11.10.1934
Efri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í C-deild Alþingistíðinda. (4789)

42. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Ég vil fyrst svara hv. síðasta ræðumanni. Mín orð var ekki hægt að skilja á þá leið, að ég teldi eftir þann styrk, sem veittur hefir verið í óhjákvæmilegri nauðsyn. Benti ég einmitt á, að það fé hefði verið notað til að bæta úr bráðustu þörf verkafólksins, veitt sem hjálp handa sveltandi fólki. Ég benti á, að þeir Alþýðuflokksþm., sem þykjast bera hag bæjanna og verkafólksins fyrir brjóstinu, ættu ekki að stefna að frekari fólksstraumi en þegar er orðið í kaupstaðina; það mun auka fjölda atvinnuleysingjanna.

Mér mun ekki bregða, þó hv. þm. spyrji, hvers vegna ég hafi ekki lagt frv. þetta fram á síðasta Alþingi. Ég vil svara því til, að síðasta þing var ekki fjárlagaþing, og það þykir ekki varleg fjármálastjórn, að stj. beri fram frv., er auka útgjöld ríkissjóðs, ofan á fjárlagafrv., sem ekki var þó varlegar samið en það var.

Verkefni síðasta fjárlagaþings var líka að bæta þörf bændanna, þar sem hún var mest aðkallandi, sem sé að gera bændunum kleift að komast fram úr skuldasúpunni. Hefði það áreiðanlega dregið úr hjálp til bændanna með kreppulöggjöfinni, og til þess vildi ég sízt af öllu verða. Það er svo með okkar þjóð, að hún er þannig á vegi stödd, að ekki verða allir hlutir gerðir í einu, heldur feta sig áfram stig af stigi, eftir því sem fært er á hverjum tíma. Ég hafði gert nokkur drög að því, að endurskoðuð yrðu jarðræktarlögin, ef ég skyldi hafa tækifæri til að hafa meira um þau að segja en raun er á orðin. Sem þm. sá ég ekki ástæðu til að endurskoða jarðræktarlögin í heild, en vildi ekki láta undir höfuð leggjast að gera mitt til að koma fram þeim breytingum til bóta, sem ég taldi brýnasta þörf á.

Hvað því viðvíkur, er hv. ræðumaður var að tala um, að ég hefði átt að gera þetta og þetta á hinum eða þessum tíma, það tekur maður nú eins og hvert annað venjulegt skraf. Það er um þetta eins og börnin, þegar þau fá ekki strax það, sem þau vilja, að þegar þau loks fá það, segja þau: Þetta hefðirðu getað gert strax. — Ég vil enn benda á það, að við verðum að stiga spor af spori í áttina; við getum ekki gert allt í einu.

Þá verð ég að víkja nokkrum orðum að hv. þm. S.-Þ., þó að hann hafi nú eins og svo oft áður farið allmjög út frá efninu og snúið máli sínu í þá átt að hefja hér eldhúsumr. á fyrrv. stj. Það gætti nú í þetta sinn öllu minni nákvæmni um minni hans en stundum áður. Hann minntist á, að á þinginu í fyrra, þegar ég flutti þáltill. í Ed. um afurðasölumálið, þá hefði ég barizt á móti því, að S. Í. S. hefði nokkuð með það mál að gera eða fengi íhlutun um undirbúning frv. um þau efni. Ég vil algerlega mótmæla því, að ég hafi nokkuð sagt í þessa átt, og held ég, að óhætt muni að fletta upp í þingtíðindunum, að þar muni ekki finnast neitt í þá átt, að ég hafi lagt á móti því, að S. Í. S. væri aðili í þessu máli. Ég hefi ekki heldur barizt móti því, að Alþýðusamb. Ísl. ætti þar einhvern hlut að máli. Hann minntist á það, hv. þm., að dregizt hefði óhæfilega lengi að skipa n., og skal ég þá gera grein fyrir, hvernig í því máli lá. Það dróst að vísu ekki fram á vor, eins og hann sagði. Það var strax eftir þinglok, að ég lagði drög að því að safna skýrslum um þessi efni, m. a. frá 2 Norðurlandaþjóðum, sem ráðstafanir höfðu gert um afurðasölu hjá sér. Jafnframt undirbjó ég skýrslusöfnun um afurðasöluna innanlands.

