17.11.1934
Neðri deild: 39. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 412 í C-deild Alþingistíðinda. (4639)

143. mál, Fiskveiðasjóður Íslands

Flm. (Bergur Jónsson) [óyfirl.]:

Ég hafði skilið hæstv. forseta svo, að ekki væri ætlazt til, að farið væri út í deilur um mál þessi nú. Þess vegnu leiddi ég hjá mér að ræða frv. hv. þm. Vestm. og í því trausti fer ég heldur ekki út í deilur um þetta mál. Hv. þm. Vestm. hefir auðsjáanlega skilið þetta öðruvísi, því að hann fer að ræða einstakar gr. frv. Þó að ræða hans gefi fullt tilefni til aths., mun ég ekki verða langorður.

Hv. þm. sagði, að það væri mikill munur á frv. Sjálfstfl. um Fiskveiðasjóðinn, sem mþn. í sjávarútvegsmálum bar fram. Þetta er mjög eðlilegt, þar sem það frv. er algerlega í anda Sjálfstfl., enda skipað í n. með tilliti til þess. Ég ætla ekki að fara hér í neinn mannjöfnuð um flm., en hér er reynt að samrýma þessi mál. Þá minntist hv. þm. á, að ríkisstj. hefði ekki lagt fram til sjóðsins þá 1 millj. kr., sem lögin gera ráð fyrir. Ég býst við, að hæstv. stj. hafi ekki séð sér það fært vegna fjárhagsaðstöðu ríkissjóðs. Enda hefði ekki síður átt að gera það á þeim tíma, sem sjálfstæðismenn voru í stj., heldur en þegar framsóknarmenn voru það. Það er ekki heldur ósanngjarnt, ef ríkissjóður sér sér fært, að hann taki að sér skuld Fiskveiðasjóðs við Landmandsbankann, sem er tæp 1 millj. kr.

Þá taldi hv. þm. það mikið ranglæti að lána útgerðarsamvinnufélögum 4/5 af kaupverði skipanna, en ekki nema ½ til annara. En hér er ólík aðstaða. Það var tilgangurinn að ganga svo frá tryggingum samvinnufélaganna, að um nálega enga hættu væri að ræða á lánum til þeirra. Hvort þetta hefir tekizt, verður reynslan að skera úr.

Þá skal ég svara aths. hv. þm. um, að það væri að fara úr öskunni í eldinn að láta hlutaðeigandi bæjarfélög ganga hér í ábyrgðir. Það kemur aðeins til greina þegar lánað er samkv. 3. gr. virðingarverðs út á skipin. Þar má aðeins lána gegn 1. veðrétti, sem gangi þá fyrir öllum tryggingum nema lögveði. Þó bæjar- og hreppsfélög séu þar jafnframt í bakábyrgð, ætti þeim ekki að þurfa að stafa hætta af henni, enda kemur slíkt ekki til greina, ef tryggilega er um búið.

Þessar ábyrgðir er ekki hægt að bera saman við þær ábyrgðir, sem mörg smáþorp hafa verið að taka á sig fyrirfarandi ár á lánum til ýmsra óarðbærra og vafasamra fyrirtækja. Það er alveg hörmulegt til þess að vita, að það hafa verið lagðar á þorp og bæi ábyrgðir, sem hefðu átt að koma langt á eftir öðru nauðsynlegra. Er þetta því tekið hér upp sem endurbót, því hverju sveitar- og bæjarfélagi ríður fyrst og fremst á að hlynna að atvinnulífinu. Má gera ráð fyrir, að leiðin að ríkisábyrgð verði þá og þegar lokuð. Þá er það óþarfi fyrir hv. þm. að vera að kvarta um ríkisábyrgðirnar og hælast um yfir því, að við framsóknarmenn séum nú fyrst að sjá, að hætta geti stafað af því fyrir ríkið að taka á sig ábyrgðir fyrir samvinnufélög. Ég man ekki betur en að þm. sjálfur hafi drengilega staðið með okkur framsóknar- og jafnaðarmönnum að ábyrgðarheimild bæði fyrir Borgarnes og Stokkseyri, svo hann hefir ekki heldur hreinar hendur í þessum efnum. Hitt var eðlilegt, að við samvinnumenn gengum inn á þá braut, þar sem um er að ræða starfsemi, sem er í fullu samræmi við okkar stefnu og við höfum trú á, að sé heppileg leið í okkar atvinnumálum. Ég fæ ekki séð, að það sé nokkurt misrétti, þó þeim mönnum sé lánað minna út á skipin, sem ekkert skipulag vilja né tryggingarsjóði, o .s. frv.

Ég ætla að halda mig að öðru leyti að því, sem ég áleit, að hefði verið samkomulag um, að vekja ekki deilur um málið nú við þessa umr. Vil ég þó út af því, sem hv. þm. sagði um síðustu málsgr. 1. gr., taka fram, að það er ómögulegt að ákveða, hvað miklu fé er árlega hægt að verja til kaupa á vaxtabréfum Fiskveiðasjóðs, því við vitum ekki, hve mikið fé verður fyrir hendi t. d. í Bjargráðasjóði, og jafnvel fleiri sjóðum, sem eru undir umsjón ríkisins.

Að lokum skal ég taka það fram, að okkur þótti ekki fært að fella niður sjóveð sjómanna, og fannst það í raun og veru ekki hafa neina þýðingu, þar sem hér er gert ráð fyrir, að flestir eða allir, sem að þessu vinna, verði hluthafar í útgerðinni.