15.10.1934
Efri deild: 11. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 471 í C-deild Alþingistíðinda. (4797)

35. mál, Kreppulánasjóður

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Ég hefi leyft mér að leggja þetta frv. fram hér í hv. d., þótt það sé að vísu gamall kunningi frá fyrri árum hér á þingi. Þó mun frv. aldrei hafa enzt aldur til að komast hingað til hv. Ed.

Ástæðan til þess að frv. er enn fram komið, er sú, að það er krafa allra þeirra sjómanna, sem hér hafa hagsmuna að gæta, og standa þeir, eða a. m. k. mikill þorri þeirra, bak við þessa kröfu, er í frv. felst. Mér er vel kunnugt um, að meðlimir þess félags, sem ég veiti forstöðu, óska þess eindregið, að frv. nái fram að ganga, og það sem fyrst.

Það hefir að vísu verið ágreiningur um þetta mál á undanförnum þingum, hvort sú regla skyldi lögfest, að vega síld til bræðsluverksmiðjanna í stað þess að mæla. En reynslan hefir þegar sannað, að vigtun síldar er mjög hagkvæm regla og útilokar í flestum atriðum, að ég hygg, allan ágreining um það, að þessi vara sé seld eftir nokkurnveginn réttum mælikvarða. Hinu er ekki að neita, að ágreiningur hefir orðið milli kaupenda og þeirra, sem hagsmuna hafa að gæta við afhendingu síldarinnar, þegar hún hefir verið seld eftir máli. Með þessu frv., ef að l. verður, er sá ágreiningur úr sögunni. Eftir því, sem ég veit bezt, eru allar stærri síldarverksmiðjur búnar að taka upp vigtun síldar, allar verksmiðjur á Siglufirði og verksmiðjan á Krossanesi. Eftir því, sem mér hafa tjáð útgerðarmenn, sem þessum verksmiðjum hafa selt, er salan miðuð við kílóeininguna. Og svo nákvæmlega er farið að í Krossanesverksmiðjunni, að verðið var miðað við 2,2 aura fyrir kg. Eftir þessari reglu er líka farið við heildaruppgerðina á öllum aflanum. Það, sem veldur því, að heppilegra er að vega en mæla síldina, er fleira en eitt. Í fyrsta lagi er máleiningin á síldinni ekki alltaf hin sama, þ. e. a. s. síldin er í misjöfnu ásigkomulagi. Ef síldin er nýveidd, þá helzt hún stíf í kerunum, en sé hún búin að liggja e. t. v. marga daga, þá er hún orðin lin, og í málið fer þá miklu meiri þyngd, miðað við máleiningu, en gert er ráð fyrir í l., eða 135 kg. Þessi aðferð er því í mesta máta ónákvæm, og styður það að því að tekin sé upp vigtun í stað mælingar. Í öðru lagi má benda á, að í mörgum tilfellum er aðstaðan þannig, að þótt mælikerin hafi verið mokuð full í skipinu, hristist þó nokkuð úr þeim á leiðinni, og eru alls ekki full þegar á land er komið. Um þetta verður því togstreita milli kaupanda og seljanda. Þeir menn, sem ráðnir eru upp á aflaverðlaun, hafa þarna hagsmuna að gæta, því að það hefir fyrir þá ekki lítið að þýða, hvort lögð eru í land fleiri eða færri mál.

Ég skal þegar upplýsa, að þar, sem ennþá er mæld síld, hefir komið að mun minna úr sama skipi, t. d. úr fullu lestarrúmi, ef mælt er úr því, heldur en ef vegið er úr sama lestarrúmi.

Ég álít mig ekki þurfa að hafa lengri framsöguræðu fyrir þessu máli. Ég geri ráð fyrir, að málið fái þinglega meðferð og sé athugað nánar í n. Þótt ég hafi flutt frv. svona, er mér þegar ljóst, að eina smávægilega breyt. þarf að gera á því. Vona ég, að um það náist samkomulag í n., og legg til, að frv. sé vísað til sjútvn.