16.10.1934
Neðri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í C-deild Alþingistíðinda. (4564)

63. mál, fátækralög

Flm. (Jón Sigurðsson):

Eins og hv. d. er kunnugt, var gerð sú breyt. á fátækralögunum 1932, að felld voru niður ákvæði, er staðið höfðu fleiri áratugi, um það, að ríkissjóður skyldi taka nokkurn þátt í kostnaði við dvöl þurfalinga á sjúkrahúsi árlangt eða árum saman. Í stað þess var tekið upp það ákvæði, að greiða skyldi úr ríkissjóði til sveitar- og bæjarfélaga nokkurn styrk, ef kostnaður við fátækraframfærslu færi meira en 15% fram úr meðaltali. Þetta hefir sumstaðar komið í sama stað niður, þannig að sömu sveitarfélög og áður hafa hlotið stuðning, en eins og hv. þdm. er ljóst, fara sveitarþyngslin ekki einhliða eftir fátækraframfærinu. Það eru nú orðin svo margvísleg þungbær útgjöld, sem hvíla á sveitarsjóðunum, að þeir geta átt við afarmikla fjárhagsörðugleika að stríða, þó fátækraframfærið fari ekki langt fram yfir meðallag. Auk þess hækka ýmsir kaupstaðir og kauptún, sem hafa mikla fátækraframfærslu, landsmeðaltalið svo gífurlega, að lítil og fátæk sveitarfélög geta örmagnazt fjárhagslega áður en þau ná meðaltalinu og fá nokkurn styrk, af því þau hafa svo litla greiðslugetu. Reyndin hefir líka orðið sú, að á sum fátæk sveitarfélög, sem ekki hafa alveg náð hinu tiltekna marki framfærslukostnaðar, en allt að því, hefir nú bætzt svo þungur baggi af sjúkrakostnaði þurfalinga, að óbærilegt þykir. Ég hygg, að það séu umkvartanir um þetta alstaðar á landinu, og sérstaklega eru það lítil og fátæk sveitarfélög, sem í þessu efni verða hart úti. Ég hefi þó ekki lagt til, að sömu ákvæði yrðu tekin upp, sem áður giltu. Taldi ég það ekki rétt, bæði vegna örðugs fjárhags ríkissjóðs og þeirra ákvæða, sem koma áttu í staðinn og sérstaklega mörgum hinna, stærri sveitarfélaga er mikill léttir að. Því hefi ég lagt til, að farin yrði millileið í þessu efni og að ríkissjóður taki þátt í sjúkrakostnaði tveggja sjúklinga á sjúkrahúsi í stað allt að fjögurra, eins og áður var.

Ég vona, að hv. d. líti með sanngirni á þetta nauðsynjamál margra lítilla og fátækra sveitarfélaga og bregðist vel við. Dvalarkostnaður sjúklinga á sjúkrahúsum mun víða vera l600 til 2000 kr. á ári. Nú eru til sveitarfélög, sem hafa innan við 20 búendur. Komi til þess, að þau þurfi að sjá um einn slíkan sjúkling álangt, þýðir það 100 kr. hækkun sveitargjalda á hverjum bónda, ef ekki er gert ráð fyrir, að jafnað sé niður á aðra. Sjá þá allir, hverjar afleiðingar það hefði, ef um fleiri sjúkling. væri að ræða, sem alltaf getur viljað til.

Ég ætla svo ekki að hafa þessi orð fleiri. Ég vona, að hv. d. taki þessu máli vel, því það er sanngirnismál. Legg ég til, að því í verði vísað til allshn.