18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í C-deild Alþingistíðinda. (4591)

70. mál, strandferðir

Ólafur Thors:

Hv. þm. Snæf. hefir að mestu tekið fram það, sem ég vildi segja. Ég verð að segja, að mér finnst það blátt áfram hlægilegt, þegar þessir hv. þm. koma með reigingi og bregða Sjálfstfl. um ókurteisi fyrir að vísa málinu ekki til nefndar, þegar fyrir lágu óyggjandi upplýsingar um það, að með frv. væri stefnt að því að brjóta milliríkjasamninga. Alþingi gat ekki annað gert en að vísa málinu frá.

Ég vil beina því til hv. 1. flm., sem hefir verið að vita málþóf hér í deildinni, að það situr ekki sem bezt á honum að gera sér leik að því að flytja frv., sem beinlínis eru höfð að athlægi. Hann flutti eitt slíkt frv. fyrir skömmu, sem fór til nefndar. Hefir nú n. skilað áliti sínu um þetta merkilega frv. Það er á þskj. 134 og hljóðar svo:

„Nefndin hefir athugað mál þetta og leggur til, að það verið afgr. með svohljóðandi rökstuddri dagskrá: Þar sem deildin lítur svo á, að 5. gr. laga nr. 79 frá 19. júní 1933 nái einnig til þessara frystihúsa, sem byggð verða eftirleiðis, þar til öðruvísi verður ákveðið, telur hún breytingu á þeim óþarfa og tekur því fyrir næsta mál á dagskrá“.

Frv. er sem sé vísað frá sem hverri annari vitleysu. Svo er þessi hv. þm. að reigja sig og bregða Sjálfstfl. um óþjóðrækni. Hann ber þó von í brjósti um það, að þjóðræknin hafi vaxið á Alþingi með þessu nýja liði og að frv. fái nú að fara til nefndar. Þó að ég líti nú svo á, að deildarsöfnuðurinn hafi ekki beinlínis prýkkað, óska ég að sjálfsögðu, að þjóðræknin hafi farið vaxandi. En hins vildi ég eigi síður óska, að vitleysan á Alþingi færi eigi vaxandi, svo að ekki þyrfti að eyða tímanum í svona frv.