19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í C-deild Alþingistíðinda. (4815)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, sem hv. 2. þm. S.-M. og ég flytjum, skýrir sig að mestu leyti sjálft, svo langa framsöguræðu er óþarft að halda.

Höfuðástæðan fyrir því, að við berum þetta mál fram, byggist á því, eins og segir í grg. frv., að hér sé um svo mikil björgunartæki að ræða á skipum. L. um loftskeytastöðvar á skipum gera ekki ráð fyrir því, að flutningaskip undir 1600 smálestum séu búin slíkum tækjum. Þau l., sem nú gilda, er að finna í reglugerð hjá okkur, en eru byggð á alþjóðalögum. En samt sem áður er nokkur ástæða til að skylda þessi skip, sem hér um ræðir, til þess að hafa loftskeytastöðvar. Það þarf ekki að fara langt út í þá sögu til þess að geta tilnefnt dæmi, þar sem einmitt loftskeytatækin hafa orðið til þess að bjarga mörgum mannslífum. Hjá okkur hefir það verið svo um langt skeið, að togararnir hafa allir verið útbúnir með þessum tækjum, og er óhætt að segja, að þau hafi meðfram verið sett af brýnni þörf útgerðarmanna, til þess að hafa náið samband við skipin í sambandi við veiðar þeirra, en hitt hefir líka ráðið miklu, að skipin væru öruggari með að kalla á hjálp, ef í nauðirnar ræki. Nákvæmlega það sama hlýtur að gilda um þau skip, sem sigla allan ársins hring til fjarlægra landa í misjöfnum veðrum, sem margt getur komið fyrir á hafi úti, sem enginn fengi vitneskju um, ef ekki væru loftskeytatæki annars vegar. Af þessum orðum mínum má ráða það, að í fyrsta lagi viljum við flm. skylda skipin til þess að hafa þessi loftskeytatæki vegna þess, hve mikil björgunartæki þau eru. Í öðru lagi er það ólíkt þægilegra fyrir eigendur skipanna að geta haft samband við þau, ef til kæmi, að breyta þyrfti um ákvörðunarstað, eins og oft kemur fyrir, en það er ekki hægt, ef skipin eru ekki útbúin slíkum tækjum.

Eins og sjá má í grg., þá veit ég ekki til þess, að skip af þessari stærð séu hér fleiri en 5, sem án loftskeytastöðva eru, og eru það aðallega hin nýkeyptu skip, sem hér er um að ræða. Selfoss, sem eingöngu er notaður til flutninga, hefir móttökutæki, en ekki loftskeytastöð, og getur því ekki sent frá sér skeyti. Þess vegna er hann hér tekinn með.

Að frv. standa Loftskeytamannafélag Rvíkur og sjómannafélögin í Rvík og Hafnarfirði, og ég hygg, að óhætt sé að fullyrða, að það, sem liggur á bak við, sé aukið öryggi á sjónum. Við Íslendingar erum nú að vakna til meðvitundar um það, hve nauðsynlegt sé fyrir okkur að beina allri orku til þess að hafa allskonar björgunartæki við hendina, bæði á landi og sjó. Kostnaðurinn við þessi björgunartæki, sem hér um ræðir, er að vísu nokkur, ég skal játa það. Ég þori ekki að fullyrða um það hvað mikill hann muni verða, en ég hygg, að loftskeytatæki séu eitthvað ódýrari nú en verið hefir; geri þó ráð fyrir, að kostnaðurinn sé ekki meiri en svo, að hverju útgerðarfélagi ætti að vera kleift að koma þessu á.

Ég býst ekki við, að þetta frv. mæti mikilli andstöðu. Ef ég þekki rétt hugi manna, þá virðast allar tilraunir til þess að tryggja líf manna á sjónum mæta velvild, hvaðan sem þær koma, að svo miklu leyti sem okkur er kleift að framkvæma þær. Og í því trausti legg ég þetta frv. fyrir deildina.

Ég tel rétt, að málinu sé vísað til nefndar, og lægi þá sennilega næst að vísa því til sjútvn. Legg ég til, að svo verði gert.