli ekki rófunni“. Enginn ósannindamaður er svo langt leiddur, að hann reyni ekki að láta líta svo út, sem hann fari með sannindi. En ég verð að segja hv. 6. þm. Reykv. það, að honum fer illa í augum þeirra manna, sem þekkja hann, að vera að prédika sannleikann. Það vita allir, að hann hefir ekki hreinan borða sjálfur, því fáir munu vera óhreinni en hann á því sviði.