19.12.1934
Efri deild: 65. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 429 í C-deild Alþingistíðinda. (4742)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Þorsteinn Briem [óyfirl.]:

Ég vil gera með nokkrum orðum grein fyrir því, hvers vegna ég skrifaði undir nál. landbn. með fyrirvara.

Ég er í sjálfu sér meðmæltur þeirri hugsun, sem að nokkru leyti kemur fram með flutningi þessa frv., sem sé þeirri hugsun að lækka vexti af lánum landbúnaðarins. Það má öllum ljóst vera, að slíks er hin mesta þörf, en jafnframt verð ég að láta þá skoðun í ljós, að þó að tilgangurinn sé góður, eru svo miklir annmarkar á þessari leið, sem þar er farin, að ég vil gera grein fyrir þeim.

Það hefir verið farin sú leið þessi tvö ár, sem liðin eru frá því að lög um sérstakar ráðstafanir vegna landbúnaðarkreppunnar voru samþ., að greiða vaxtatillag úr ríkissjóði, og skoðun mín er sú, að meðan ekki er betur fyrir þessu máli séð á annan veg heldur en ennþá er fram komið, muni vart fært að fara aðra leið í málinu til bráðabirgða en þá, sem þingið 1933 fór. Og sérstaklega finnst mér varhugavert að taka þá stefnu, sem hér er farið fram á, að ákveða lækkun vaxta á útlánum úr Söfnunarsjóði. Skal ég nú gera grein fyrir, hvers vegna það er.

Það er þá fyrst og fremst það, að Söfnunarsjóður er ekki, eins og sumir hv. þm. virðast telja, venjuleg lánstofnun. Söfnunarsjóðurinn er stofnaður til þess að varðveita fé og ávaxta það og útborga vexti um ókomna tíð. Þetta er beint tekið fram í 7. gr. Söfnunarsjóðslaganna, og liggur það því beint fyrir, að sjóðurinn hefir nú ýmsar aðrar leiðir til þess að ávaxta fé sitt heldur en að lána það út sem almenn fasteignaveðslán.

Árið 1888, þegar lögin um Söfnunarsjóðinn voru sett, var vart um aðra leið að ræða en að lána féð gegn fasteignaveði eða að kaupa erlend ríkisskuldabréf. En þetta hefir nú breytzt þannig, að stjórn sjóðsins mun hafa tekið þá ákvörðun að hætta útlánum að mestu, en kaupa í þess stað innlend verðbréf með ríkisábyrgð. Ég hygg, að þar séu m. a. jarðræktarbréf, og einnig hygg ég, að sjóðstj. hafi ákveðið að kaupa fyrst og fremst veðdeildarbréf af bændum, a. m. k. veit ég ekki betur en að svo sé nú. — Ég hygg, að Söfnunarsjóðurinn eigi nú um 30 þús. kr. lausar, og það fé hefir hann einmitt geymt til þess að kaupa veðdeildarbréf af bændum og mun þegar hafa fengið loforð fyrir láni úr veðdeildinni, en ekki komið því í kring ennþá.

Það ætti að vera ljóst, að ef Söfnunarsjóðurinn heldur þeirri stefnu áfram að kaupa veðdeildarbréf og jarðræktarbréf, vinnur hann fyrir bændastéttina á þann veg, að hann kaupir bréfin hærra verði heldur en almennt er hægt að fá fyrir þau.

Í lausasölu munu veðdeildarbréfin ganga frá 70% til 75%, en allra hæst 78%, en Söfnunarsjóður kaupir þau fyrir 80%. Ef þetta á að vera áfram í starfi sjóðsins, má það vera ljóst, að það verkar ekki eins mikið til almennrar vaxtalækkunar á lánum bænda eins og mun hafa vakað fyrir þeim, sem fluttu frv. En jafnframt er á annað að líta, og það er, hvaða fé það er, sem er ávaxtað í Söfnunarsjóðnum.

Sjóðurinn mun alls vera um 3½ millj. króna. Þar af er fé ellistyrktarsjóða um 1 millj. og 6 til 7 hundr. þús. og ekknasjóðir og sjúkrasjóðir þar til viðbótar munu nema til samans um 2/3 af innstæðu sjóðsins. Þessir sjóðir eru eingöngu til styrktar gamalmennum, sjúklingum og fátækum ekkjum. Þá eru í Söfnunarsjóðnum nokkrir styrktarsjóðir til styrktar fátækum, efnilegum unglingum til náms, framfarasjóðir sveitarfélaga og sjóðir til styrktar vísindum og fræðiiðkunum, t. d. í náttúrufræði. Ennfremur eru sjóðir búnaðarfélaga og sjóðir, sem á að verja til þess að fegra og prýða einstakar sveitir eða héruð, t. d. til blómaræktar í Héraði og skógræktar í Vatnsdal. Og síðast má nefna nokkra sjóði einstakra manna. Það er ýmist fé, sem menn hafa lagt til hliðar sér til framfærslu í elli sinni og eiga að fá það útborgað þegar þeir eru 60 eða 65 ára. Svo er fé, sem hefir verið lagt á vöxtu vegna barna og unglinga, sem þeir eiga að fá útborgað 20 eða 25 ára sér til menntunar eða annars þess, er að gagni má koma.

