14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 450 í C-deild Alþingistíðinda. (4781)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Pétur Magnússon:

Það er vitanlega alveg fráleitt, að 2. gr. frv. brjóti á nokkurn hátt í bága við 37. gr. stjskr. Með henni er einmitt verið að tryggja það og leggja áherzlu á það, að fjárveitingarvaldið sé og eigi að vera hjá Alþingi. Hv. þm. veit vel, hvernig þetta hefir verið í framkvæmd hin síðustu ár. Alþingi hefir haft þetta vald í orði kveðnu, en það hefir ávallt meira og meira dregizt í hendur stj. Nú á með þessu frv. að fyrirbyggja, að framhald verði á þessu og að stj. geti greitt fé úr ríkissjóði án þess, að þingvilji sé á bak við. Frv. er því í fyllsta samræmi við anda stjskr. og til þess eins að tryggja hana.

En hinsvegar álít ég, að ef sú brtt. hv. 4. landsk., að meiri hl. n. skuli ráða, yrði samþ., þá sé farið að höggva nærri stjskr. Eflaust yrði þetta svo í framkvæmd, að meiri hl. n. yrði skipaður flokksbræðrum ráðh., og myndu þeir því fylgja stj. um þær greiðslur, sem hún vildi inna af hendi. Reynslan hefir sýnt okkur, að útkoman verður þessi, og ef nú á að fara að lögfesta slíkt, þá má fyrst segja, að gengið sé nærri ákvæðum stjskr., hvort sem orðalag 37. gr. er beint brotið með þessu eða ekki. Þessar greiðslur yrðu auðvitað teknar upp í fjáraukalög og samþ. af þeim meiri hl., er styður stj., en ákvæðið brýtur á móti þeim anda, að fjárveitingavaldið sé hjá Alþingi í heild.

Með frv. er hinsvegar tryggt, að fullur þingvilji standi á bak við greiðslur utan fjárl., þar sem andstöðuflokkarnir verða einnig að taka á sig ábyrgðina, en hitt ekki látið nægja, að fylgismenn stj. leggi blessun sína yfir gerðir hennar eftir á.