Í öndverðum febr. skrifað ég þessum aðilum: Samb. ísl. samvinnufél., Búnaðarfél. Ísl., Sláturfél. Suðurlands, Kaupfél. Borgf., Mjólkurbandal. Suðurlands og Alþýðusamb. Ísl., með tilmælum um að útnefna menn í þessa nefnd. Þá stóð svo á, að ýmsar ástæður voru til þess, að þeir þóttust ekki geta þetta þá þegar, m. a. S. Í. S., sem ekki hélt fulltrúafund sinn fyrr en að ég hygg um 20. marz, og þóttist ekki geta tilnefnt menn í nefndina fyrr en að honum afstöðnum. Í öðru lagi var 1 stjórnarmeðlimur úr stjórn Mjólkurbandalagsins utanlands; þess vegna tilnefndi það ekki mann fyrr en seint og síðar meir. Ég vil halda því fram, að nefndin hafi verið skipuð svo fljótt sem framast var unnt, og það jafnvel áður en einn aðili hafði lokið tilnefningu sinni. Og svo komst hv. þm. svo að orði, að í þessu máli hafi orðið stefnubreyting hjá mér síðan í fyrra, þá hafi ég ekki viljað nota till. þessara aðilja. Þetta er beinlínis rangfærsla, og sennilega til orðin í höfði þessa hv. þm. nú. á þessari stundu. (JJ: Ég skal síðar hjálpa þm. til að muna þetta betur). Það lá beinlínis í frumvarpinu, að þessir aðilar skyldu gera tillögur og umsögn þeirra tekin til greina við rannsókn og undirbúning málsins, og ég hygg, að ekki verði fundið úr mínum orðum neitt, er bendi í aðra átt.

En hvað viðvíkur þeim orðum hv. þm., að þetta sé framborið nú af flokksmeting, sé ég ekki ástæðu til að fara langt út í það. Hann bregður ekki þeim vana sínum að ætla öðrum illt, en sjálfum sér gott. Og þó ég skuli ekki draga í efa, að hann sé góður, tel ég órétt að ætla öðrum það, að þeim sé ekki alvara um umbætur. Hvað viðvíkur skoðun minni á þeim öðrum frv., sem fram eru komin frá stj., þarf ég ekki að svara að svo stöddu; það mun koma fram síðar.

Þá kom hann að því máli, sem honum er svo sérstaklega ljúft að tala um, sem er Búnaðarfél. Ísl., og að kasta að því hnútum, og hefir hann valið sér bæði þennan vettvang og annan til þeirrar iðju. Ég vil með sem fæstum orðum lýsa því yfir sem minni skoðun, að ég tel ásakanir hans ekki réttar. Hann vildi kenna Búnaðarfél. um það, að bændur í Árnessýslu notuðu sér ekki tilboð kaupfélagsstj. síns um styrk til votheystótta. Ég hygg, að bændurnir hafi ekki séð sér fært, jafnvel þótt kaupfélagsstjórinn hvetti þá bæði með orðum og lánstilboðum, að ráðast í þessar framkvæmdir, vegna þess hve styrkurinn er lágur. Mér skildist hv. þm. vilja kasta hnútum að mér fyrir að hafa ekki greitt styrk út á súrheystóttir meðan ég var ráðh. En ég taldi mér ekki heimilt að fara út fyrir þær reglur, sem löggjafarvaldið hefir sett, m vel má vera, að hv. þm. hafi ætlazt til, að ég tæki suma fyrrv. ráðherra til eftirbreytni í því að gæta lítið laganna. Viðvíkjandi því, að hv. þm. taldi einhver ósköp, að nokkrir dugandi bændur hefðu komið sér upp áburðarhúsum með þaki úr steinsteypu, tel ég slíkt enga goðgá, svo framarlega sem efni þeirra leyfa slíkt. En hitt, að Búnaðarfél. Ísl. hafi skipað svo fyrir, það er alrangt, þó að það hafi gefið leiðbeiningar um, hvernig koma megi upp slíkum húsum á sem ódýrastan og hagkvæmastan hátt.

Ég bið engrar afsökunar á því, þó ég beri fram þetta frv., þó að af því kunni að leiða nokkurn kostnaðarauka. Ég sé af þeim frv., sem stj. hefir þegar lagt fram, að hún ætlar sér að afla töluverðs tekjuauka, og tel ég þá ekki fjarri sanni, þó einhver hluti þess gangi til að styrkja bændurna í landinu.

Hv. þm. skjöplast alveg minni í því efni sem fleiru, er hann sagði, að fyrrv. stj. hafi afnumið framlagið, er ætlað var til vélasjóðsins. Áður en ég kom í stjórn voru samþ. lög á Alþ. um það efni að fresta framkvæmd þeirra laga. Þá sat hv. þm. S.-Þ. í stj. landsins, og hygg ég, að það frv. hafi ekki verið samþ. að honum nauðugum. Ætla ég, að svo mikil völd hafi hann haft á því þingi.

Hvað því viðvíkur, að í Rvík hafi verið byggð mörg hús, þá er það rétt, að ýmsir borgarar hafa lagt óeðlilega mikið fé til þeirra hluta. En ég veit ekki hvort hv. þm. þarf að fara út fyrir sinn flokk til að finna þess dæmi,, og sízt ef þeir 2 flokkar, sem standa að núv. stjórn og ganga að vísu undir 2 nöfnum, eru aðeins einn flokkur.

Viðvíkjandi lántökum í tíð fyrrv. stj. ætla ég nær fyrir hv. þm. að beina spjótum sínum til fyrrv. fjmrh. á réttum vettvangi, eða á þeim stað þar sem hann er til andsvara.

Það hefir nú farið samkv. venju, þegar þessi hv. þm. tekur þátt í umr., að hann heldur sig lítt við efnið. Bið ég því afsökunar, að ég hefi orðið vegna ræðu hans að víkja nokkuð frá efni frv., sem hér liggur fyrir.