18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í C-deild Alþingistíðinda. (4588)

70. mál, strandferðir

Flm. (Gísli Guðmundsson) [óyfirl.]:

Það má heyra á ræðum þeirra hv. þm., er hér hafa talað, og eigi sízt hv. þm. Borgf., að Sjálfstfl. þykir eigi vanþörf á að gera grein fyrir þeirri óvenjulegu framkomu sinni í fyrra að neita þessu máli um athugun í nefnd. Það var rétt, sem hv. þm. Barð. tók fram, að slíkt háttalag er ekki venjulegt hér, þegar um stórmál er að ræða. Þá má benda á, að það virðist fullkomin óþarfi af hv. þm. Borgf. að vera að tala hér um atriði í frv., sem nú er búið að breyta. Það er undarleg skoðun hjá þessum hv. þm., að hann virðist líta svo á, að ef þm. hafa eitthvað við einstakar gr. frv. að athuga, þá sé rétt að koma í veg fyrir, að frv. gangi til n. Mundi hitt ekki vera eðlilegra, ef frv. gengur í rétta átt, að hugsanlegir gallar séu teknir til athugunar og umbóta, ef þörf þykir á? Þá er það mjög fráleitt hjá hv. þm. Borgf. að halda því fram, að frv. sé stefnt gegn Eimskipafélagi Íslands, því að frv. stefnir miklu fremur að því að styðja Eimskipafélagið.

Hv. þm. sjálfstæðismanna bera það mjög fyrir sig hér, að form. utanrmn., hv. þm. Mýr., hafi gefið þær upplýsingar í fyrra, að vafasamt væri, hvort frv. gæti staðizt vegna samninga við önnur ríki. En það var ekki hv. þm. Mýr., sem var á móti því, að frv. væri athugað í n. Þó að hann væri í vafa um, hvort það fengi staðizt, sýndi hann þá sjálfsögðu skynsemd að vilja vísa því til n., til þess að hið rétta kæmi í ljós. En það var Sjálfstfl., sem ekki vildi vísa málinu til n. Ef til vill hafa verið til þess einhverjar ástæður, sem ekki eru enn komnar í ljós. Ef slíkar ástæður eru fyrir hendi, væri æskilegt, að hv. þm. gerði grein fyrir þeim. Ég tel alveg sjálfsagt, að Alþingi athugi í fullri alvöru, hvaða möguleikar eru fyrir hendi til þess að bægja þeim voða frá íslenzkri útgerð, sem nú steðjar að, og hvaða ráð verði fundin til þess að draga úr þeim geysilegu útgjöldum, sem ríkissjóður nú hefir af samgöngum á sjó. Vildi ég mega vænta þess, að þjóðrækni þeirra mann., sem við kosningarnar í vor skreyttu bíla sína með íslenzkum fánum, hafi vaxið svo síðan á síðasta Alþingi, að þeir fallist nú á að vísa málinu til n.