18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 310 í C-deild Alþingistíðinda. (4584)

70. mál, strandferðir

Bergur Jónsson:

Ég vil benda á, að þeir tveir hv. þm., sem hafa lýst því yfir, að þetta frv. bryti í bága við milliríkjasamninga, hafa hvorugur fullyrt neitt um það, en talið það vafasamt. Þeir hafa engar sannanir fært fram, en aðeins látið í ljós, að ef til vill mætti finna þær.

Frv. með sömu meginreglu og þetta var flutt á síðasta þingi, og þá sýndi Sjálfstfl. málinu þá kurteisi að drepa það við 1. umr. Það varð til þess, að þetta atriði var ekki athugað í n. Nú vil ég mælast til þess, að d. sýni málinu þá kurteisi að vísu því til n., svo að þar verði hægt að rannsaka til fullnustu, hvort þýðir fyrir okkur Íslendinga að taka strandferðirnar hér við land í okkar eigin hendur, og um leið láta ekki erlendar þjóðir taka hundruð þús. úr höndum okkar, jafnframt því, sem ríkissjóður leggur stórfé til styrktar strandferðum. Þetta er mjög þýðingarmikið mál, en ég skal ekki segja um, hvort nú eru ástæður fyrir hendi til þess að framkvæma það, hvort skipastóli okkar er nógu stór til þess að hægt verði að haga svo ferðum, að full not komi af.

Það er áreiðanlegt, að hvað sem gert verður í þessu máli nú á þessu þingi, hlýtur endirinn að verða sá, að Íslendingar, svo framarlega sem þeir ætla sér að vera sjálfstæð þjóð einnig á þessu sviði, eiga að taka þetta mál algerlega í sínar hendur.