14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í C-deild Alþingistíðinda. (4775)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Jón Baldvinsson [óyfirl.]:

Við í fjhn. höfum dottið sinn í hverja áttina í þessu máli. Ég hefi ekki á móti hugsuninni í þessu frv., að ríkisstj. greiði ekki meira en tilskilið er í fjárl., en mér finnst frv. svo einstrengingslega orðað, að ólíklegt sé, að það náist fram.

1. gr. frv. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta: „Í lok hvers reglulegs Alþingis skulu þingflokkar þeir, sem mann eða menn hafa í fjárveitinganefnd, tilnefna einn mann hver og tvo til vara í nefnd, er nefnist ríkisgjaldanefnd. Nefndin kýs sér sjálf formann og ritara og gegnir starfi til loka næsta reglulegs Alþingis. Nefndarmenn skulu vera búsettir í Reykjavík eða svo nærri, að þeir geti daglega sótt þangað fundi“.

Í þinginu eru nú fjórir flokkar, og þótt þeir hafi ekki allir nú mann eða menn í fjvn., þá má svo vel fara. En það yrði óheppilegt af því, að með því fengist enginn meiri hl. í n. Það væri og óeðlilegt, eftir öllum réttum reglum um kosningar, að ekki væri kosið í n. eftir atkvæðamagni flokkanna. Ég vil því breyta 1. gr. frv. svo, að Alþingi kjósi með hlutfallskosningum fimm menn í n. og fimm til vara.

Ég lagði snemma í dag brtt. mínar við frv. fram í skrifstofu þingsins, en annríki mun vera í prentsmiðjunni, svo að þeim hefir ekki verið útbýtt enn, og mun ég því afhenda hæstv. forseta þær skriflegar.

Brtt. mínar ganga í þá átt, að tala nefndarmanna standi á stöku og kosið sé hlutfallskosningu í n. Að greiðsla sé heimil, ef meiri hl. n. samþ. hana, en samkv. frv. nú þarf samþ. allra nefndarmanna.

Við 3. gr. ber ég fram þá brtt., að fundir n. séu lögmætir, ef meiri hl. kemur á fund. Samkv. frv. er svo ákveðið, að fundur sé því aðeins lögmætur, að hann sé fullskipaður. Það gæti orðið erfitt, ef einstakir nm. eyðilegðu starf n. með því að mæta ekki á fundi; er því nauðsynlegt að gera þessa breyt. á frv.

Þá þykir mér það nokkuð óvenjulegt við 5. gr., að ráðh. beri ábyrgð eftir 143. gr. hinna almennu hegningarlaga. Ég hefi því flutt brtt. þess efnis, að hann beri ábyrgð samkv. ákvörðun þess Alþingis, er næst kemur saman.

Ég hefi bundið þetta við næsta þing, því ef taka mætti þetta upp á hvaða þingi sem væri, mætti beita þessu í kosningum. Hafi ráðh. gerzt sekur um það, sem fer út fyrir það, sem nú þekkist, fjárdrátt sjálfum sér til handa o. s. frv., þá er hann orðinn sekur við l. af sjálfu sér. Mun ég því leggja skriflegar brtt. um þetta fyrir forseta.