19.10.1934
Efri deild: 16. fundur, 48. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í C-deild Alþingistíðinda. (4817)

74. mál, loftskeytastöðvar á flutningaskipum

Flm. (Sigurjón Á. Ólafsson):

Fáein orð. Ég hefi ekki ástæðu til annars en að þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir undirtektirnar um nauðsyn þessa máls. En á þessu stigi málsins skal ég ekki fara út í það, hvort það er kleift að skylda skipin til að hafa loftskeytastöðvar. Ég er ókunnugur rekstrarafkomu þessara skipa, og sum þeirra hafa verið stutt í okkar eign. En ég verð að líta svo á, að þetta sé eitt að þeim óumflýjanlegu tækjum, sem verða að fylgja hverju skipi. Skipin hafa verið keypt heldur vægu verði, og þótt þessi kostnaður bættist við, þá myndi það ekki auka svo ýkjamikið rekstrarkostnaðinn. Stöðin myndi sennilega kosta innan við 10 þús. krónur. Aftur á móti tel ég það fullílagt, að áætla rúman 6000 kr. kostnað við loftskeytamann. (MJ: Ég áætlaði hann 5000 kr.). Þeirra byrjunarlaun munu vera um 300 kr. á mánuði, sem hækka svo eftir starfstímalengdinni; en á svona skipum gæti loftskeytamaðurinn oft sinnt ýmsum öðrum störfum, svo sem bókhaldi og skýrslugerðum o. fl. En um hitt atriðið vil ég á þessu stigi málsins ekki ræða mikið, nefnil. þá samkeppni, sem okkar siglingar eiga við að búa frá erlendum þjóðum. Ef til vill gefst okkur tækifæri til að ræða um það síðar. Ég get tekið undir það með hv. þm., að mér þykir hún ganga allt of langt, og ég hygg, að ef íslenzka þjóðin eða þeir menn, sem þar eiga mest um að fjalla, væri betur á verði um að bægja frá jafnóheilbrigðri samkeppni, þá gætum við verið betur á vegi staddir í þessum efnum en raun ber vitni um. Fyrir mér er þetta stórmál, sem ég tel ástæðu til að athuga af alúð. Norðmenn reka hér óeðlilega samkeppni, og sum þeirra skipa, sem okkur bjóðast til flutninga, eru ekki betri en svo, að suður á Spáni er farinn að koma upp uggur um að nota þann fisk, sem kemur með þessum skipum, vegna skemmda. En síðan okkar skip fóru að flytja fiskinn er sagt, að honum sé tekið með miklu meiri velvild og talinn geymast betur. Væri vel athugandi, hvort það ætti að binda sig við hina frjálsu samkeppni um flutningsgjöldin, þegar okkar skip eiga í hlut. Ég skal ekki fara langt út í þetta mál á þessu stigi, en ég get fullvissað hv. þm. um, að ég ann okkar siglingum og vil gjarnan gera fyrir þær það, sem heilbrigt og gott má teljast. Það er að vísu rétt, að kopparnir, sem Norðmenn bjóða okkur til flutninga, hafa enga skyldu til að hafa loftskeytamenn eða loftskeytatæki samkv. alþjóðareglum um þau efni. Loftskeytaskyldan er bundin við minnst 1600 smál. skip; en eftir því, sem ég veit bezt, mun verða hert á þeim kröfum, og er sérstök alþjóðleg björgunarmálanefnd, sem hefir þessi mál til meðferðar. Heldur hún fundi á tveggja til þriggja ára fresti, fyrir tveimur árum í London, og nú síðast í Madrid. Eru þar tekin fyrir mál, sem lúta að öryggi manna á sjónum. Á síðasta fundi nefndarinnar þótti ekki fært að ganga lengra en að miða loftskeytaskylduna við minnst 1600 smál. skip. En í uppsiglingu er, að þessi skylda nái einnig til skipa, sem eru enn minni. Samkv. okkar gildandi l. er hvert okkar skip skylt að hafa loftskeytatæki, ef það flytur farþega, og ég verð að álíta, að þótt ekki sé nema 20 manna skipshöfn á þessum skipum, þá eigi þeir að njóta sama réttar sem farþegar. Nú hafa þessi skip annazt fólksflutninga Jafnframt vöruflutningum. Hafa þau sæmilegan útbúnað miðskipa fyrir farþega, og er það notað bæði með ströndum fram og milli landa. Hefir því mátt líta svo á, sem núgildandi l. næðu til þeirra, þegar þau taka farþega. Hinsvegar munu útgerðarfélögin ekki líta svo á, af því að aldrei hefir um þetta verið fengizt. Ég skal svo ekki fara um þetta fleiri orðum að sinni. Vænti ég, að við fáum að rabba meira um þetta mál, þegar n. hefir athugað það og kynnt sér allt, sem að því lýtur.