17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 404 í C-deild Alþingistíðinda. (4583)

135. mál, innlánsvextir og vaxtaskattur

Flm. (Páll Zóphóníasson):

Það hafa heyrzt ákaflega háværar raddir um það, einkum meðal bænda, að útlánsvextir af lánum til atvinnurekstrar í landinu séu allt of háir, ekki sízt á sviði landbúnaðarins. Rætt hefir verið um ýmsar leiðir til þess að fá vextina lækkaða og tilraun til vaxtalækkunar af lánum og skuldum bænda hefir verið framkvæmd í gegnum Kreppulánasjóð.

Samskonar raddir hafa og heyrzt frá sjávarútvegsmönnum, að útlánsvextir til þess atvinnurekstrar séu allt of háir. Og samkv. skýrslum og áliti mþn. í sjávarútvegsmálum þurfa vextir af lánum til útvegsins að lækka ákaflega mikið frá því, sem nú er. Yfirleitt er það svo, við hvern, sem maður talar um þessi efni, þá eru allir sammála um, að vextir séu allt of háir og þurfi að lækka. Og samkv. skýrslum, sem fyrir liggja um rekstur atvinnuveganna, er ekki sjáanlegt, að þeir geti borið uppi þá veltu, sem nú er í landinu, eða svarað til vaxta af höfuðstólnum, enda eru þeir að sligast undir byrðinni.

Það hefir lítið verið rannsakað hér á landi, hvaða vextir fást af þeim höfuðstól, sem lagður er í atvinnuvegina. Þó var þetta í fyrsta sinn athugað í fyrra lítilsháttar. Guðmundur Jónsson kennari á Hvanneyri safnaði saman og vann úr 8 búreikningum — rekstrarreikningum búanna fyrir 1 ár (maí 1932 til maí 1933). Af þeim voru 6 úr Borgarfirði, 1 úr Eyjafirði og 1 úr Árnessýslu. Niðurstaðan af þessum athugunum er sú, að höfuðstóll búanna er ávaxtaður með 3%. Í nágrannalöndum okkar, t. d. á Norðurlöndum, sýna opinberar skýrslur, að landbúnaðurinn þar ávaxtar höfuðstólinn með tæpum og liðugum 2%, eða hæst 2.8%, og er það því hvergi eins hátt og í þessum dæmum, sem hér voru athuguð. En ég geri ráð fyrir, að ástæðan til þess, að prósentutalan reyndist hærri hér á landi, sé sú, að hér eru aðeins rannsakaðir búreikningar frá fáum bæjum, og ennfremur, að þessi bú eru í þeim héruðum, þar sem búnaðarafkoman er betri en almennt gerist hér á landi. Ég hygg, að þessi prósenta sé til muna hærri en vera mundi, ef hagur fleiri bænda úr fleiri sýslum væri athugaður. Það mun því mega segja, að landbúnaðurinn ávaxti höfuðstólinn, sem í honum stendur, hér á landi líkt og annarsstaðar — kringum 2%.

Eftir upplýsingum þeim, sem fyrir liggja um afkomu sjávarútvegsins, er sízt ástæða til að ætla, að hann sé færari um að ávaxta höfuðstólinn en landbúnaðurinn. Talið er, að rekstrarhalli á útveginum hafi verið svo mikill árið 1933, að þó hann hefði fengið vaxtalaust rekstrarfé, þá gaf höfuðstóllinn, sem eigandinn átti, engar rentur það ár, en töluverða vexti árið þar áður.

Þetta sýnir það og sannar, að hvorugur þessara atvinnuvega þjóðarinnar er þess megnugur að bera svo háa vexti af rekstrarlánum sem þeim er ætlað. Á sama tíma borga bankarnir 4—4½% af innláns- og sparifé landsmanna, en útlánsvextir eru upp í 7½% í Útvegsbankanum, og jafnvel hærri, og algengustu útlánsvextir 6— 7%. Það hlýtur nú hver heilvita maður að sjá, hvaða réttlæti er í því, að láta þá menn, sem eiga fé sitt á þurru landi, á innlánum í bönkum, fá miklu hærri vexti af fé sínu þar en aðalatvinnuvegir þjóðarinnar geta risið undir.

Vaxtabyrðarnar, sem lagðar eru á atvinnuvegina, sökkva þeim dýpra og dýpra með hverju ári, sem líður, svo að atvinnurekendurnir ramba á gjaldþrotabarminum, en þegar svo er komið, þá á að láta ríkissjóð hjálpa til að draga þá aftur upp úr feninu á þurrt land.

Þetta frv. gerir ráð fyrir því, að ríkisstj. sé heimilað að ákveða innlánsvexti, og það er búizt við, að ríkisstj. sjái sér fært að ákveða þá ekki hærri en það, að þeir séu í samræmi við það, sem atvinnuvegirnir raunverulega geta ávaxtað féð fyrir, a. m. k. ekki hærri. Ef slík ráðstöfun sem þessi er gerð, er hætta á því, að féð streymi út úr sparisjóðunum og bönkunum og sérstakir menn færu að gera það að atvinnu sinni að lána fé bak við tjöldin, gegn skuldabréfum og tryggingum. Til að fyrirbyggja þetta hefi ég lagt til, að tekinn verði upp vaxtaskattur, skattur á verðbréf, skuldabréf og önnur þau bréf, er árlega gefa af sér vexti, hærri en l½% umfram venjulega banka- og sparisjóðsvexti. Þetta hindrar algerlega, að féð verði tekið út úr bönkunum og sparisjóðum, þótt vextirnir yrðu færðir nokkuð til lækkunar. Þetta hefir ekki eins mikil áhrif á útlánsvextina, það skal ég játa, því að þessar stofnanir búa að allmiklu leyti við erlend lán, en lækkun á vöxtum af innstæðufé ætti að hafa nokkur áhrif, þar sem 1/3 hluti af öllu lánsfé, sem er í umferð meðal þjóðarinnar, er sparifé. Ég skal ekkert um það fullyrða, hversu auðveldlega þessi l. yrðu framkvæmanleg. Ég hefi heyrt peningamenn halda því fram, að ekki nái nokkurri átt að lækka vextina, og margir þeirra hafa talið á því mikla hættu, ef það yrði gert, að spariféð myndi streyma úr bönkunum, þar sem peningahungrið er svo gífurlegt í okkar landi, og yrði í stað þess lánað manna á milli. Ég er ekki svo hræddur við þetta, þegar það er fyrirbyggt, að mismunurinn á innlánsvöxtum og vöxtum af lánum manna á milli yrði meiri en l½%, en það hefir verið talið hæfilegt, og hygg ég svo vera.

Ég vona, að hv. þd. geri sér það ljóst, að það, sem fyrir mér vakir, er, aðallega það, að fá lagað það ósamræmi, sem nú er milli innlánsvaxta og þess, sem atvinnulífið raunverulega er fært um að ávaxta féð fyrir, og á þann hátt stuðla að heilbrigðari atvinnurekstri en nú er.

Ég vona, að frv. verði vísað til 2. umr. og fjhn.