23.11.1934
Sameinað þing: 12. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í D-deild Alþingistíðinda. (4704)

162. mál, ábyrgð á láni fyrir Hafnarfjarðarkaupstað

Flm. (Emil Jónsson):

Það eru aðeins örfá orð út af brtt., sem hér liggur fyrir, og þeim orðum, sem hv. 6. þm. Reykv. lét falla í þessu sambandi. Hann sagði, að þetta lán væri ekki ætlað til neins sérstaks fyrirtækis, og er það út af fyrir sig rétt. En ég vil í því sambandi benda á, að Hafnarfjarðarbær hefir stofnað til stórfelldari fyrirtækja en nokkrir aðrir kaupstaðir hafa gert, og það án aðstoðar ríkissjóðs. Bærinn hefir hafið útgerð, keypt 2 togara og komið upp fiskverkunarstöð án þess að nokkur ábyrgð væri fyrir hendi frá ríkissjóði. Það er rétt, að þetta lán fer til þess að greiða lausar ósamningsbundnar skuldir, og að farið er fram á ábyrgð ríkissjóðs, er einvörðungu vegna þess, að með því móti er hægt að fá betri vaxtakjör en annars mundi vera hægt. Þetta er ekki fordæmislaust, þar sem Vestmannaeyjakaupstaður hefir fengið samskonar ábyrgð fyrir skömmu síðan. Það, sem brtt. fer fram á — að setja tryggingu fyrir láninu —, er alveg sjálfsagt, og mér hefir ekki dottið í hug að fara fram á, að slík ábyrgð yrði veitt tryggingarlaust, enda er hægt að setja nægar tryggingar, sem að mínum dómi a. m. k. eru vel hæfar, og ég vona, að ríkisstj. geti einnig metið þær gildar. Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta frekar, en get lýst því yfir, að ég fellst á þessa brtt.