10.10.1934
Efri deild: 7. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í C-deild Alþingistíðinda. (4766)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég vil aðeins segja fáein orð út af þessu frv. Ég er alveg sammála hv. þm. um það, að þetta má ekki gera að pólitísku deilumáli. Takmark okkar allra á að vera það, að sem minnst verði greitt af greiðslum, sem ekki eru í fjárl. Undanfarið hefir fjárveitingavaldið varla verið að öllu leyti í höndum Alþ. Útkoman hefir því oft ekki verið í samræmi við vilja Alþ. Þetta verður oft til þess, að fjárhagur ríkissjóðs er verri en menn vilja láta líta út.

Því hefir verið lýst yfir af stj., að hún vilji vinna að því, að fjárl. séu haldin sem bezt og greiðslur úr ríkissjóði fari sem minnst fram úr áætlun. Það er vitanlega gott fyrir stj. að hafa visst aðhald um þetta efni, því ásókn er mikil um greiðslur úr ríkissjóði.

Ég er sammála hv. þm. um þetta, en ég hefi enn ekki haft tíma til að mynda mér skoðun um, hvaða leið sé heppilegust. Ég hefi ekki haft tíma til að sinna málinu, sökum annríkis við samningu fjárlagafrv.

En út af þessu frv. vil ég geta þess, að ákvæði þess eru svo ströng, að mjög erfitt mun vera að framkvæma þau. Hv. þm. segir, að það verði auðvitað að framkvæma þessi l. eins og skynsömum mönnum sæmir. Ég vil sérstaklega benda á það, að eftir þessu frv. er hægt að klekkja á pólitískum andstæðingi fyrir litlar sakir. Bókstafur frv. er svo strangur, að þetta mundi vera hægt. Ég vil benda á 5. gr. frv.: „Nú greiðir fjmrh. fé úr ríkissjóði án heimildar í fjárl. eða öðrum l., eða án samþykkis ríkisgjaldanefndar samkv. 2. gr., og varðar það hann þá ábyrgð eftir 143. gr. hinna almennu hegningarlaga. Auk þess er hann skyldur til að endurgreiða ríkissjóði það fé, sem greitt hefir verið í heimildarleysi“. Í fjárl. er t. d. liður „Til óvissra útgjalda“. Þá mætti spyrja, hvort ekki mætti greiða þar nokkurn pening nema bera það undir ríkisgjaldanefnd. Það mundi verða ákaflega erfitt að framkvæma þetta atriði. Það er mjög alvarlegt mál, að hafa ákvæði í frv., sem ekki er hægt að framkvæma. Einhverjum þm. gæti dottið í hug að klekkja á ráðh., þó um enga alvarlega sök væri að ræða.

Það mundi líka verða erfitt í þessu sambandi að eiga við skipulagningu verklegra framkvæmda fyrirfram. Það er hið mesta vandaverk að skipuleggja verklegar framkvæmdir þannig, að það, sem á að gera, verði gert. Það þarf t. d. að ráða menn fyrir vissan tíma í sambandi við undirbúning verklegra framkvæmda. Þá koma mörg atriði til greina, sem geta valdið því, að einhverju skakkar í þessu efni. Þá er erfitt að þurfa að sækja allt undir atkv. eins nm. Við skulum taka dæmi: Nú er verið að vinna við verklegar framkvæmdir, og kostnaður er kominn fram úr áætlun. Þá verður kannske að hætta vinnu, af því að ekki er hægt að borga út, vegna þess að einn nm. mætir ekki á fundi.

Ég er sammála grundvallaratriði frv., að tryggja eigi það, að fjárl. séu haldin. — Mig minnir, að annar sá flokkur, sem stendur að núv. stj., hafi komið með till. í þessa átt. En mér hefir, eins og ég sagði áðan, ekki getizt tími til að skapa mér fasta skoðun um þetta.