04.12.1934
Neðri deild: 50. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í C-deild Alþingistíðinda. (4692)

163. mál, fasteignaveðslán landbúnaðarins

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta frv. dróst að nokkru leyti inn í umr. hér í dag um það mál, sem var næstsíðast til umr. (frv. um ráðstafanir vegna fjárkreppunnar). Samt sé ég mér ekki fært annað en að fylgja því úr hlaði með nokkrum orðum.

Það mun vera sameiginlegt álit allra, sem eitthvað þekkja til þeirra erfiðleika, sem landbúnaðurinn hefir átt við að etja undanfarið, að full nauðsyn sé á að lækka vexti af lánum, sem á landbúnaðinum hvíla, bæði fasteignaveðslánum og öðrum. Þetta hefir verið rætt hér í dag, þegar til umr. var frv. um breyt. á l. frá 1933 um heimild til ýmissa ráðstafana vegna fjárkreppunnar, og skal ég því ekki fara út í það nú.

Mér er það ákaflega vel ljóst og nefndarmönnum yfirleitt, að það er langt frá því, að svo langt sé gengið með þessu frv. sem æskilegt væri. En það eru mörg ljón í veginum, þegar á að fara að vinna að því að koma niður vöxtum. Bæði er lítið fé hér fyrir höndum, svo að kapphlaup verður um þá fáu aura, sem hér eru á boðstólum á hverjum tíma til framkvæmda í landinu, og afleiðingin af því verður vitanlega sú, að vextir verða miklu hærri en ella, nema sérstakar ráðstafanir stjórnarvaldanna komi til. Hinsvegar er sama um það að segja, að þó að við snúum okkur til útlanda í þessu skyni, þá eru þau vaxtakjör, sem við búum við hjá erlendum peningastofnunum, ekki það glæsileg, að lán frá þeim í þessu skyni mundu mikið létta undir hjá okkur í þessu efni. Við, sem borið höfum fram þetta frv., höfum samt álítið, að töluverð bót yrði ráðin á vandræðum landbúnaðarins með þeim ráðstöfunum, sem frv. gerir ráð fyrir, þótt ekki sé þar eins langt gengið og full þörf væri á.

Það er öllum kunnugt, að breytzt hefir geysimikið frá því, sem var fyrir fáum árum, hlutfallið á milli afrakstrarfjár búanna, þess verðmætis, sem er í búum bænda og bústofni annarsvegar, og hinsvegar þess lánsfjár, sem á sínum tíma var í þeim fest, og stafar þetta, eins og allir vita, af verðfalli á landbúnaðarafurðunum. Þetta keyrir nú svo úr hófi fram, að segja má næstum, að öll fyrirtæki landbúnaðarins, hvort sem rekin eru með lánsfé eða eigin fé, séu rekin með tapi ár eftir ár, á meðan þeir, sem fé eiga á vöxtum í landinu, hafa ríkisábyrgð fyrir því að fá af því trygga vexti. Þetta misræmi má minnka á tvennan hátt: Með því að gera ráðstafanir til að auka verð á afurðum bænda og með því að lækka vextina. Báðar þessar leiðir hafa verið reyndar. Með kreppulánasjóðsl. hafa verið gerðar allróttækar ráðstafanir til að lækka vexti af lausaskuldum bænda og koma þeim yfir í hagkvæmari lán, kreppusjóðslán. En eftir hefir orðið sá flokkur lána, sem um ræðir í þessu frv. og liggur enn þungt á bændum. — Hin leiðin hefir verið farin með þeim ráðstöfunum, sem gerðar hafa verið með mjólkurl. og kjötl. til þess að hækka verð á tveimur af aðalframleiðsluvörum bænda.

Þessar báðar leiðir hafa verið reyndar, og þar sem ég geri ráð fyrir, að ókleift muni reynast að koma vöxtunum mikið niður, verður líklega að fara hina leiðina, að hækka vöruna.

Þetta frv. er í 3 köflum. I. kafli fer í þá átt að breyta l. um Búnaðarbanka Íslands. Ákvæði þessa kafla miða að því að lækka bankavextina. — II. kafli er brtt. við l. um Ræktunarsjóð Íslands, og III. kafli er brtt. við l. um heimild til ýmissa ráðstafana vegna fjárkreppunnar. Tilgangur þessara ákvæða, sem fremur eru sett til bráðabirgða, er sá, að lækka vexti af lánum, sem ákvæði hinna kaflanna ná ekki til, meðan verið er að konvertera þeim samkv. I. kafla.

1. gr. frv. stendur í sambandi við 5. gr., og mun ég ræða um hana jafnframt þeirri gr.