Þá er ennþá ótalið það fé, sem stendur í erfingjarentudeild sjóðsins, en það er ekki nema um 64 þús. kr.

Það er því af þessu ljóst, hverskonar fé það er, sem er varðveitt í sjóðnum. Það er mest styrktarfé gamalmenna, ekkna og munaðarleysingja.

Eins og menn vita, eru ellistyrktarsjóðum sveitarfélaga greiddir hálfir vextir af innstæðu sinni, og þá er það ljóst mál, að þetta kemur þegar fram á þeim örvasa gamalmennum, er njóta ellistyrks. Það virðist því, að út í óefni stefni, ef ekki er hægt að finna aðra leið til þess að fullnægja þessum lofsverða tilgangi heldur en að skattleggja þá, sem þarna eiga hlut að máli, þ. e. að svipta gamalmenni, ekkjur og sjúklinga 1/6 hluta af þeim styrk, sem þeir mundu annars fá. Annað fé í Söfnunarsjóði er frá styrktarsjóðum fátækra námsmanna og framfarasjóðum sveita og búnaðarfélaga, sem hafa litlar tekjur, en gott væri að gætu gefið sem mestan arð. Það er því ljóst, að það fé, sem Söfnunarsjóðurinn samanstendur af, heyrir undir þessa framangreindu sjóði.

Hv. frsm. gat þess, sem rétt er, að í 6. gr. l. frá 1888 um Söfnunarsjóð Íslands, er svo ákveðið, að sjóðurinn megi taka hærri vexti heldur en 4%. Hv. frsm. dró út frá því þá ályktun, að það hefði verið ætlazt til, að vextir sjóðsins yrðu þar skammt fyrir ofan. En ég hygg, að það sé á misskilningi byggt, þó að árið 1888 væru almennir vextir af fasteignaveðslánum 4%. En það, sem sagt er í þessu ákvæði, er í raun og veru ekki annað en það, að sjóðnum er heimilt að taka hærri vexti heldur en venjulega af fasteignaveðslánum. Nú er það fjarri því, að Söfnunarsjóður taki hærri vexti heldur en venjulegt er af fasteignaveðslánum. Að vísu hefir það verið svo síðan veðdeildin var stofnuð, að sjóðurinn hefir nokkuð miðað vexti sína við þá vexti, sem þar hafa verið teknir, en þó jafnan haft þá lægri heldur en þar, og við það situr enn þann dag í dag. En það mun vera yfirlýst frá stjórn sjóðsins, að ef vextir verða almennt lækkaðir af fasteignaveðslánum, þá muni Söfnunarsjóður jafnan gæta þess að lækka sína vexti svo mikið, að þeir verði heldur fyrir neðan hina almennu fasteignaveðslánavexti.

Ég hefi nú bent á helztu annmarkana á þeirri leið, sem með frv. er bent til, að farin verði. Það er í raun og veru verið að skattleggja þá, sem sízt skyldi, örvasa gamalmenni, ekkjur og munaðarleysingja, og virðist mér því, að betur lægi við, að sú leið yrði farin að greiða vaxtatillagið beint úr ríkissjóði, til þess að lækka vextina af fasteignaveðslánum bænda, því að þeir peningar, sem koma í ríkissjóðinn, eru a. m. k. að minnstu leyti frá þessum aðilum teknir.

Það kann að vera, að sumir líti svo á, að þessi stofnun geti vel haft lægri vexti heldur en aðrar lánstofnanir, en það eru nokkrir annmarkar á því. Afleiðingin mundi verða sú, að menn hættu að leggja sjóði í Söfnunarsjóðinn, ef hægt væri að fá miklu hærri vexti annarsstaðar. Ég tel það athugaverða afleiðingu, því að reynslan hefir sýnt, að sjóðir, sem eru ávaxtaðir á annan veg, t. d. með því að leggja þá í sparisjóði eða jafnvel með því að kaupa vaxtabréf, eru ekki eins tryggir. Það má vera, að það muni vera reynsla, að slíkir sjóðir varðveitist vel fyrstu árin, meðan stofnendurnir eða einhverjir þeim nákomnir hafa yfir sjóðnum að segja, en það er reynsla með þá sjóði, sem geymdir og ávaxtaðir eru í sparisjóðum eða með því að kaupa fyrir þá vaxtabréf, að þeir vilja skerðast eða fara forgörðum fyrir ýmiskonar óhöpp. Það þarf ekki nema að gjaldkeri sjóðsins sé athugaminni maður en æskilegt væri, þá getur sjóðurinn rýrnað og jafnvel að engu orðið. Ég vildi á þetta benda, af því að ég hygg, að þessi dæmi séu ekki svo fá. En hinsvegar má vænta þess, að ef vextir, sem greiddir eru í Söfnunarsjóði, verða miklu lægri en annarsstaðar er hægt að fá, t. d. fyrir verðbréf, yrðu menn tregari til þess að geyma ýmsa sjóði í Söfnunarsjóðnum, þó að það sé sá öruggasti staður, sem til er hér á landi. Ég verð því að telja það skoða fyrir þjóðfélagið, ef menn ganga framhjá Söfnunarsjóðnum með að ávaxta fé sitt.

