11.10.1934
Efri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 468 í C-deild Alþingistíðinda. (4792)

42. mál, jarðræktarlög

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég er bráðum dauður, og verð því að geyma margt af því, sem ég vildi sagt hafa, til næstu umr.

Hv. 10. landsk. sagði, að það hefði glatt sig, að ég hefði sagt að ekki væri nóg að eyða. Hann hefir víst haft þetta í huga, er hann gekk í bandalag og settist í stjórn með þeim ráðherra íhaldsins, sem á einu ári eyddi 13 millj. króna fram yfir fjárlög.

Hv. þm. sagði, að ég hefði látið svo um mælt, að nógir peningar hefðu verið í Kreppulánasjóði í fyrra. En ég sagði aðeins, að hv. 10. landsk. hefði eins staðið opið að bera þetta frv. sitt fram þá eins og nú. En ég benti ennfremur á það, að lagasmíðin um Kreppulánasjóð hefði að ýmsu leyti verið flýtisverk, sem þyrfti lagfæringar við. Þannig lagði hv. 10. landsk. íhaldinu lið sitt til þess að fella till. þeirra þáv. 1l. 1. þm. Skagf. og hv. þm. S.-Þ., og sló þannig öll vopn úr höndum til að hjálpa ábyrgðarmönnunum. Nú hefir einn stjórnarmaður sjóðsins, sem sæti á hér í deildinni, borið ásamt ýmsum öðrum hv. þm. fram frv. til að bæta fyrir mistök h. 10. landsk. og flokksbræðra sinna í þessu efni.

Hv. 10. landsk. var að tala um, að róðurinn fyrir lögunum um Kreppulánasjóð hefði verið þungur. Hann má þá þakka það íhaldinu, sem hann leitaði síðar bandalags við. Byrjunar málsins er fyrst að leita á flokksþingi Framsfl. Það var fyrst rætt í Tímanum, og Samband ísl. samvinnufélaga setti sinn svip á málið. Framsókn hóf málið og knúði það fram. Íhaldið var alveg áhugalaust um málið og jafnvel fjandsamlegt því, og sjálfur var hv. 10. landsk. fremur þungur undir klyfjum; enda þótt Sjálfstfl. væri þá ekki enn alveg búinn að gleypa hann og einkafyrirtæki hans með húð og hári, eins og núv. formaður Sjálfstfl. hefir staðfest svo ótvírætt í hirðisbréfi, sem hann sendi út í september síðastl., þar sem hann tekur fram, að íhaldið og einkafyrirtækið séu ein hjörð undir einum hirði, og hlutkestið í Skagafirði hafi eitt hindrað fullan sigur íhaldsins í kosningunum. (MG: Mætti ég sjá þetta hirðisbréf?). Það verður til á prenti í fyrramálið, og hv. þm. fær það með morgunkaffinu.

Þá sagði hv. 10. landsk., að afurðasalan hefði verið brennandi áhugamál fyrrv. stj. Hv. þm. klauf Framsfl. í fyrra og hefir því víst ætlað að leysa það mál með íhaldsmönnum. En hvernig hefir svo hjálp íhaldsins reynzt í þeim málum? Það þarf ekki að endurtaka það, að hv. 10. landsk. gerði ekkert í málunum í sinni ráðherratíð. En síðan hin nýja stj. tók málin í sínar hendur hefir íhaldið, flokkur hv. 10. landsk., samkv. yfirlýsingu Ólafs Thors, sýnt öllum framkvæmdum í þessum málum fullan fjandskap í orði og verki. Í þinginu hafa íhaldsmenn haldið uppi málþófi dag eftir dag, til að tefja framgang allrar lagasetningar um þessi efni, og blöð flokksins hafa í allt haust haldið uppi rógi og ofsóknum á hendur þeirra, sem hafa verið að leysa málin. Svo langt hefir fjandskapur þessara nýju bandamanna hv. 10. landsk. gengið, að blöð íhaldsins hafa ekki kunnað sér læti fyrir gleði yfir nokkrum hvalþjóttum, sem rak á land suður með sjó, af því að þau vonuðust til, að þjótturnar gætu spillt fyrir kjötsölu bænda. Samband hv. 10. landsk. við íhaldið, sem kaus hann í landbn. hér í deildinni, sýnir, að honum er ekki minnsta alvara um landbúnaðarmálin. Fyrir rúmri viku birtist í Mgbl. leiðari, þar sem bæði Kreppulánasjóður og Byggingar- og landnámssjóður voru bannsungnir, að ógleymdum auðvitað héraðsskólunum og yfirleitt öllum öðrum framförum í sveitum landsins síðustu árin.

Út af því, sem hv. 10. landsk. sagði sér til afsökunar því, að hann hefði ekki greitt mjólkurbúastyrkinn, vil ég segja það, að eftir þing í fyrra afhenti meira en helmingur þm. atvmrh., sem þá var hv. 10. landsk., skjal, þar sem þeir lýstu yfir þeim skilningi sínum og vilja, að styrkurinn ætti að útborgast úr ríkissjóði Skilyrðislaust, en hv. 10. landsk. þrjózkaðist samt við að greiða styrkinn, og þóttist sjálfur skilja lögin betur en meiri hl. þess þings, sem hafði sett þau og samþ.