20.11.1934
Neðri deild: 41. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í C-deild Alþingistíðinda. (4525)

59. mál, fiskiráð

Bergur Jónsson:

Það var auðheyrt á hv. 6. þm. Reykv., að sannaðist á honum máltækið: Sök bítur sekan. Þessi maður er alþekktur um allt land að óvandaðri meðferð með sannleikann en flestir aðrir leyfa sér. Ég vil ráða öllum, sem vilja fá sannanir fyrir þessu, til að lesa blaðið Heimdall. (SK: Ég ræð mönnum líka til þess). Ég þekki þennan hv. þm. líka af framboðsfundum í Barðastrandarsýslu, og mér þykir ógeðfellt, að þessi maður sé að halda siðferðisprédikanir. Ég get ekki að því gert, að mér sárnar þegar svona menn eru að setja sig í dómarasæti, látast elska sannleikann, en eru öðrum mönnum breyskari. Ég get nefnt sem dæmi um ósannindahneigð hans, að hann fór með ósannindi í sambandi við Skuldaskilasjóðinn. Það er margsannað, og ég hefi fært rök að því áður, að hann fór með ósatt mál í Morgunblaðinu í þessu efni. (SK: Þetta er ósatt).