18.10.1934
Neðri deild: 13. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 316 í C-deild Alþingistíðinda. (4607)

70. mál, strandferðir

Pétur Ottesen [óyfirl.]:

Hv. flm. þessa frv. hafa mjög beint því til andstæðinga sinna hér í d., að þeir ættu að bæta ráð sitt. En ég vil beina því til hv. flm. sjálfra, að þeim muni ekki veita af að bæta ráð sitt, og á það þó frekar við um hv. þm. Barð. en hv. þm. N.-Þ., þó ég á engan hátt vilji bægja frá honum því, sem hann á. En það var hv. þm. Barð., sem flutti þetta mál í fyrra ásamt hv. þáv. 1. þm. S.-M., núv. fjmrh., og fékk málið þann dóm þá, að það væri brot á milliríkjasamningum. Nú hefir hæstv. fjmrh. bætt ráð sitt, því hann hefir þó ekki viljað flytja frv. (BJ: Það er gott, ef einhver skánar) Já, og hv. þm. Barð. þyrfti þess með. Það þarf sjálfsagt ekki að gera ráð fyrir, að hv. flm. taki mikið tillit til þess, sem aðrir segja um þetta mál, þar sem þeir hafa ekki tekið trúanleg orð form. utanrmn. eða ekki leitað umsagnar hans um. hvort hér væri um brot á utanríkissamningum að ræða. Væri hér um brot að ræða, bar þeim að athuga í fyrsta lagi, hvað næðist við að segja upp þeim samningum, og í öðru lagi, hvað ynnist við að taka í eigin hendur fólksflutningana. Ef það hefði svo reynzt þannig, að það væri meira virði að taka flutningan., sem ég álít, að væri mikils virði fyrir okkur, þá hefði verið sjálfsagt flytja þetta frv., en þó ekki fyrr en uppsagnarfrestur samninganna var útrunninn. Og það er einmitt út frá þessu, sem ég vil sérstaklega beina því til hv. þm. Barð., að bæta ráð sitt áður en hann fer að kenna öðrum.

Annað atriði, sem ég vildi minnast á, er í tilefni af þeim umr., sem spunnizt hafa út af því, að vitnað hefir verið til hv. þm. Mýr. í þessu máli, en hann lýst því yfir, að hann væri þar engin biblía. Ég hefi nú engu löngun til að gera samanburð á hv. þm. Mýr. og hinni helgu bók, biblíunni, án þess að gefa skýringu á, hvert tilefni hefir verið til þess. Eins og hv. þdm. er vitanlegt, hefir Alþ. kosið utanríkismálanefnd. Hvað meinti það með því? Henni er falin umsjón með öllum utanríkismálum milli þinga. Hún á að gæta réttar okkar og skyldu í öllum viðskiptum ríkisins við erlendar þjóðir. Og þar sem hv. þm. Mýr. er form. í þessari n. og hefir lýst yfir, að frv. færi í bága við erlenda samninga, vitnaði ég í orð hans sem nokkurskonar biblíu Alþingis. Því þegar form. þeirrar n., sem falið er jafnmikilsvert starf og hér er um að ræða, hefir gefið skýlausa yfirlýsingu um, að frv. sé brot á milliríkjasamningum, verð ég að telja alveg óforsvaranlegt að taka ekki fullt tillit til þess. Sjálfstfl. gat því ekkert annað réttara gert en að vísa á bug hverri þeirri tilraun, sem fór í þá átt að brjóta eða lítilsvirða þá samninga, eins og hann gerði þegar frv. þetta var borið fram hér á Alþ. síðast.