17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 401 í C-deild Alþingistíðinda. (4562)

134. mál, bygging og ábúð á jörðum, sem eru almannaeign

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, þá er ennþá svo ástatt í landinu, að hið opinbera, ríkissjóður og kirkjujarðasjóður, á jarðir, sem eru samtals 754. Þá eru einnig á annað hundrað jarðir, sem eru eign sérstakra sjóða og því að hálfu leyti opinber eign.

Það eru uppi í landinu skiptar skoðanir um það, hvort rétt sé, að ríkið eigi þessar jarðir áfram eða hvort eigi að afhenda þær í hendur einstakra manna. En þó að skiptar skoðanir séu um þetta, þá ættu menn að geta verið sammála um það, að koma ábúð þessara jarða í það horf, að hún yrði sem bezt fyrir þá, sem á jörðunum sitja, og tryggi jafnframt, að þær verði sem bezt setnar. Þess vegna held ég, að þótt menn greini á um það, hvort jarðirnar skuli vera áfram í eign þess opinbera, eða að þær eigi að verða eign einstaklinga, þá geti allir orðið sammála um, að það eigi að koma ábúð þessara jarða öðruvísi fyrir en ábúð á jörðum einstaklinga, sem þurfa að hafa sínar jarðir lausari í ábúð, ef þeir þyrftu sjálfir á þeim að halda.

Þar við bætist svo það, að eins og til hagar nú í landinu, þá er landinu skipt upp með ákveðnum landamerkjum milli jarða. Við vitum það allir, að þjóðinni fjölgar, og þessi fjölgun, sem kemur árlega, þarf að fá einhverja atvinnumöguleika bæði til sjávar og sveita, og eini möguleikinn í sveitunum er að mynda þar ný sjálfstæð heimili, svo að þeir, sem við bætast, geti orðið sjálfstæðir atvinnurekendur. Það er að vísu hægt að hugsa sér aðra leið, sem sé að þeir, sem við bætast, verði verkamenn hjá öðrum atvinnurekendum, en ég geri ekki ráð fyrir, að menn vilji fremur aðhyllast þá leið, enda fer hún í bága við þann aukna andlega þroska, sem allir stefna að. En þegar um er að ræða möguleika til sjálfstæðra býla, sem geti fjölgað, þá er miklu hægara fyrir það opinbera að gera ráðstafanir til að fjölga býlunum, ef það hefir ráð á einhverjum jörðum, heldur en að fara að grípa inn í rekstur þeirra jarða, sem eru prívateign, og fara að skipta þeim í sundur, enda þótt vel geti komið til þess, að taka þurfi jarðir eignarnámi í því skyni. Þess vegna held ég, að líka frá þessu sjónarmiði sé sjálfsagt að haga því þannig, að þær jarðir, sem eru opinber eign, hlíti ekki sömu lögum og jarðir einstaklinga, þegar um byggingu er að ræða.

Út frá þessum sjónarmiðum báðum er ekki farið inn á þann stefnumun, hvort jarðir skuli vera opinber eign eða ekki. Vona ég því, að menn geti orðið sammála um, að rétt sé að koma ábúð opinberra jarða öðruvísi fyrir en á jörðum einstaklinga.

Ég vona því, að hv. þdm. geti verið með því að láta málið ganga til n., og vona, að n. finni þá lausn, sem vel megi við una og geti orðið til þess, að ábúendum þessara jarða liði betur og jarðirnar verði betur setnar og möguleikar til fjölgunar býla verði meiri en eins og nú standa sakir.

Ég legg svo til, að málinu verði vísað til landbn. að þessari umr. lokinni.