11.10.1934
Efri deild: 8. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í C-deild Alþingistíðinda. (4793)

42. mál, jarðræktarlög

Flm. (Þorsteinn Briem) [óyfirl.]:

Hv. þm. S.-Þ. var að tala um flýtismerki á löggjöf kreppulánasjóðs. Mér þykir þetta nú satt að segja koma úr hörðustu átt, því að engin augljósari merki eru á hans eigin frumvörpum en einmitt flýtismerki. Annars lagði hann sjálfur ekki svo mikla vinnu í þá löggjöf, að á honum sitji að tala um það, þó að gera þurfi nokkrar endurbætur á lögunum.

Auðvitað er það fullkomin vitleysa hjá hv. þm. S.-Þ., að tillaga þáv. hv. 1. þm. Skagf. og hv. þm. S.-Þ. á þinginu 1933 hafi snert ábyrgðarmennina og átt að vera þeim til hjálpar. Það frv., sem nú er flutt, kemur ekki nálægt þeirri tillögu. Þetta eitt út af fyrir sig sýnir, hve litla alúð þessi hv. þm. leggur við það, að vita rétt og tala rétt.

Hv. þm. talaði mikið um það, að flokkur minn hefði lagt lag sitt við annan flokk. Ég vil mótmæla þessu harðlega. Flokkur minn er algerlega sérstakur og sjálfstæður flokkur, sem fylgir málunum vegna þeirra sjálfra, en ekki vegna flokka né einstakra manna. Um „hirðisbréfið“ get ég geymt mér að segja nokkuð þangað til ég les það í fyrramálið. En ég vil hér með mótmæla því sem staðleysu, hver sem það segir, að Bændafl. sé eða hafi verið í bandalagi við nokkurn flokk.

Ég vil ennfremur mótmæla því, að hv. þm. S.-Þ. eða hans núv. nánustu samherjar hafi átt upptökin að stofnun kreppulánasjóðs. Ef menn lesa Tímann frá 1932, sést ekki vottur þess, að blaðið ætli að taka þá stefnu í kreppumálunum, sem tekin var. En er aðrir höfðu hafið forgöngu fyrir málinu og rekspölur var kominn á það, þá fyrst fer hv. þm. og blað hans að berjast fyrir málinu.

Hv. þm. kenndi mér um það, að einhver blöð hérna í bænum hefðu verið að fagna yfir hvalreka suður með sjó. En ég deildi einmitt á þessi blöð í umr. um kjötsölumálið og sagði, að framkoma þeirra í þessu efni hefði ekki verið þeim til sóma.

Enn er hv. þm. að halda því fram, þvert ofan í staðreyndir, að ég hafi ekki skipað afurðasölunefndina fyrr en ég neyddist til, þótt sannanlegt sé, að ég var fyrir hálfum öðrum mánuði búinn að biðja þá aðila, sem fulltrúa áttu að fá í nefndinni, að skipa menn í hana, áður en allir aðilar sæju sér það fært.

Hv. þm. segir, að einhver hluti þingmanna hafi skrifað undir áskorun þess efnis, að greiða mjólkurbúastyrkinn skilyrðislaust. Þetta plagg kom aldrei í mínar hendur, en mér var hinsvegar sagt frá því af þingmanni úr Nd. En hvað sem því líður, geta óformlegar yfirlýsingar utan þings ekki upphafið skýran lagabókstaf. Og hv. þm. S.-Þ. verður að virða mér til vorkunnar, þótt ég hafi gefizt upp við að taka hann mér til fyrirmyndar um útborganir úr ríkissjóði, án þess að lagaheimildir væru á bak við.