14.12.1934
Efri deild: 61. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 451 í C-deild Alþingistíðinda. (4783)

40. mál, ríkisgjaldanefnd

Pétur Magnússon:

Hv. 4. landsk. er ekki eins heimskur í þessu máli og hann lætur. Ég á við það, að ef andstöðuflokkar stj., hvað sem þeir heita, samþ. fjárveitingu utan fjárlaga, þá sé fengin sú frekasta trygging, sem fæst utan þings fyrir því, að um nauðsynlega greiðslu sé að ræða. Engin stj. getur komizt hjá því að greiða fram yfir fjárlög, því að þar er að mestu leyti um áætlunarupphæðir að ræða. Því gerir stjskr. ráð fyrir fjáraukalögum, og því er ekki hægt að segja, að fjárveitingavaldið sé tekið af Alþingi, þótt greitt sé fram yfir fjárlög. Um slíkt er fyrst hægt að tala, þegar greiðslur utan fjárl. eru orðnar í engu samræmi við fjárl. sjálf. Slíks mætti nefna dæmi, en þó skal ég ekki tefja tímann með því í þetta skipti. Ég vona, að þrátt fyrir smávegis ágreining geti menn orðið sammála um þetta mál í öllum höfuðatriðum.