2. gr. kveður svo á, að 14. gr. l. skuli orðast svo:

„Stofnsjóð veðdeildar Búnaðarbankans skal ávaxta í bankavaxtabréfum veðdeildarinnar, eftir því sem viðlagasjóðslánin greiðast og við verður komið, og hefir stjórn Búnaðarbankans heimild, með samþykki landbúnaðarráðherra, að verja allt að helmingi af vaxtatekjum hans til greiðslu vaxta af öðrum vaxtabréfum veðdeildarinnar, ef nauðsynlegt þykir vegna útlánsvaxta deildarinnar“.

Í Búnaðarbankal. nú er gert ráð fyrir, að Búnaðarbankanum sé ánöfnuð 11/4 millj. af viðlagasjóði, sem gert er ráð fyrir, að sé eftir sem áður í eign ríkisins. Svo þegar varasjóður veðdeildarinnar er búinn að ná ákveðnu hámarki, á bankinn að fara að greiða vexti til ríkisins. En hér er gert ráð fyrir, að stofnsjóðurinn verði eign veðdeildar bankans, og á þá að vera heimilt að verja allt að helmingi af vaxtatekjum hans til vaxtalækkunar af lánum veðdeildarinnar. Þetta er hugsað í sambandi við 3. gr., þar sem gert er ráð fyrir heimild til að taka allt að millj. kr. lán til kaupa á bankavaxtabréfum veðdeildarinnar.

Nokkur hluti lánanna stendur í sparisjóðum og sparisjóðsdeildum bankanna. Þessi lán eru yfirleitt þyngst, þar sem þau eru flest með fullum víxilvöxtum. Við sáum ekki aðra leið að því er þessi lán snertir en að reyna að konvertera þeim í ódýrari lán, með því að stofna nýja veðdeildarflokka við Búnaðarbankann. Nú er ekki trygging fyrir því, að lán til þessara hluta myndi fást með aðgengilegum kjörum, nema þá helzt erlendis. Hv. þm. V.-Húnv. sagði reyndar áðan, að ekki væru fáanleg lán erlendis með minna en 6% vöxtum. Þetta held ég, að ekki sé rétt. Lengi hefir ekki verið fáanlegt í nágrannalöndunum jafnódýrt lánsfé og nú. Bæði í Danmörku og Svíþjóð má fá lán með betri vaxtakjörum. Danir eru nú sem óðast að konvertera gömlum lánum í ódýrari lán. En ef ekki reynist kleift að fá slík lán með sæmilegum kjörum, gerum við ráð fyrir, að verja megi helmingi af vöxtum stofnsjóðs veðdeildarinnar til vaxtalækkunarinnar.

Þá er 4. gr. frv. Í l. um Búnaðarbankann stendur, að fresta megi framkvæmd veðdeildarl. um óákveðinn tíma. Þetta er nú óþarft, þar sem veðdeildin er tekin til starfa, og leggjum við því til, að þetta ákvæði sé niður fellt.

Í 5. gr. frv. er lagt til, að IV. kafli l. (Bústofnslánadeild) falli niður. Um það var mikið þráttað, þegar l. voru sett, hvort þessi kafli myndi koma að verulegum notum. En við framkvæmd l. hafa menn orðið sammála um, að kaflinn kæmi varla til framkvæmda. Verður það og að teljast neyðarúrræði, að bændur bindi bústofn sinn veðböndum í bönkunum. Eru það verstu veðin og þau hættulegustu, sem á bústofninum hvíla. En við framkvæmd kreppul. neyddust menn til að taka nokkurn hluta af bústofni bænda sem veð, og er því nokkuð af búfé þeirra veðbundið, og verður lengi enn. Við leggjum því til, að Bústofnslánadeildin verði niður felld, en að sá hluti af Viðlagasjóði, sem þessari deild var ætlaður, verði fenginn Ræktunarsjóði til eignar. Þessi upphæð nemur 700 þús. kr.

Þá er II. kafli frv. — 6. gr. stendur í sambandi við ákvæði 5. gr., að Bústofnslánadeild sé afnumin. Er ætlazt til, að það af Viðlagasjóði, sem umfram er eign veðdeildar Búnaðarbankans, eins og hann telst 1. jan. 1935, renni til Ræktunarsjóðs.

Í 7. gr. er lagt til, að í stað orðanna „flokkurinn var opnaður“ í 3. gr. l. komi: „flokknum var lokað“. Þetta ákvæði snertir það, á hve skömmum tíma skuli vera lokið inndrætti allra bréfa, er Ræktunarsjóður gefur út. Er þetta í núgildandi l. takmarkað við ákveðið árabil, sem sé 8 ár, eftir að flokkurinn var opnaður. Breyting okkar gerir að verkum, að hægt er að lengja lánstímann úr Ræktunarsjóði um allt að 10 ár, en við það léttast ársgreiðslurnar á viðkomandi láni um 0,7%.