Það hefir verið á það bent, að það væri auðvelt að koma þessari vaxtalækkun fram gagnvart Söfnunarsjóðnum, af því að það fé, sem hann hefði, væri algerlega innlent fé. En það eru fleiri stofnanir, sem geyma innlent fé. Það er t. d. margfalt hærri upphæð, sem geymd er í bönkum og sparisjóðum, og er það algerlega innlent fé. Það er a. m. k. tífalt meira heldur en þessar 31/4 millj., sem Söfnunarsjóðurinn varðveitir.

Söfnunarsjóðurinn hefir jafnan gætt þess að láta þá, sem gátu boðið jarðarveð, sitja fyrir lánum, en þó hefir það orðið svo, að af því að sjóðurinn hefir ekki getað veitt lán nema um það hafi verið sótt með alllöngum fyrirvara, hafa umsóknir um lán gegn jarðarveði ekki verið svo örar, að jafnan hafi legið fyrir umsókn, þegar sjóðurinn hefir haft lausa peninga. Þá hefir sjóðurinn orðið að grípa til þess ráðs að lána gegn fasteign í kaupstað. Ég hygg, að það vaki ekki sérstaklega fyrir flm. þessa máls að létta á þeim, sem hafa verið svo heppnir að fá lán úr Söfnunarsjóði gegn veði í fasteign í kaupstað. En ég hefi ekki neina skrá yfir, hversu há sú upphæð er, sem sjóðurinn á í útlánum gegn jarðarveði, en þegar litið er á þá heildarupphæð, sem sjóðurinn hefir nú til umráða, og þó að það sé mikil upphæð, sem bændur almennt skulda gegn fasteignaveði, er það ljóst mál, að það er tiltölulega ekki mjög há upphæð, sem ríkissjóður yrði að leggja fram sem vaxtatillag, ef eingöngu ætti að létta á þeim lánum, sem í Söfnunarsjóði eru.

Hinsvegar mun mega benda á það, að ýmis sveitarfélög leggja mikið kapp á að fá lán úr Söfnunarsjóði, af því að þau telja sig hvergi geta fengið jafngóð lánskjör og þar.

Ég hygg því, að afleiðingin af samþykkt þessa frv. yrði sú, að tekið yrði alveg fyrir slík lán, heldur aðeins keypt veðdeildarbréf. Hygg ég, að íslenzkum sveitarfélögum væri lítill greiði gerður með því.

Ég veit ekki til, að Söfnunarsjóður hafi notið nokkurs styrks frá því opinbera, og einnig af þeirri ástæðu er það dálítið varhugavert að krenkja hans rétt til þess að ávaxta fé sitt með allt að því eins góðum kjörum og fé er ávaxtað annars í landinu gegn fasteignaveði. Og eins og ég gat um áðan, hefir Söfnunarsjóður þegar gert nokkuð til þess að auka „kursinn“ á veðdeildarbréfum, þannig, að þegar Söfnunarsjóður hóf veðdeildarbréfakaup, þá var ekki um hærri „kurs“ að ræða en 75%, en hann keypti fyrir 80% og hefir ákveðið að halda sér fyrir ofan gangverð á veðdeildarbréfum. Má af því vera ljóst, að sjóðurinn getur að því leyti gert talsvert gagn fyrir þá, sem á fasteignalánum þurfa að halda, og hann getur nokkru áorkað um að hækka „kursinn“ og þar með bæta kjör þeirra, sem þurfa að fá fasteignaveðslán.

Þó að ég sé mjög fylgjandi þeirri stefnu, sem ég vænti, að bak við þetta frv. liggi, að lækka vexti hjá þeim bændum, sem hafa fasteignaveðslán, þá tel ég þá leið eðlilegri í þessu máli, að greitt sé beint vaxtatillag úr ríkissjóði, heldur en að ráðast þarna á garðinn, því að þarna virðist mér hann vera lægstur.