17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 403 í C-deild Alþingistíðinda. (4568)

134. mál, bygging og ábúð á jörðum, sem eru almannaeign

Sigurður Kristjánsson:

Það er alveg rétt, sem hv. 7. landsk. sagði um þetta mál. Það má rekja slóð sjálfseignarbúskaparins á Íslandi, og þá kemur það í ljós, að það hefir yfirleitt verið þrifnaðar- og myndarbúskapur. Ég vil ekki taka undir neina aðra stefnu í þessu máli en að allir bændur eigi þær jarðir, sem þeir sitja á. Að því ber löggjafarvaldinu að styðja áfram. Afgjöldin af jarðeignum ríkisins eru sýnilega ekki meiri en svo, að bitlingafíkinn maður gerði sig varla ánægðan með minna en öll afgjöldin í árlegar tekjur.

Það er stórum þýðingarmeira mál, að allir bændur eignist bújarðir sínar, heldur en að Alþingi sé að bollaleggja um bætt ábúðarkjör fyrir leiguliða.

Ég þykist sjá, að þetta frv. sé náskylt öðru frv., sem komið er fram hér í þessari hv. þd., um að hefta sölu á þjóðjörðum og kirkjujörðum. Bæði frv. eru greinar af sama stofni — kommúnistahugsunarhættinum, sem er nú farinn að grípa um sig á sviði landbúnaðarins eins og víðar hér á landi.