8. gr. kveður svo á, að lækka skuli þá upphæð, sem stofnsjóður má bæta við sig af ársvöxtum höfuðstólsins, úr 3½% niður í 2½%.

9. gr. frv. gerir ráð fyrir, að aftan við 9. gr. l. c-lið bætist: „og bankatryggingu frá lántakanda, er stjórn sjóðsins tekur gilda“. Þetta ákvæði viðvíkur heimild í Búnaðarbankal., þess efnis, að lána megi út gegn ábyrgð hreppsn. og sýslun. Þetta eru yfirleitt lökustu tryggingarnar. Slík lán hafa stundum verið gerð jafngild fasteignaveðslánum. En það hefir sýnt sig, að á þessum lánum hafa orðið einna mest afföll. Við ætlumst því til, að þegar lán eru veitt gegn ábyrgð hreppsn. og sýslun., þá komi til baktrygging, sem sjóðstj. tekur gilda.

10. gr. er heimild til að lengju aðallánaflokkana úr 20 í 30 ár og úr 25 í 35 ár. Lán þau, sem Ræktunarsjóður veitir, eru aðallega garðyrkjulán til 5 ára, lán til girðinga, veitt til 10 ára, og svo almenn jarðabótalán og húsabyggingalán til 20— 25 ára. Þetta eru höfuðlánin. Við leggjum til, að þessa lánaflokka megi lengja, og stendur þetta í sambandi við 7. gr. frv.

11. gr. er aðeins smábreyting.

12. gr. er um þau atriði, sem ég hefi þegar minnzt á, vaxtalækkun og lengingu lánstíma. 13. gr. er ekki mikilvæg og eiginlega ekki annað en leiðrétting á því, hvenær greiða skuli útdregin vaxtabréf.

14. gr. lýtur að viðvarandi starfsemi Ræktunarsjóðs. Hún hljóðar svo:

„Fé ómyndugra manna og opinberra stofnana og sjóða, þar á meðal Kirkjujarðasjóðs, Bjargráðasjóðs, sjóðs Brunabótafélags Íslands, svo og annara sjóða, er standa undir vörzlu ríkisins, skal að nokkrum hluta verja til að kaupa vaxtabréf Ræktunarsjóðs, og ákveður landbúnaðarráðherra árlega upphæðina, eftir að hafa kynt sér reikningsskil viðkomandi sjóða“.

Nú eru bráðum þrotnar tekjur þær, sem Ræktunarsjóði eru ætlaðar samkv. 1. sjóðsins, og verður því að sjá honum fyrir nýju fé. En fé opinberra sjóða og stofnana er ódýrasta féð. Við viljum því gefa Ræktunarsjóði hlutdeild í því fé.

16. og 17. gr. eru aðallega breytingar á l. Ræktunarsjóðs í samræmi við það, sem orðið er um l. Búnaðarbankans. Í Ræktunarsjóðsl., 28. gr., er kveðið á um það, hvernig stj. sjóðsins skuli vera. En þegar Búnaðarbankal. voru sett, breyttist þetta, og tók bankinn við stj. sjóðsins. Hin ákvæðin standa þó enn í Ræktunarsjóðsl. Við viljum, að l. sýni rétta mynd af stj. sjóðsins, eins og hún er nú.

Þá er III. kafli frv. um ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar. Þessi kafli er borinn fram vegna sparisjóðslánanna, sem eru þyngstu lánin, eins og ég gat um áðan. Í 3. gr. þessa frv. er gert ráð fyrir, að reynt sé að konvertera þessum lánum í ódýrari lán, en meðan það tekst ekki, leggjum við til, að ríkissjóði heimilist að greiða þann hluta af lánsvöxtunum, sem er fram yfir 5%, svo að tryggt sé, að öll fasteignaveðslán landbúnaðarins komist niður í 5%, en nú eru vextir af þeim að jafnaði 6— 7%. Annars svipar þessum ráðstöfunum til ákvæða, sem eru í gildandi l. um ýmsar ráðstafanir vegna fjárkreppunnar, en þessi ákvæði falla úr gildi um næstu áramót og er því þörf á að framlengja þau.

