22.10.1934
Efri deild: 18. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í C-deild Alþingistíðinda. (4800)

35. mál, Kreppulánasjóður

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi skrifað undir þetta nál. með fyrirvara, og er fyrirvarinn sá, að ég tel þarflaust að samþ. frv. Það er svo ákveðið í l. frá 1930, að ef menn koma sér ekki saman um að mæla síld, skuli hún vegin, og þetta frv. segir í rauninni það sama. Ég hygg, að hingað til hafi verið samkomulag milli seljenda og kaupenda, þar sem síld hefir verið mæld. En nú er það þannig, að í sumum tilfellum eru þeir margir, sem eiga síldina, bæði hlutarmenn og premiumenn á skipunum, sem eiga hver sinn part.

Ég var að líta í umr. um þetta sama mál frá 1932, og sá, að þáv. flm. þessa máls (þm. Ísaf., Vilm. Jónsson) sagði m. a.: „Ég get gjarnan látið það liggja milli hluta, hvort heppilegra sé yfirleitt að vega síld eða mæla“. Þá voru nú ekki þyngri rök fyrir hendi fyrir því að vega síld fremur en mæla, og ég hygg, að ástæðurnar hafi ekkert breytzt síðan, enda eru með þessu frv. ekki felld úr 1ögum ákvæðin um það, að seljendur og kaupendur megi koma sér saman um það, hvora aðferðina þeir noti.

Ef út í það er farið að bera sama mál og vigtareiningu og deila um það, þá má náttúrlega viðurkenna það, að málin taka dálítið misjafnt, eftir því hvernig síldin er í hvert skipti. Þegar hún er ný og stíf, þá fer minna í hvert mál heldur en í vigtareiningu, sem er 135 kg., en ef síldin er lin, þ. e. a. s. farin að meyrna og skemmst, þá fer aftur meira en ein vigtareining í málið, en það hefir nú verið svo, að þetta hefir alveg jafnað sig, eftir þeim upplýsingum, sem ég hefi fengið. T. d. var sama útkoma á Hesteyri og Sólbakka árið 1932, þannig að báðar þessar verksmiðjur fengu jafnmikið lýsi miðað við síldarmagn. Það munaði ekki einu sinni ½%, og þó er síldin vegin á Sólbakka, en mæld á Hesteyri.

Ef megnið af síldinni er nýtt, þegar hún kemur í verksmiðjurnar, þá verður meira úr henni, ef hún er mæld heldur en ef hún er vegin. Verksmiðjueigendur óska að fá hana sem nýjasta, því hún er meira en þeim mun verðmeiri. Ef síld kemur legin í verksmiðjurnar, þá fær verksmiðjan meiri síld undir flestum kringumstæðum með því að mæla hana en vega, en samt sem áður verðminni vöru. Auk þess þegar mælt er, getur svo og svo mikill sjór verið í síldinni. Þegar síldin er stíf, gerir þetta ekki svo mikið til, því þá fellur sjórinn í bilin milli síldanna, en þegar hún er legin, gerir hann það ekki, heldur orsakar það, að minna fer í málið, þó auðvitað sé reynt að láta það vera sem minnst.

Það er hér í lögum og hefir lengi verið, að sumar vörur sé skylt að selja eftir vigt, en ekki máli eða tölu. Er það svo t. d. um salt og egg, en þessu er ekki alltaf hlýtt. Sumstaðar er salt selt eftir máli, af því það þykir þægilegra og fljótlegra. Þarna er samkomulag þeirra, sem selja og kaupa, alveg eins og verður í þessu tilfelli.