17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (4595)

138. mál, fasteignaskattur

Flm. (Magnús Torfason):

Ég þykist sjá á hv. þdm., að þeir séu dasaðir eftir vökunóttina í gær við umr. í útvarpið. Ég mun þess vegna hafa framsöguræðu mína eins stutta og mér er unnt. Ég get að miklu leyti látið mér nægja að vísa til grg. frv. á þskj. 322 og leiðréttingar á þskj. 357. Ég þarf ekki að lýsa því, hvernig afkoma sveitarfélaga er og hefir verið undanfarin ár hér á landi. Þau eru flest í megnustu vandræðum, sem fyllsta nauðsyn er á, að verði leyst sem allra fyrst. Þá nauðsyn hefir Alþingi viðurkennt að vissu leyti. Vanskil sveitarfélaga vaxa með hverju ári, þrátt fyrir ýmsar aðgerðir löggjafarvaldsins til þess að greiða úr þeim. Get ég í því efni einkum vísað til laga um fjárþröng sveitarfélaga, sem sérstaklega áberandi vott um það, hvernig komið er. Ennfremur hafa verið sett lög um það, að ríkið styrki sveitarfélögin til ómagaframfærslu, og lög, sem heimila einstökum bæjarfélögum að leggja á gjaldendur óbeina skatta til bæjarþarfa. Og nú síðast er fram komin á þessu þingi till. um, að hluti af tekju- og eignarskattinum renni í sjóði bæjar- og sveitarfélaga. En ekkert af þessu getur hjálpað til að græða kýlið. Það er enginn vafi á því, að það verður að skera á kýlinu. Þó að lögin um fjárþröng sveitarfélaga séu góð út af fyrir sig, það sem þau ná, og full þörf hafi verið á þeim, þá er það alveg víst, að þau geta ekki komið að fullu gagni í sumum sveitarfélögum, nema þeim sé beitt oftar en um sinn. Það eru til sveitarfélög, sem eru alls ómegnug til sjálfsbjargar, þó þeim verði gefnar upp allar skuldir. Það er ómagaframfærslan, sem gerir það að verkum, að skuldirnar halda áfram að hlaðast á þau, og svo óáran sú, sem nú dynur yfir, sérstaklega verðfall framleiðsluafurða bænda.

Nú eru komnar fram í þinginu ýmsar till. til breyt. á sveitarstjórnarlögunum, og þó sérstaklega fátækralögunum, sem ætlazt er til, að létti byrðar ómagaframfærslunnar á sveitarfélögunum. En ég býst ekki við, að neitt af þeim verði samþ. á þessu þingi, og þá hnígur allt að því, að grípa verður á kýlinu á þann hátt, sem ég tel réttasta stefnu í þessum efnum, að auka blátt áfram tekjustofna sveitarfélaga. Og fyrir valinu hefir þá orðið fasteignaskatturinn. Til þess liggja sérstakar ástæður, að einmitt hann hefir orðið fyrir þessu vali. Þeir hv. þm., sem ekki eru allt of ungir hér á þingi, minnast þess, að um síðustu aldamót voru háværar og harðorðar deilur á Alþingi um afnám ábúðarskattsins. Það varð að herópi, og þessa vegna var skattinum breytt. Ábúðarskatturinn hafði hvílt á leiguliðum jafnt og sjálfseignarbændum. En svo var honum breytt í fasteignaskatt, og upphaflega tilætlunin var sú, að hann væri greiddur af eigendum jarða og býla. En þegur til framkvæmda kom um innheimtu, á fasteignaskattinum, var hann látinn falla í sama farið og ábúðarskatturinn og innheimtur hjá leiguliðum, eins og áður, af þeim ástæðum, að ekki þótti fært að innheimta hann hjá eigendum fasteigna. Niðurstaðan var því sú, að það var aðeins breytt nafni á skattinum. M. ö. o. sagt, þá urðu bændur fyrir algerðum vonbrigðum. Útkoman er því sú, að því fleiri leiguliðar sem eru í sveit og því fátækara sem sveitarfélagið er, þeim mun þyngra hvílir þessi skattur á bændunum, og því í öfugu hlutfalli við gjaldgetu þeirra.

Það virðist því eðlilegast, að einmitt þessi skattur sé notaður til þess að greiða úr þeim þörfum, sem næstar eru — en það eru einmitt þarfir sveitarfélaganna sjálfra. Þetta frv. nær ekki til kaupstaða af þeim góðu og gildu ástæðum, að fasteignaeigendur þar greiða lóða- og húsaskatt í bæjarsjóð. Og ennfremur má geta þess til samanburðar, að sveitirnar greiða verzlunarskatt til kaupstaðanna af allri þeirri verzlun, sem þær hafa þar. Þess vegna er það ekki nema eðlilegt, að það sjáist í einhverju, að sveitirnar fái ívilnun aftur á móti. Ég vil líka geta þess, að fasteignaskatturinn kemur æðimisjafnlega niður, og jafnvel ranglega sumstaðar. Það verður ekki komizt hjá að miða hann að nokkru við söluverð fasteigna. Í þeim sveitum, þar sem mikið er um jarðabrask, verða bændur fyrir talsverðu afhroði í greiðslu á fasteignaskatti; og má sjá það á töflu, sem fylgir þessu frv., um fasteignamat og skatt af fasteignum í héruðum landsins.

Í Árnessýslu er fasteignaskatturinn langhæstur af öllum sýslum á landinu, eða þriðjungi hærri en í þeirri sýslu, sem næst er í röðinni, Eyjafjarðarsýslu. Og það er einmitt kaupbraskið frá Reykjavík, sem haldið hefir svo uppi söluverði jarða í Árnessýslu og nágrenni Reykjavíkur, að í heilum sveitum er það alveg afskorið, að nokkur ábúandi geti keypt þar jörð sína. Þær jarðir, sem ganga kaupum og sölum í þessum héruðum, eru keyptar af Reykvíkingum og Hafnfirðingum.

Ég vænti, að ég hafi nú gert svo ljósa grein fyrir tilgangi þessa frv., að ég þurfi ekki að eyða fleiri orðum um það. — Óska ég, að því verði vísað til allshn. að lokinni þessari umr.