Við prentun hafa brenglazt nokkrar gr. frv. Við ætluðum upphaflega að bera fram þrjú frv. um málið, en þegar við ákváðum að bera það fram í einu lagi, láðist okkur að breyta því sem skyldi. Þetta er lagfært með brtt. okkar á þskj. 638. — 1. brtt. á því þskj. gerir ráð fyrir, að aftan við 10. gr. bætist:

„Heimilt er stj. Búnaðarbanka Íslands, ef lántakendur óska þess, að gera þær ráðstafanir um eldri lán til þeirra framkvæmda, er um getur í c- og d-liðum og veitt hafa verið til skemmri tíma en þar segir, að lánstíminn skuli lengdur allt að því, sem hann má mestur vera samkvæmt liðum þessum, en þó aldrei meira en svo, að ætíð sé lokið útdrætti hvers flokks vaxtabréfa á tilsettum tíma“.

Eins og hv. þm. sjá, er þessi breyt. aðallega vegna framtíðarinnar, svo að lánalenging komi aðallega fram á lánum, er tekin verða hér eftir. En þeir, sem þegar hafa tekið lán, geta þó fengið nokkra rétting sinna mála, ef þeir vilja.

Hinar gr. eru ekki annað en leiðréttingar.

Þá vil ég víkja að orðum hv. þm. V.-Húnv. Við höfum ekki séð okkur fært að hreyfa við þeim lánum, sem hafa betri lánskjör en 5% vexti, en af þeim er mikill hluti veðdeildarlán Landsbankans. Um lán Byggingar- og landnámssjóðs veit ég, að þau hvíla allþungt á þeim, er þau hafa tekið, en það er ekki af því, að vextir séu svo háir, því að það eru lægstu vextir hér á landi. Væri gott, ef hægt væri að koma öllum vöxtum landbúnaðarins niður í það, sem þar er. En það er óhugsanlegt nema með miklum útlátum úr ríkissjóði. Sé ég ekki, hvernig hægt er að krefjast þess, að meðan verið er að brjóta heilann um það, hvernig hægt sé að koma vöxtum af almennum fasteignaveðslánum niður í 5%, þá séu líka lækkaðir þeir vextir, sem lægri eru. Þessi lán eru þung, ekki af því, að vextir séu svo háir, heldur af því, að lánin sjálf eru há. Ef laga ætti þetta, yrði helzt að skera af þessum lánum. Fyrstu húsin, sem reist voru fyrir þessi lán, urðu nokkuð dýr. Þegar sjóðurinn tók til starfa, voru menn bjartsýnir og réðust í mikil fyrirtæki. Bændur vildu taka stór lán, og var það sízt af því, að sjóðurinn hvetti til þess. Þetta sjá menn nú, að var óhugsað. Eru það því óréttmætar ásakanir, sem komið hafa fram gegn sjóðstj., að hún ætti sök á þessu.

Ég skal svo ekki fara lengra út í þetta mál að sinni, en e. t. v. gefst tilefni til þess síðar. Ég ætla svo ofurlítið að svara hv. þm. V.-Húnv. viðvíkjandi málinu, sem var á dagskrá fyrir skömmu. Hann vildi efa, að ég færi með rétt mál, þar sem ég sagði, að útgjöld ríkisins samkv. því yrðu 300 þús. kr. Hann vitnaði í skýrslur um vaxtalán máli sínu til stuðnings. En ég fór alveg með rétt mál, þegar ég gaf upplýsingar um þetta áður. Lánin eru 4 millj. kr., þó tekið sé tillit til þess, sem fer í Kreppulánasjóð. Ég geri ráð fyrir, að það séu um 4 millj. kr., sem hvíla á bændum, eftir að búið er að afgr. kreppusjóðslánin. Og er full þörf á að taka tillit til þessa, þegar létta á á lánum bænda. Það mun sýna sig, að útgjöldin samkv. hans till. verða 300 þús. kr., en samkv. 3. kafla okkar frv. 60— 70 þús. kr., og minna ef tækist að konvertera aðalláninu. Það er ekki að marka, þó útgjöldin síðastl. ár hafi ekki verið nema 130 þús. kr. En það er svo með allan fjöldann af fasteignalánum, að þeim hafa ekki verið gerð skil, og útgjöldin því ekki komið til eins og ef þau hefðu verið sett í lag. Nú hafa gegnum Kreppulánasjóðinn 2— 3 ára vanskil verið sett í lag og vaxtaupphæðir verið borgaðar samkv. gildandi lögum. Það mun sýna sig, að það er stór útgjaldaliður fyrir ríkið að greiða þennan hluta vaxtanna. — Ég skal svo láta máli mínu vera lokið. Í frv. er skemmra gengið en við flm. hefðum óskað, en það er farið eins langt og landbn. sá sér fært að fara. Ég vænti þess svo, að hv. d. greiði fyrir því, að þetta hagsmunamál bænda nái fram að ganga.