18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 309 í C-deild Alþingistíðinda. (4579)

70. mál, strandferðir

Bjarni Ásgeirsson:

Ég vil aðeins taka það fram, þó að aðrir hafi nú þegar gert það, að ég upplýsti í fyrra, í umr. um samskonar mál og þetta, að í gildi væru verzlunarsamningar milli Íslands annarsvegar og Noregs, Danmerkur, Svíþjóðar og Englands og jafnvel Þýzkalands hinsvegar, um gagnkvæman rétt til strandsiglinga. Ég benti á þetta við 1. umr. málsins, af því að ég óskaði, að sú n., sem ég bjóst við að fengi málið til athugunar, athugaði þessa hlið málsins nákvæmlega, til þess að vissa yrði fengin fyrir því, að ekkert yrði gert í þessu máli, sem bryti í bága við gildandi samninga, sem Íslendingar hefðu gert við aðrar þjóðir, en því megum við sízt við á þeim tímum, sem nú eru.

Ég vil benda á þetta sama atriði nú, en tel sjálfsagt, að málið fái að ganga til n. og fái þar þá rannsókn og athugun, sem nauðsynleg er til þess að málið verði afgr. vansalaust frá þinginu. Fyrir mitt leyti álít ég, að þessi stefna sé rétt, ef mögulegt er að framkvæma hana á þann hátt, að hún brjóti ekki í bága við gildandi samninga, en tel, enn sem komið er, að það sé mjög vafasamt, að hún geri það ekki.