19.12.1934
Efri deild: 66. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 438 í C-deild Alþingistíðinda. (4749)

164. mál, Söfnunarsjóður Íslands

Jón Auðunn Jónsson:

Þetta frv. er flutt til þess að draga úr útgjöldum ríkissjóðs, því að vaxtatillag ríkissjóðs til fasteignalána bænda minnkar, ef þessir vextir Söfnunarsjóðsins eru færðir niður. Það er því eins og nú stendur á engin bót fyrir þá bændur, sem tekið hafa fasteignalán í sjóðnum. — Ég er á móti þessu frv. af sömu ástæðum og hv. 10. landsk. Hér er um að ræða eitt hið bezta söfnunarfé, sem við eigum, því er varið til þess að hjálpa þeim, sem erfiðast eiga, þarna eru ellistyrktarsjóðir, ekknasjóðir og líknarsjóðir ýmsir. Af þessum ástæðum er það óeðlilegt að ætlast til, að Söfnunarsjóður taki lægri vexti en hægt er að fá í frjálsum viðskiptum. Stjórn sjóðsins hlýtur að telja það skyldu sína að ávaxta fé það, sem hún hefir með höndum, eins vel og hægt er. — Ég vil benda á það í sambandi við þá fullyrðingu, að hér sé verið að létta á sveitafólkinu, að 70% af því fé, sem sjóðurinn hefir yfir að ráða, er eign sveita. Nálega allir þeir sérstöku sjóðir, sem þarna er um að ræða, eru eign sveitahéraða, gefnir af góðu fólki, oftast í líknarskyni, til hjálpar ekkjum og öðru illa stæðu fólki, eða þá í menningarskyni. Ég tel það því vera andvígt hagsmunum sveitanna að samþ. þetta frv.