18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 313 í C-deild Alþingistíðinda. (4599)

70. mál, strandferðir

Bergur Jónsson:

Hv. þm. Snæf. ásakar okkur flm. þess. frv. fyrir að hafa ekki rannsakað, hvort milliríkjasamningar væru því til fyrirstöðu, að málið gæti náð fram að ganga. En hvað gerði Sjálfstfl. í fyrra? Hann neitaði, að nefnd fengi málið til rannsóknar. Nú gefum við flokknum tækifæri til að betra sig og vinna að því, að málið verði rannsakað til hlítar.

Hv. þm. G.-K. fullyrti, að það væri alveg óyggjandi, að milliríkjasamningar væru því til hindrunar, að málið gengi fram. En ekki verður séð af ræðu hans annað en að hann tali hér út í bláinn. Hann hefir engar slíkar sannanir í höndum, annars mundi hann ekki sitja á þeim. En færi nú svo, að n. kæmist að þeirri niðurstöðu, að milliríkjasamningar væru því til hindrunar, að við gætum tekið strandferðirnar að öllu leyti í okkar hendur, þá er sú lausn fyrir hendi að breyta milliríkjasamningunum á þann veg, að þeir séu ekki til fyrirstöðu. Sjálfstfl. með sínu fagra nafni og stefnuskrá ætti að vera þetta mjög ljúft, og er því ótrúlegt, að menn úr þeim flokki vilji ganga fram fyrir skjöldu í mótstöðu við málið. Ekki þyrfti að óttast, að við biðum neinn halla af slíkri breyt., því að það kemur ekki til mála, að við rekum strandsiglingar við önnur lönd. Þetta tal andstæðinga frv. um, að milliríkjasamningar hafi skýrt svo sjálfstæði vort, að vér getum ekki einu sinni ráðið sjálfir strandsiglingum vorum, að svo miklu leyti, sem ónógur skipakostur hindrar eigi, er greinilega út um bláinn, því þeir vita ekkert um slík samningsatriði. — Ef slík ákvæði eru fyrir hendi, er þar aðeins um þröskuld að ræða, sem yfir þarf að stíga.